mánudagur, október 18, 2004

Hæ! Ég er sko ekki dauð.

Fór á pöbb í heimabænum ásamt vinkonu síðastliðið föstudagskvöld. Mjög súrrealískt. Næstum allir sem komu inn á staðinn settust við borðið okkar og trítuðu okkur eins og drottningar. Mjög fyndið kvöld.

Barnaafmæli á laugardaginn. Afmælisgjafir í formi bóka urðu til þess að fullorðna fólkið hóf spennandi umræður um uppáhalds barnabækurnar. Það vill svo skemmtilega til að í leiðindum í síðustu viku settist ég niður og rifjaði upp eftirlætis barnabækurnar. Sumar þeirra voru kannski ekki svo skemmtilegar en eftirminnilegar einhverra hluta vegna. Hér kemur listi:

Bækurnar um Sólarblíðu - Vésteinn Lúðvíksson Ég var nú eiginlega búin að gleyma þeim þegar ég rakst á þær á bókasafninu um daginn, ég hló mig máttlausa þegar ég las þær og það sama gerði eiginmaðurinn yfir völdum köflum. Sonur minn á von á góðu.
Strákur á kúskinnsskóm – Vigfús Björnsson Eina sem ég man voru átök við draug í dimmu fjósi.
Bækur Ármanns Kr. Einarssonar um Árna frá Hraunkoti Þrekraunir og björgunar afrek.
Bláskjár - Franz Hoffmann Vorkenndi greyinu alltaf óskaplega.
Snúður og snælda á skíðum - Pierre Probst Ég vissi ekki hversu djúpstæð áhrif þessi bók hafði á mig fyrr en ég las hana fyrir son minn og uppgötvaði að ein af minnistæðustu
martröðum bernskunnar á rætur sínar í þessari bók. Reyndar skoðaði ég bók um líf og dauða risaeðla með syni mínum í gærkveldi og fékk hrottalega martröð um krókódíla sem gátu breytt sér í tvífætt finngálkn.
Galdramaðurinn - Ursula K. Le Guin Æsispennandi eltingarleikur við skugga. Galdrar og hryllingur.
Kalli og Sælgætisgerðin, Nornirnar – Roald Dahl Kennarinn minn í þriðja bekk las Kalla fyrir bekkinn og stuttu seinna voru þættirnir sýndir í sjónvarpinu. Sumarnótt í Hellisgerði með Kalla og eiginmanninum. Nornirnar eru skelfilegar skepnur í kvenmannslíki en þá bók las ég eftir að ég fékk bílpróf.
Silas og hesturinn hans - Cecil Bødker þessi var frekar dularfull og ekki beint í anda Ármanns Kr. Silas gerði það sem hann þurfti til að komast af en ég hef ekki lesið þessa lengi, lengi. Held að hún hafi týnst í flutningum ásamt fleirum gömlum og góðum.
Múmínálfabækurnar - Tove Jansson Þetta var líklega fyrsta sjónvarpsefnið sem ég sýndi nokkurn áhuga, Morrinn var svooo hræðilegur! Það var slegist um þessar bækur á Amtbókasafninu.
Vísnabókin Glaðlegar, hversdagslegar, leiðinlegar, skemmtilegar, hrollvekjandi og spennandi barnavísur. Ekki hægt að fjalla um barnabækur án þess að hafa þessa með.
Palli var einn í heiminum – Jens Sigsgaard Og þá hringdi síminn. Ætli ég hafi ekki verið fjögurra þegar ég fékk þessa í jólapakka, ein af örfáum sem ég á enn og þykir óskaplega vænt um enda er hún listilega myndskreytt af Arne Ungermann og mér.
Siggubækurnar - Gretha Stevns Mig langaði að verða eins og Sigga rauðtoppa, sitja vel hest, blístra falskt, læra lexíurnar og umgangast sígauna.
Tarzan blöðin Steini bróðir var áskrifandi og í hvert sinn sem nýtt blað kom út, röltum við systkynin í Siglufjarðarprentsmiðju og sóttum glóðvolgt eintak. Tarzan blöðin eru hreinlega ástæða þess að ég lærði að lesa, í einu blaðinu lenti hetjan í bardaga við hræðilega risakónguló en það kvikindi óttaðist ég svo mikið að ég mátti helst ekki sjá blaðið. Þetta vissi stóri bróðir og vinir hans og ef þeim fannst ég vera til ama opnuðu þeir blaðið og ráku upp að nefinu á mér og voru lausir við mig það sem eftir var dags. Dag einn kom ég skjálfandi til móður minnar með blaðið í höndunum og bað hana að segja mér hvað þar stæði. Hún skrifaði upp stafrófið og kenndi mér að lesa blaðið sjálf.
Bróðir minn Ljónshjarta - Astrid Lindgren Ég hef ekki enn lesið leiðinlega bók eftir þennan höfund en þessi grætir mig í hvert einasta skipti. Það var kennarinn í þriðja bekk sem las þessa fyrir mig.
Barist til sigurs – Jan Terlouw Sigur einstaklingsins yfir kerfinu. Gott ef það var ekki líka kennarinn í þriðja bekk sem kynnti mér þessa.
Þjóðsögur hverskonar. Ég hef alltaf verið hrifin af þeim og þegar ég fór í heimsókn til föðursystur minnar vildi ég heldur kúra í sófa með Þjóðsögunum en að leika við krakkana hennar sem eru á svipuðum aldri og ég. Þeim þótti þetta frekar skrítin hegðun.
Hobbitinn og Hringadróttinssaga – Tolkien Myndasögurnar voru gasalega spennandi.

