mánudagur, febrúar 16, 2004

Glöggir lesendur hafa eflaust tekið eftir því að ég flokkaði hlekkina hér til hliðar í þrjá flokka; blogg, næstumþvíblogg og ekkiblogg. Mér urðu á þau leiðu mistök að flokka stóra bróður sem “næstumþvíblogg” enda skrifar hann stundum skemmtilegar vangaveltur á fínu heimasíðuna sína og ég þekki fullt af fólki sem skrifar miklu sjaldnar en hann en kallar sig samt bloggara. Ekki var hann sáttur við þetta og bað mig um að breyta þessu. Jafnframt setti hann fram þessa skilgreiningu á bloggurum:

“Bloggarar eru vinstri sinnaðir, bóhemar og háskóla-nemar/menntaðir og vilja helst af öllu búa í miðbæarkjarna með kaffihús í næsta nágrenni.”

Ég hef aldrei kallað sjálfa mig bloggara en þessi skilgreining fékk mig til að hugleiða stöðu mína í Bloggheimi. Ég er a.m.k. ekki hægri sinnuð, líklega frekar svona vinstra megin við hægra megin. Bóhem? Nei ég held ekki. Háskóla-nemi/menntuð? Já og verð örugglega endalaust í námi. Vill helst búa í miðbæjakjarna? Nei, ekkert endilega en það vill svo undarlega til að ég er ekki nema þrjár mínútur að labba niðrí bæ. Kaffihús? Það er slatti af kaffihúsum í göngufæri frá heimili mínu en það nennir enginn að koma með mér á þau þannig að ég stunda þau ekki sérstaklega grimmt (enda á ég æðislega kaffikönnu og mjólkurþeytara), breytum kaffihúsinu í bókasafn og þá er ég alsæl. Þetta gera bara næstum fjögur atriði af fimm! . Svei mér þá, ég held að stóri bróðir hafi haft mig í huga þegar hann skáldaði skilgreininguna og gott ef ég er ekki bara sátt við það.

Jú! Ég er bloggari og ég er stolt af því!

Engin ummæli:

 
eXTReMe Tracker