Sumarið 1996 vann ég á litlu sveitahóteli á suðurlandinu. Þær fáu fríhelgar sem ég átti voru vel nýttar í félagsskap góðra vina en heldur lágdautt var yfir ástarlífinu. Það var á hlýju föstudagskvöldi sem ég stóð ein í biðröð við skemmtistað þar sem ég ætlaði að hitta vinkonu. Næst á undan mér í röðinni voru nokkrir strákbjálfar með skrílslæti, einn þeirra eyddi miklum tíma í að fá annan til að teygja tunguna upp í nef en ég leit undan og veit því ekki hvort hann lét verða af því. Fljótlega eftir að steratröllin í dyrunum hleyptu mér inn var sá tungulangi kominn á slóð mína og gerði sitt besta til að ná mér út af staðnum og heim í ból. Hinn, þessi sem vildi svo gjarnan sjá tungu í nefi félagans, stóð yfir okkur og skaut á vininn alveg þar til sá gafst upp og tilkynnti mér að ég væri barnaleg að vilja ekki sofa hjá honum. Félaginn nýtti sér hins vegar tækifærið og var öllu tunguliprari, áður en ég vissi var ég orðin bálskotin og örfáum vikum seinna var ég flutt inn til hans. Að þremur árum liðnum kom frumburðurinn. Fyrir nákvæmlega ári síðan hittumst við í kirkju að viðstöddu fjölmenni og gengum út sem eitt.
Ást við fyrstu sýn er ekki til en hinsvegar kannski við aðra... eða þriðju. Ég hef aldrei spurt hvort tungan hafi náð upp í nef.
Gerast áskrifandi að:
Birta ummæli (Atom)
Engin ummæli:
Skrifa ummæli