mánudagur, janúar 10, 2005

Síðan ég man eftir hefur Mogginn birt stjörnuspá á gamlársdag sem gildir fyrir nýja árið. Því miður geymdi ég ekki blaðið í fyrra svo að ég er ekki í aðstöðu til að kanna hversu nákvæm hún var. Nú ætla ég hins vegar að vera eilítið forsjálli og hreinlega birta ykkur stjörnuspána mína fyrir 2005.


Tvíburinn
21. maí – 20. júní

Árið 2005 mun opnast tvíburanum líkt og stórfengleg rauð rós í blóma, segja stjörnuspekingar, og bendir staða himintunglanna til þess að komandi ár verði bæði einstakt og eftirminnilegt. Samkvæmt því verður tvíburanum sífellt meira ágengt með hverjum mánuði og sett markmið og fjárhagslegur stöðugleiki virðast innan seilingar. Hermt er að komandi ár verði tímabil rómantíkurinnar í lífi tvíburans og verður engin hálfvelgja þar á ferðinni ef að líkum lætur. Þeir sem eiga maka nú þegar munu njóta samvista við hann enn meira en ella og uppskera vellíðan í tilfinningalífi í samræmi við það. Ekki er úr vegi að tala um nýtt upphaf og afturhvarf til ástarbrímans sem ríkti við fyrstu kynni. Júpíter, pláneta velgjörðanna er nú í vog og hefur áhrif á svið ástar og rómantíkur í sólarkorti tvíburans. Tvíburinn var undir hælnum á kennaranum mikla Satúrnusi frá árinu 2000 til 2003 og lærði að takast á við strembnari hliðar raunveruleikans með þyngri skyldur á herðum en oft áður. Með það í huga er líklegt að hann kunni vel að meta léttleika og afslöppun komandi árs, sem búast má við fyrir tilstilli Júpíters. Horfur á starfsvettvangi tvíburans eru líka góðar og sennilegt að hann taki að sér stórt verkefni á síðari hluta ársins, sem mun útheimta nákvæmni, einbeitingu og ótal vinnustundir þar til yfir lýkur snemma á þarnæsta ári. Hugsanlega er þar um að ræða skriftir af einhverju tagi. Búast má við breytingum á daglegu vinnuumhverfi í apríl og október og í einhverjum tilvikum má jafnvel gera ráð fyrir róttækum umskiptum eða nýju hlutverki á vinnumarkaði á árinu. Tvíburinn, sem að öllu jöfnu þrífst í fjölmennum félagsskap, verður óvenju hlédrægur síðari hluta næsta árs og áttar sig sennilega á því að hann kemur helmingi meiru til leiðar þegar hann er sparari á tíma sinn. Í stuttu máli sagt felur komandi ár í sér fimm stjörnu rómantík, ótrúlega afkastagetu, tækifæri til þess að finna sína réttu köllun í lífinu og breytingar til hins betra í fjármálum, fyrir þá sem fæddir eru í tvíburamerkinu.

Einhvern vegin finnst mér þetta eiga við um árið sem er að líða en nú er bara að bíða og sjá…

Engin ummæli:

 
eXTReMe Tracker