Er ekki bara kominn tími á smá blogg? Jú við skulum bara segja það.
Partýið hjá Drífu var býsna gott en þar sem ég er farin að gera mér ýmsar væntingar eftir innflutningspartýið góða þá verð ég að játa að ég varð fyrir smá vonbrigðum.
Mánudagurinn byrjaði heldur illa þar sem ég fann loks einkun sem ég hafði lengi saknað. Haldiði ekki að kennarinn hafi reynt að telja mér trú um að ég væri fallin með fjóra? Jú jú, hann gerði mjööög heiðarlega tilraun til þess. Ég neitaði að trúa þessu og sendi í örvæntingu tölvupóst og eyddi svo mörgum klukkutímum í vantrú og örvæntingu þar sem ég stundi reglulega "Þetta getur bara ekki verið... ég get ekki hafa fallið í þessu aulafagi!" Á fjórða tímanum fékk ég svo tölvupóst sem innihélt þá skýringu að ég hefði ekki skilað ritgerð sem gilti 50% af kúrsinum. Ég hringdi fáein símtöl og komst að því að ritgerðin mín hafði víst komist til skila en bara ekki skilað sér inn í lokaeinkunina. Ég fékk einkunina svo senda og komst að því að ég var ein af tveimur hæstu í námskeiðinu. Svona er stutt milli fjalls og fjöru. Ég er samt enn að bíða eftir að þetta verði leiðrétt hjá Nemendaskrá en ef það gerist ekki á allra næstu dögum þá mæti ég eftir helgina og kasta snjóboltum í alla starfsmenn háskólans.
Ég er byrjuð í nýju vinnunni minni og einhvern vegin finnst mér alltaf vera að bætast við það sem í upphafi var talað um. Það er allt í lagi mín vegna, ég fæ tímakaup.
Bryndís mín elskuleg varð þrítug þann þrettánda og fær hún að sjálfsögðu slatta af hamingjuóskum hérmeð (til viðbótar við þær sem hún hefur áður fengið). Ég eyddi deginum í eldamennsku með henni og ég get ekki beðið eftir að fá að snæða afrakstur erfiðisins í veislu til heiðurs hjúkkunni. Það verður reyndar ekki fyrr en annað kvöld en ég læt mig svo sannarlega dreyma fram að því.
Þegar ég byrjaði að blogga þá bauð ég upp á vefsíðu dagsins og ég er að hugsa um að hverfa til fortíðar með því að benda ykkur á þetta hér. Passiði ykkur bara á því að það er hægt að verða dálítið háður þessu.
Ég kveð í bili og vona að ég nenni einhvern tíma að vera duglegri að blogga.
Gerast áskrifandi að:
Birta ummæli (Atom)
Engin ummæli:
Skrifa ummæli