mánudagur, nóvember 14, 2005

Það er alltaf hátíðleg stund þegar Bókatíðindi læðast inn um bréfalúguna hjá mér og þess vegna er dagurinn í dag góður dagur. Það er slatti af bókum sem mig langar að lesa en heldur færri sem ég kæri mig um að eiga. Ég er lítið spennt fyrir íslensku barnabókunum en þær þýddu þykja mér sumar aðeins bitastæðari. Mig langar mest að lesa barnabækurnar hans Jógvans Isaksens enda hef ég gaman af fullorðinsbókum hans en einhverjar fleiri á ég eflaust eftir að lesa og sumar er ég búin með. Verst að það kom ekki ný bók um Abarat.

Eftir fyrstu skoðun eru þetta þær bækur sem ég er spenntust fyrir:

Afturelding - Viktor Arnar
Frægasti maður í heimi - Kristjón Kormákur
Vetrarborgin - Arnaldur Indriða
Yosoy - Guðrún Eva
Þriðja táknið - Yrsa Sigurðardóttir
Eldgos - Ari Trausti
Játningar Láru miðils - Páll Ásgeir

Takið eftir að flestir höfundanna heita tveimur nöfnum. Ætli það sé erfiðara að meika það í bókabransanum ef maður heitir bara einu nafni?
Miklu fleiri bækur ætla ég mér að lesa og sumar eru þegar afgreiddar, það er nefnilega ljómandi gott bókasafn hér í Þorpinu.

Ég brá mér í borgarferð um helgina og hafði það náðugt, fór í heimsóknir, át og svaf, horfði svo á dauflega Eddu í gær, guði sé lof fyrir Silvíu Nótt. Fyrirtakshelgi alveg hreint.

Ég er ekki uppfull af bloggþörf þessa dagana og því gæti vel farið svo að ég taki mér smá frí í einhvern tíma en kannski ekki. Það verður þá aldrei mjög langt. Lifið heil.

Engin ummæli:

 
eXTReMe Tracker