miðvikudagur, október 20, 2004

Í færslunni hér að neðan fjallaði ég um barnabækur og ýmsar tilfinningar þeim tengdum og eins og þar kom fram þá olli bókin um Snúð og Snældu á skíðum mér martröð sem ég minnist enn þann dag í dag. Hr. Pez vill vita meira um þetta og spyr :

Hver var martröðin? Var það að detta ofan í dimman kolakjallara? Eða að járnsmiður væri að skríða ofan á svefnpokanum þínum? Eða kannski að enginn vildi vera vinur þinn?

Vissulega hafa öll þessi efni valdið mér áhyggjum einhvern tímann á lífsleiðinni en þó var martröðin af öðrum toga. Ég hef líklega verið rúmlega fjögurra ára þegar mig dreymdi að litli bróðir minn (líklega um eins árs) skriði inn í hrímað frystihólfið í ísskápnum og hann datt niður þar sem bakið á hólfinu átti að vera og kom ekki til baka. Hann hvarf inn þröng göng og ég mátti gjöra svo vel að fara á eftir honum og reyna að bjarga honum. Með reku að vopni fór ég inn í göngin sem enduðu í einhvers konar íshelli. Íshellirinn var tómur og það eina sem ég gat gert var að fara til baka. Ég man ekki nákvæmlega hvernig þetta endaði en bróður minn fann ég aldrei.

Ég var að lesa Snúð og Snældu fyrir Leibbalinginn þegar ég fékk gríðarlega öfluga déjá vu tilfinningu, ein myndin í bókinni var af öðrum kettlingnum að dútla eitthvað í snjónum og var þar komið sögusvið martraðarinnar. Raunar ættu allar bækurnar um sætu kettlingana að vera á listanum því að þær vöktu allar svona tilfinningar þegar ég las þær fyrir son minn en þessi var sú eina sem olli mér pínu vanlíðan. Nú mætti svo deila um hvort það var í raun og veru bókin sem kom martröðinni af stað eða hvort hún lagði eingöngu til sviðið, hugsanlega var þetta mín innri kona að óska þess að lilli bró hefði aldrei fæðst, hence þröng göng og hellir. Vanlíðanina má svo kannski rekja til þess að ég vissi að það var óæskilegt að hugsa svona. Æji nú er ég bara farin að bulla.

Nú ætla ég að skipta um umræðuefni. Mér þykir súkkulaði gott. Á dögunum keypti ég hið unaðslega Síríus vanilin Konsum súkkulaði frá Nóa Síríus, svo sem ekki í fyrsta skipti, en nú tók ég eftir því að það gilda ákveðnar reglur um notkun súkkulaðisinsins (hvernig svo sem þetta er skrifað). Vissuð þið þetta? Á umbúðunum stendur.

Notkunarreglur
Ein súkkulaðiplata (100 g) er brotin í mola og leyst upp í svolitlu vatni (einum kaffibolla eða tveim) við hægan hita. Einn lítri af mjólk er hitaður að suðumarki, honum hellt saman við smátt og smátt og hrært í á meðan. Þá er drykkurinn tilbúinn.
Gætið þess að ílátin, sem notuð eru, beri ekki keim af neinu, sem áður var í þeim soðið. Gætið þess enn fremur, að mjólkin sé fersk.
------------------------------------------------------
Nú geta allir fengið sér heitt súkkulaði og lesið Snúð og Snældu.
Bless í bili.

2 ummæli:

Nafnlaus sagði...

Jebb, ég hef oft lesið þetta og hlegið, og skammast mín reyndar smá fyrir að brjóta regluna.

En annað, vá ég var að lesa bloggið frá því síðast, ég sem hélt að ég hefði lesið mikið þegar ég var krakki, ég þekki ekki einn þriðja af þessum bókum. Og hvernig í andsk. veistu alla höfundana líka??

Dísin

theddag sagði...

Konsum súkkulaðið finnst mér voða gott að borða bara eintómt eða með rússínum mmmm.

Mér finnst svo frábært með þessar gömlu góðu bækur, m.a. Snúð og Snældu, að það er veri að endurútgefa þær. Ég gaf t.d. syni vinkonu minnar, sem býr í Frakklandi, bók um Snúð og Snældu. Að sjálfsögðu vill maður að barnið læri íslensku ;)

Þessi vanlíðatilfinning þín við að skoða bókina minnir mig á að ég átti pússluspil sem var nokkurskonar Snúður og Snælda pússluspil (það voru sem sagt 2 kettir á því). Mér leið oft illa að pússla því þar sem einn kötturinn er að detta ofan af borði. Mig minnir að annar kötturinn hafi verið að reyna að ná sér í köku eða eitthvað í krús en dettur fram af borðinu, annað hvort er hann að detta (mjög illa) eða hann er í "klessu" á gólfinu. Ég vorkenndi greyinu alltaf svo svakalega mikið!

 
eXTReMe Tracker