laugardagur, júlí 30, 2005

Ég var mjög taugaveikluð í gær og það ástand varði í u.þ.b. tvo tíma eftir að síðasta færsla var rituð. Það kemur fyrir á bestu bæjum að bloggarar þurfa að pissa og ég er þar engin undantekning. Sem ég var að spúla á mér lúkurnar varð mér litið í spegilinn og hvað haldiði að ég hafi séð? Helvítis fluguskrímslið sat í mestu makindum á skyrtunni minni, rétt neðan við hálsmálið. Hefur sjálfsagt verið að bíða færis að bíta mig á háls og drekka úr mér allt blóð. Ég sá mér þann kost vænstan að grípa salernispappír og ná kvikindinu, fyrst slapp hún við pappírinn en með ótrúlegri þrautsegju tókst mér að handsama óvættina. Ég var reyndar fyrr um daginn ítrekað búin að reyna að slá hana með bókinni minni(sem m.a.o. er 734 síður og því nokkuð farg fyrir meðal flugu)en hún færði sig bara undan í mestu makindum og slapp því við hvert einasta högg. Ég meina... það var ekki eins og hún væri að fljúga í burtu heldur labbaði hún bara eins og hún væri á skemmtigöngu á fallegum sumardegi (sem var reyndar raunin). En ég var víst komin að þessari örlaga stundu þegar ég stóð með kvikindið vafið inn í klósettpappír. Mér fannst ég vera almáttug þar sem ég hafði örlög hennar algjörlega og bókstaflega í hendi mér. Án nokkurrar eftirsjár kreisti ég pappírsvöndulinn af öllum lífs og sálar kröftum og ég held að ég hafi rekið upp hlátursroku um leið. Hvað haldiði að hafi svo gerst? Þú gast rétt (rokkprik fyrir þann sem fattar hvaðan þetta tilsvar er komið), mér rann kalt vatn milli skinns og hörunds þegar ókindin ætlaði að fara enn eina skemmtigönguna og með hryllingsópi kuðlaði ég vöndlinum saman aftur, fleygði honum í salernið og sturtaði niður. Þegar ég kom náföl og í mikilli geðshræringu fram í sal þá mættu mér undrandi og jafnvel óttaslegin andlit gestanna sem höfðu fram að því gætt sér á kaffi og síldarbrauði og höfðu ekki grun um að það væri nokkuð misjafnt á seyði. Það er alveg á hreinu að ég ætla sko ekki að lyfta lokinu á salerninu framar, ég verð bara að halda í mér ef nauðsyn krefur.
Ég hlýt að eiga mér ókunnan fjandmann, fjölkunnugan ofan í kaupið.

Þegar ég var búin að vinna fór ég á videoleigu og tók "Exorcist: The Beginning" en í henni eru einmitt skemmtileg atriði þar sem flugur og lirfur skríða út úr kýlum á fólki og svona. Afar gáfulegt.

föstudagur, júlí 29, 2005

Ég er stödd í Golfskálanum akkúrat núna og er orðin gjörsamlega PARANOID. Lítið flugukvikindi eltir mig um allt hús og þráir greinilega ekkert heitar en að skríða inn í mig. Þegar ég var helmingi yngri, dreymdi mig einu sinni að fluga skriði út úr kýli á olnboga mínum, umkringd hvítu slími. Hún reyndi svo ítrekað að skríða inn í mig aftur og ég man ekki hvernig eða hvort draumurinn hélt áfram. Er martöðin að rætast? Ég er búin að sprauta flugnaeitri út um allt og mig klæjar bókstaflega allsstaðar. Þetta er eflaust meinlaust kvikindi og það er fjári óþægilegt að kippast við í hvert sinn sem ég sé eða heyri í flugu því að það er allt morandi í þeim hérna.
Ó, það er bíll að renna hér í hlaðið... þrír menn í hvítum sloppum stíga út og einn þeirra heldur á hvítum jakka með óvenjulöngum ermum. Hvað skyldu þeir vilja?

fimmtudagur, júlí 28, 2005

Eiginmaðurinn stal tölvunni minni í nokkra daga og ég nennti ekki að blogga á risaeðluna sem leggur undir sig stofuna.

Þorpið segiði?
Ég er búin að vera hér síðan í byrjun júní, til að byrja með bjuggum við leibbalingur hjá tengdó og það var, skal ég segja ykkur, algjört lúxuslíf. Morgun-, hádegis- og kvöldverður framreiddur daglega og heitur pottur í kaupbæti. Lingurinn lærði að synda á hverjum morgni og að ríflegum hádegisverði loknum, stjórnaði ég honum og öðrum villingum á leikjanámskeiði. Þann 16. júní (sem er m.a.o. afmælisdagurinn minn) fengum við höllina afhenta. Öðru leikjanámskeiði, tveimur gæsapartýum, tveimur brúðkaupum, sumarfríi og heilmikilli vinnu í Golfklúbbi Þorlákshafnar síðar, eru enn milljón kassar óuppteknir, engin húsgögn eru komin í borðstofuna, hillur vantar í bílskúrinn, múrviðgerðir á húsinu eru enn ekki hafnar, enn hefur ekki verið borið á sólpallin en ljósi punkturinn er að ég á fína, mjúka stóla úti og grill í lagi. Kemur það einhverjum á óvart að við ætlum að vera heima um helgina?
Næst skal ég segja ykkur meira frá því hvernig það er að búa í Þorpi Satans (?).

mánudagur, júlí 25, 2005

Hvaða óargadýr át kommentakerfi Uppglennings?
Ég er komin heim, ógeðslega brún og feit eftir fríið. Ég er of þreytt til að blogga að ráði núna en bæti úr því á morgun (ef ég nenni). Kötturinn er enn lifandi og ég skipaði manninum mínum að fara í bæinn og kaupa garðhúsgögn. Get ekki alveg gert upp við mig hvort ég eigi að grilla silung úr Frostastaðavatni eða lambalærissneiðar úr Nóatúni í kvöld. Lofa að láta vita hvað verður ofan á. Nú ætla ég að fá mér frostpinna.

föstudagur, júlí 15, 2005

Ég hef ekki verið sérlega dugleg að blogga að undanförnu en það á sér allt eðlilegar skýringar. Ég ætla ekki heldur að vera dugleg núna, vildi bara láta ykkur vita að nú skal haldið á vit ævintýranna norðan heiða og að netsamband er örugglega ekki til staðar í Barbaríu. Það getur vel verið að ég segi ykkur frá lífinu í Þorpinu þegar ég kem heim. Eða ekki.

þriðjudagur, júlí 12, 2005


Þarf að segja eitthvað meira? Posted by Picasa

Um helgina naut ég þeirra forréttinda að vera viðstödd brúðkaup þessara heiðurshjóna. Til hamingju kæru vinir! Posted by Picasa

fimmtudagur, júlí 07, 2005

Svakalega er þetta stutt frá okkur.
 
eXTReMe Tracker