föstudagur, apríl 30, 2004

Sko! Ef þið hafið eitthvað vit í kollinum þá drífiði ykkur þangað og njótið þeirra fögru tóna sem nýjasta færslan býður upp á.

fimmtudagur, apríl 29, 2004

Það er ekki hægt að segja að ég hafi verið sérlega aktív í blogginu að undanförnu og mér dettur ekki í hug að fara að afsaka það, ég blogga bara þegar mér sýnist og hef eitthvað að segja.

Vá! Þetta hljómar eins og ég sé ógeðslega reið! Samt er ég ekkert reið, eiginlega bara frekar glöð. Ég var soltið reið um daginn en nú finnst mér flestir vera að verða skemmtilegri með hverjum deginum. Hvernig er hægt að finnast lífið leiðinlegt þegar næstum fimm ára strákur fræðir mann um risaeðlur, háhyrninga og kóngulær? Ég hlæ bara inni í mér af kæti.

sunnudagur, apríl 18, 2004

Hæ, muniði eftir mér?

Ég vildi bara láta vita að ég er enn til þó ég hafi ekki nennt að skrifa neitt. Það hefur samt ýmislegt gerst, sumt gott og sumt vont en ég hef bara hreinlega ekki haft neina löngun til að blogga eða lesa blogg að ráði. Kannski bæti ég úr þessu á næstu dögum, kannski ekki.

Sé ykkur seinna (sungið eins og Skari skrípó/Tommi tómatur gerði forðum daga)!

mánudagur, apríl 05, 2004

Jæja! Þá er liðin helgi mikilla ævintýra og skemmtilegheita! Þetta byrjaði allt saman ósköp sakleysislega, sjónvarpsgláp á föstudagskveldi, ógurlega dæmigert alveg hreint. Betri helmingurinn ætlaði að sinna tveimur erlendum kollegum sínum á laugardeginum og ég sá fram á að sofa út og svo viðburðasnauðan dag í framhaldi af því. Ég var hins vegar rifin á lappir um tíu og hvött til að hristast með köllunum í jeppa ásamt bróður mínum og hans spúsu. Ferðinni var heitið upp á Langjökul og við rétt mörðum það upp fyrir jökulröndina. Hápunktur dagsins var þegar ég hékk aftan í Landróvernum á skíðaskónum mínum góðu. Nú veit ég hvernig það er að vera á sjóskíðum! Þrátt fyrir að færðin á jöklinum hafi ekki verið sérlega góð þá var þetta sérstök upplifun, það var allt hvítt í kringum okkur, bæði himinn og jörð og þess vegna vissi maður ekki hvað snéri upp og hvað niður. Eins var alveg ótrúlega kyrrt og hljótt, einu hljóðin komu frá okkur og farskjótum okkar.

Um kvöldið fórum við hjónin í matarboð og nutum þar dásamlegra kræsinga og skemmtilegs félagsskapar.

Í gærmorgun var ég aftur rifin fram úr rúminu og í þetta skiptið varð Snæfellsjökull fyrir valinu. Ferðafélagarnir voru þeir sömu og daginn áður að viðbættum þremur drengjum á leikskólaaldri. Veðrið var alveg dásamlegt, það hefði hreinlega ekki getað verið betra. Jepparnir nenntu ekki alla leið upp á topp en mannfólkið kláraði það á tveimur jafnfljótum. Þar snæddum við Júmbósamlokur og harðfisk (erlendingarnir eru brjálaðir í hann) og skoluðum niður með kókómjólk. Yndislegt alveg hreint og ekki spillti útsýnið fyrir, það lá við að hægt væri að sjá til Færeyja, við sáum að minnsta kosti til Ísafjarðar!
Eftir dágóða dvöl á toppnum skelltum við konurnar okkur í skíðin og renndum okkur niður að jeppunum. Karlmenn á öllum aldri máttu gjöra svo vel að ganga þann stutta spöl. Þeir settust svo inn í farkostina og óku niður jökulinn en við sem tilheyrum sterkara kyninu treystum á okkar eigin fætur og skíði. Við erum ókrýndar drottningar Snæfellsjökuls (en ég verð að játa að ég finn fyrir dáltið mörgum vöðvum í dag, ekki síst eftir dágóða byltu og snúið hné en hverjum er ekki sama). Það kom okkur reyndar á óvart hvað var erfitt að skíða þarna, snjórinn var þannig að hann tók af okkur öll völd og reyndi að senda lappirnar hvora í sína áttina. Þetta var samt ótrúlega gaman og ég hika ekki ef mér býðst annað svona tækifæri. Ótrúleg lífsreynsla í allri þessari náttúrufegurð. Jeppar og skíði námu staðar við rætur síðustu brekkunnar og þar fengu yngstu ferðafélagarnir sinn skammt af snjóþoturennslum. Þessi ferð var þannig eitthvað fyrir alla, erlendingarnir sögðust aldrei myndu gleyma þessum degi, ég efast líka um að við hin gerum það!

föstudagur, apríl 02, 2004

Mig langar ótrúlega til að Borgarholtsskóli vinni Gettu Betur.
 
eXTReMe Tracker