miðvikudagur, maí 26, 2004

Margt (öllu heldur sumt) hefur á daga mína drifið síðan síðast. Á uppstigningardag settist ég upp í gæðinginn minn græna og hélt norður á bóginn. Ég stoppaði í öllum vegasjoppunum á leiðinni en það er föst venja hjá mér að þegar ég ferðast, hvort sem það er innanlands eða utan, þá gerir blaðran uppreisn því hún er svo hrikalega heimakær. Þar sem ég var ein á ferð í þetta skiptið kom þetta ekki að sök. Ég eyddi einni nótt í höfuðstað norðursins og hélt svo aftur af stað suður síðdegis en af því að ég nennti ekki alla leið heim, beygði ég út af þjóðvegi 1 einhvers staðar í Borgarfirðinum og endaði óvart í Húsafelli. Fyrir algjöra tilviljun var dularfulli, dökkhærði, hávaxni maðurinn (sá sem ég kyssti á Egilsstöðum) staddur þar í sumarbústað ásamt fleirum. Þarna var helginni eytt við glaum og gleði en þegar kom að því að þrífa og ganga frá þá sá ég mér þann kost vænstan að leggjast fársjúk í sófann og láta hina um allt þar sem draslið og hroðbjóðurinn ofbauð mér. Veikindin ágerðust svo þegar leið á daginn og þegar kom að brottför var ég ófær um að aka en sem betur fer voru þrír frískir fullorðnir fullfærir um að keyra þrjá fríska, fulla bíla. Ég er svo búin að liggja í vesöld síðan en er nú loks að skríða saman, sem betur fer enda eru þrír dularfullir, dökkhærðir og hávaxnir karlmenn staddir í stofunni hjá mér þessa stundina...

Góðar stundir.

Engin ummæli:

 
eXTReMe Tracker