sunnudagur, október 23, 2005

Á morgun ætla ég að útvega mér hvíta rós til að festa í barminn og svo bruna ég í bæinn. Ég hvet alla til að gera það sama, líka stráka og kalla. Ef þið hættið að vinna en komist ekki á fundinn, ekki fara heim að þrífa, hringið frekar í vinkonur ykkar og gerið eitthvað skemmtilegt saman eða eigið góða stund með sjálfum ykkur.
Sjáumst í bænum.

föstudagur, október 21, 2005

Það hefur margoft sýnt sig að blogg er merkilegt fyrirbæri og til margra hluta nytsamlegt.
Fyrir allmörgum mánuðum fékk Ágúst Borgþór* nokkuð sérstakan og forvitnilegan gest inn á kommentakerfið sitt. Ég elti þennan furðufugl inn á heimasíðu hans** og við tók spennandi lestur, það var samt augljóst að maðurinn var frekar veikur í höfðinu en hann var jafnframt áhugaverður. Síðar kom í ljós að Ágúst var ekki sá eini*** sem naut þeirra vafasömu forréttinda að "kynnast" manninum.

Ég veit fátt sniðugra en þetta.
Ágúst, varst þú með í plottinu eða ert þú jafn hissa og við hin?

*
** (einu sinni var meira efni á síðunni)
***

þriðjudagur, október 18, 2005

það er víst tímabært að sýna eitthvað lífsmark.
Ótrúlegur fjöldi kvittaði og það er bara gaman að því. Ástæðan fyrir þessari heimtufrekju var sú að ég heyrði um óvæntasta fólk í fjölskyldunni og vinahópnum sem les en heimturnar voru ekki sérlega miklar á þeim vígstöðvum en þeim mun meiri á öðrum.

Lífið gengur sinn vanagang hér í Þorpinu, ekkert sérlega fréttnæmt kannski. Kórinn er byrjaður að æfa jólalög og ég á í harðri baráttu við jólafólið sem í mér býr, ég ÆTLA samt ekki að sleppa því út fyrr en í byrjun desember og beiti sjálfsdálleiðslu til þess að gleyma jólalögunum milli æfinga.

Fjölskyldulífið er gott og alls konar samningaviðræður eru í gangi, við erum jafnvel að komast að niðurstöðu um húsgögn í stofuna og smá fíniseringar sem nauðsynlegar eru.

Við vorum nokkur sem hittumst á bókasafninu í síðustu viku í þeim tilgangi að endurvekja leikfélag Þorpsins og erum nú þegar farin að huga að verkefnum vetrarins. Mér líður pínu eins og ég sé aftur komin í menntaskóla en samt ekki.

Ég er búin að hlusta mikið á nýju Franz Ferdinand plötuna og varð ekki fyrir vonbrigðum, hún er töluvert öðruvísi en fyrri platan, bæði harðari og blíðari og bara frekar góð. Reyndar leið síðasta vika í einhverju móki því að ég var meira og minna með þessa tónlist í eyrunum.

Ég get ekki opnað augun á morgnanna nema með aðstoð augndropa. Hvað á það að þýða?

þriðjudagur, október 11, 2005

Lítill fugl hvíslaði því að mér að ég ætti laumulesendur sem láta aldrei vita af sér. Nú ætla ég að biðja ykkur, kæru vinir, að kvitta í kommentakerfið og ég neita að blogga meira fyrr en allir hafa kvittað.

p.s. til hamingju með nýju íbúðina Íris!

laugardagur, október 08, 2005

Mömmu finnst ég ekki nógu dugleg að blogga og það er svo sem alveg satt en um hvað á kona að skrifa þegar hún er "einstæð" móðir sem liggur í krankheitum og les Ísfólkið til að þurfa ekki að reyna á heilann? Ég hef ekki haft orku í að hanga á netinu eða horfa mikið á sjónvarpið en ég afrekaði þó að sjá batsjelorinn í gær. Það var gaman. Ég held með þeirri sem sagði "Steini, þú veist hvað þú átt að gera!" þó ég muni ekkert hver það var. Sú sem sagðist koma sterklega til greina að fá ekki rós... tja... nóg um batsjelorinn sem mátti ekki heita Piparsveinninn en þátttakendur og stjórnendur nota samt íslenska orðið markvisst.

Eiginmaðurinn er búinn að vera á flandri með kúbverskum ráðherrum en ég endurheimti hann seint í gærkvöldi, hafði hann heimboð til Kúbu og ekta Havanavindla í fórum sínum. Minn bíður áramótanna.

Ég vil vekja athygli á að ég skráset merkileg móment í lífi sonar míns, hann á hlekk hér til hliðar. Sko mamma, ég er búin að blogga fullt í vikunni.

Nú ætla ég að fara og segja nei við sameiningu sveitarfélaga í Ölfusi og Flóa.

þriðjudagur, október 04, 2005

Á ferð minni um bæinn áðan sá ég verslunarstúlku terrorisera gamlan mann til að kaupa handa henni blóm, börn á leið heim úr skóla, fjúkandi laufblöð og þorpsrónann slagandi.

mánudagur, október 03, 2005

Karníval eru snilldarþættir. Ég missti reyndar af síðasta þætti í fyrri seríunni, getur einhver sagt mér hvað gerðist?
Dáldið seint... ég veit.
 
eXTReMe Tracker