föstudagur, janúar 30, 2004

Í morgun vaknaði ég upp af draumi sem mér fannst hroðbjóðslega fyndinn og sniðugur. Ég var staðráðin í að deila honum með ykkur en þar sem ég dottaði aftur þá gleymdi ég honum og er ófær um að rifja hann upp, þrátt fyrir ítrekaðar tilraunir.

Ég hlakka mikið til að vakna í fyrramálið því að ég ætla að draga eiginmanninn með mér í mubluleit. Eftir tæplega sex ára búsetu í litlu holunni okkar á loks að gera eitthvað í málunum og koma upp einhvers konar fatahengi, Júhú!

Ég hef ekkert meira að segja núna en ætla að bjóða ykkur að rifja upp fortíð mína með mér, ég tek það fram að eftirfarandi frásögn er dagsönn og ef einhver heldur öðru fram þá er sá hinn sami aumur lygalaupur.

Bókabéus
Einu sinni var ég gift trillusjómanni á Dalvík. Hann var furðulegur maður og átti það til að borða bækur. Þetta var ekkert stórkostlegt vandamál því að ég átti nóg af lélegum skruddum sem mér var skítsama um. Kallinn var í kiljuklúbbi máls og menningar og fékk reglulega sendingu frá þeim og var mér uppálagt að matreiða bækurnar á ýmsan máta. Einhverju sinni vaknaði ég við skrjáf í stofunni um miðja nótt. Þegar ég kom fram var kallhelvítið farið að éta Þjóðsögur Jóns Árnasonar, þá skildi ég við mannfjandann.

Engin ummæli:

 
eXTReMe Tracker