þriðjudagur, febrúar 24, 2004

Best að ég segi ykkur hvað við höfðum fyrir stafni þessa merku helgi sem nú er nýliðin.

Á föstudagskvöld var ég ein heima og hvað gerist þegar kötturinn bregður sér af bæ? Jú, rétt hjá ykkur, mýsnar fara á kreik. Ég skundaði sem sé út á næstu vídeóleigu, fann mér hrollvekjur tvær og sá því fram á gott kvöld. Mér tókst að koma syninum snemma í bólið, slökkti ljósin og kveikti á "28 days later". Hún var ágæt og mér brá m.a.s. nokkrum sinnum. Um tíma var ég samt að spá í að slökkva á henni og vera ekki að gera sjálfri mér þetta en svo fannst mér að ef ég gerði það þá væri það eins og að viðurkenna að ég sé orðin of gömul fyrir þetta. Sénsinn! Ég er og verð 17!
Næsta mynd var unglingahrollurinn "jeepers creepers" og unglingurinn ég var í ágætu stuði þar til kom í ljós að ekki yrði útskýrt hverrar þjóðar eða tegundar ógnvaldurinn var. Ég þoli ekki svoleiðis! Öll skrýmsli eiga sér rætur í þjóðtrú og/eða munnmælum, þetta getur ekki verið nein undantekning. Ég held sem sé að ég neyðist til að horfa á framhaldið. Þess má geta að mig dreymdi fallega drauma eftir þetta.

Á laugardagskvöld var okkur boðið á Chicago og þó að sjóið sé flott þá er ég ekkert yfir mig hrifin. Bestur fannst mér Matti með fiðluna og banjóið og Eggert Þorleifs skreið í kjölfarið. Freyðivínið og sætindin í hléinu voru hins vegar alveg að gera sig.

Sunnudagurinn hófst á gleðilátum barnanna "okkar" tveggja, Eiginmaðurinn fékk fullt af heimagerðum afmæliskortum í afmælisgjöf og við sungum afmælissönginn yfir eggjaköku í hádeginu. Kakó og Rjómabollur í kaffinu og voru það einu bollurnar sem komu inn fyrir hússins dyr þetta árið. Ljúffeng folaldasteik að hætti Ljúfu í kvöldmat og dýrindis rauðvín með. Hvað síðar gerðist kemur ykkur ekki við.

Í gær hófst lausn að erfiðu máli sem lengi hefur legið á mér og í dag er ég öll léttari einhvern veginn (en mér dettur samt ekki í hug að stíga á vigtina). Baðherbergið mitt er reyndar að mestu ónothæft vegna stíflu í baðkari og vaski, lyktin af stíflueyðinum veldur því að mér súrnar um augu en samt get ég ekki annað en verið kát (hvað með það þó ég þurfi að halda í mér?) þegar sólin skín og styttist í páska!

Engin ummæli:

 
eXTReMe Tracker