Ég er fullgildur meðlimur í saumaklúbbnum Saumað á ská. Við saumum ekki neitt en borðum þeim mun meira þegar við hittumst. Þar sem við eigum allar þrítugsafmæli á árinu ákváðum við að vera flottar á því og fara grand út að borða síðastliðið föstudagskvöld. Fyrir valinu varð Argentína steikhús, ekki síst vegna þessa afmælismatseðils:
Snöggsteikt risahörpuskel á fennel Risotto með epla og vermút froðu
Nauta Carpaccio með ólífuolíu, sítrónu og parmesan
Grilluð nautalund 200 gr. með bakaðri kartöflu og litríku salati
Heit Valrhona súkkulaðiterta með blautum kjarna borin fram með ís (vinsælasti eftirréttur hússins síðan 1997)
Boðið var upp á sérvalin vín með réttunum og þau voru mjög viðeigandi og magnið hæfilegt. Risottoið var það besta sem ég hef smakkað, hingað til hef ég bara fengið ofsoðin, klesst hrísgrjón með bragði. Carpaccioið og súkkulaðitertan stóðust fyllilega væntingar en það sama var ekki að segja um nautalundina. Þrátt fyrir að vera bragðgott og passlega mikið eldað þá var þetta bara ekki lund frekar en ég. Sjálf hef ég nokkuð oft matreitt lund og borðað hana annars staðar og ég tel mig vita hvernig hún lítur út og hvernig hún er undir tönn. Kjötið var svo sem ekki ólseigt en hafi þetta verið lund þá hefur nautið verið alvarlega fatlað og hundgamalt. Ég hefði alveg keypt þetta kjöt undir réttu nafni en ég kann bara alls ekki við að láta ljúga svona að mér og ætla þess vegna aldrei aftur á Argentínu.
Eftir máltíðina lá leið okkar á Ölstofuna. Ágústi finnst ég ungleg og dyraverðirnir voru greinilega á sama máli því að þeir spurðu okkur allar um skilríki. Aldurstakmarkið er 22 ár. Þið getið ímyndað ykkur fagnaðarlætin sem brutust út í hópi þrítugra kvenna, ég fór m.a.s. aftur út til að geta upplifað gleðina tvisvar. Eftir að hafa þrefað við ljótan og leiðinlegan mann um hvort við hefðum stolið frakkanum hans, gáfust þrjár upp en það var sko í lagið því að við Dísin vorum svo ógeðslega fyndnar og skemmtilegar bara tvær. Við sáum marga kynlega kvisti í dúnúlpum og loðfeldum og fengum alla þá athygli sem við kærðum okkur um. Við héldum það út til að verða fimm, eða þangað til enn ógeðslegri og leiðinlegri maður sýndi Dísinni þvílíkan ruddaskap að henni var nóg boðið. Skamm viðbjóðurinn þinn! Haltu þig heima hjá þér eða við brennimerkjum þig!
Gerast áskrifandi að:
Birta ummæli (Atom)
5 ummæli:
He he, ég gaf Leifi för á Tínu í fyrra sökum aldurs. Var þetta besta gjöf sem ek gat gefið. Tína hefur alltaf skilið mig eftir með ljúfar minningar,svo að ég segi þér: reyndu aftur!!
neinei, ekki gefast upp! Hins vegar kvarta við þá ef ekki ánægð. Hef alltaf verið hæstánægð á Argentínu, fer frekar oft (tja, svona árlega, amk!)
Þetta með dyraverðina kemur mér ekki á óvart. Vona að þú fáir aldrei komplexa út af góðu útliti, fallegar ljóshærðar konar geta líka verið gáfaðar hvað sem bröndurum líður.
Ég hafði komplexa á unglingsaldri en aðallega yfir hæðinni. Það er liðin tíð og ég bæti algjörlega fyrir smæðina með stórum persónuleika! Ég er meira svona skolhærð á veturna en kippi mér ekki upp við ljóskubrandara, hlæ m.a.s. stundum að þeim. Ég játa samt að vera óttaleg ljóska stundum... eða kannski meira svona viðutan. ;o)
Leiðinlegt að svona fór með Argentínu :( Persónulega hef ég verið mjög ánægð með þann stað. Það er svo gaman að vera spurður um skilríki, var nánast alltaf spurt um skilríki í USA þegar ég keypti bjór.
Skrifa ummæli