Þetta er orðið óskaplega langt blogg en ég er samt ekki búin, margar eftirfarandi bóka hefðu mátt fá umfjöllun en ég nenni bara ekki meiru.

Narníubækurnar - C. S. Lewis
Bækurnar um Tak - Hjalti Bjarnason
Ljóðabækur – Þórarinn Eldjárn
Gauragangur - Ólafur Haukur Símonarson
Salómon svarti - Hjörtur Gíslason
Ole Lund Kirkegaard – allar sem ég hef lesið
Doddabækurnar, Ævintýrabækurnar og Fimmbækurnar- Enid Blyton
Margar bóka K. M. Peyton
Leynigarðurinn - Burnett, Frances Hodgson
Bækurnar um Albin – Ulf Löfgren
Ljónadrengurinn – Zizou Corder,
Bækurnar um Lýru - Philip Pullmann
Bækur Lemony Snicket
Nancybækurnar - Carolyn Keene
Tinnabækurnar - Hergé
Harry Potter - J. K. Rowling
Dagbókin hans Dadda - Sue Townsend
Skúli skelfir - Francesca Simon
Beverly Gray - Claire Blank


Það er augljóst að ekki voru allar þessar bækur til þegar ég var ung en ég hef bara aldrei hætt að lesa barnabækur og læt það vonandi alveg eiga sig.

3 ummæli:

hulda sagði...

Hey, hvað með Selinn Snorra og Ævintýrabækurnar eftir Enid Blyton.

Ljúfa sagði...

Ævintýrabækurnar eru þarna en Selurinn Snorri var aldrei í sérstöku uppáhaldi hjá mér.

theddag sagði...

Þetta er ekkert smá sniðugt blogg hjá þér, fær mann til að rifja upp bækur. Ég hafði rosalega gaman af Tinna, Hin fjögur fræknu og Ástríki sérstaklega. Löbbu-bókunum, Fimm bókunum, Ráðgátubókunum eftir Enid Blyton. Ég á Selinn Snorra (sem minnir mig á það að ég held ég eigi enn bækur inn í geymslu sem ég þarf að draga fram, var nefnilega að fá þessa stóru og fínu bókahillu og rétt kom öllum bókunum mínum í hana)en man voða lítið eftir henni. Uppáhaldsbókin mín var lítil bók sem hét Íslenskar draugasögur og þar eru nokkrar sögur úr Þjóðsögum JÁ, ég gerði margar tilraunir til að lesa þá bók spjaldana á milli, en endaði alltaf á Djáknanum á Myrká sem ég las aftur og aftur og aftur. Ég er ennþá alger "sukker" fyrir teiknimyndasögum og nú er Harry Potter í algjöru uppáhaldi hjá mér. Vá ég gæti haldið áfram.

 
eXTReMe Tracker