þriðjudagur, maí 11, 2004

Það hefur ýmislegt á daga mína drifið að undanförnu. Síðasta fimmtudag vaknaði ég fyrir allar aldir og settist upp í flugvél sem skutlaði mér í heimsókn til Lagarfljótsormsins og fjarskyldra ættingja hans. Mér var plantað í risastóra íbúð sem ég deildi með nokkrum dauðum flugum og Kára kuldabola. Eiginlega var ég þarna til að vinna en ég er svo heppin þessa dagana að vinnan mín felst í því að hitta ólíklegasta fólk og hlusta á alls konar sögur. Það kom mér á óvart hvað Egilsstaðabúar eru gjafmildir á tímann sinn, það er eins og hraðinn og stressið hafi orðið eftir á Reykjavíkurflugvelli. Um kvöldið fór ég á stefnumót með dularfullum dökkhærðum manni og kyssti hann djúpum kossi meðan snjóflygsurnar reyndu að hylja okkur fyrir forvitnum augum. Hvað skyldi eiginmaðurinn segja um það? Ég kvaddi huldumanninn minn og fór ein í stóru íbúðina þar sem ég eyddi nóttinni með kuldabola. Morguninn eftir var allur snjór horfinn og tvær hunangsflugur fluttar inn í eldhúsið. Vinnan heltók mig og það munaði minnstu að ég missti af flugvélinni sem flutti mig heimleiðis en þar sem ég stóð við færibandið á Reykjavíkurflugvelli og beið eftir töskunni minni, sá ég hraða og stess sem hvorutveggja var merkt mér en ég ákvað að taka það ekki með mér heim. Nú er bara að sjá hvort starfsfólki flugleiða liggi lífið á að skila þessu aftur til mín.

2 ummæli:

Ljúfa sagði...

Ekki slæmt djobb það :)

Hildigunnur sagði...

hmmm :(

bróðir minn er hávaxinn, dökkhærður og býr á egilsstöðum!

hehe

 
eXTReMe Tracker