Mér finnst ég verða að láta vita aðeins af mér þótt ég hafi lítið að segja.
Við erum farin að hlakka til jólanna og gestanna sem þeim fylgja, það er samt ekki hægt að segja að við höfum lagt hart að okkur í undirbúningnum, hér hefur ekki verið bökuð ein einasta smákaka, ekki skorið í laufabrauð, ekki skrifað á eitt einasta jólakort og jólaskrautið er tínt upp á veggina eftir nennu. Sem betur fer eru allar jólagjafir tilbúnar nema náttúrulega eiginmannsins, ég er alltaf í vandræðum með hann. Jólakortin verða ekki skrifuð en ég bendi ykkur á að hlusta á jólakveðjurnar í útvarpi allra landsmanna á Þorláksmessu.
Ég er byrjuð að þvo barnaföt og undirbúa komu Salómons enda styttist óðum í þann merkisviðburð. Hann er nú búinn að skorða sig og er stax farinn að halda móður sinni vakandi um nætur, yfirleitt sofna ég á milli fjögur og fimm og er því alveg viðurstyggilega hress þegar ég þarf að koma stóra stráknum mínum í skólann á morgnana.
Talandi um stóra strákinn, hann var að syngja í kirkju í kvöld og stóð sig með mikilli prýði. Reyndar er hann svo yfirmáta stillur núna að hann er uppgefinn á kvöldinn, það er erfitt að þurfa að hemja sig svona en maður tekur enga áhættu þegar pörupiltarnir þrettán eru annars vegar. Ég þarf líklega ekki að lýsa fyrir ykkur fögnuðinum sem braust út þegar í ljós kom að þeir félagar gera sér ferð alla leið til Englands. Sá sem kemur á heimili breskra og amerískra barna á jóladag er víst veikur núna og alls óvíst hvort hann nái heilsu fyrir ferðalagið mikla en það er ekkert vandamál, Leifur ætlar að biðja þá íslensku að hlaupa í skarðið svo skólafélagarnir fái nú örugglega í skóinn líka.
Það hafa eflaust allir heyrt af morðunum í Ipswich enda um fátt annað rætt hér, virtar fréttastofur eru með ítarlegar fréttaskýringar í öllum fréttatímum og alls konar sérfræðingar eru kallaðir til til þess að fræða almenning um stöðu mála og vinnubrögð lögreglu. Það er ljóst að það gengur mjög brenglaður einstaklingur laus og að sjálfsögðu er full ástæða fyrir almenning á svæðinu að gera fara varlega og að gleyma sér ekki, það er ágætt að fréttamenn minni fólk á það en þegar einn slíkur fór að tala um Silence of the lambs var mér allri lokið. Þetta er nógu hræðilegt þó það sé ekki verið að hæpa þetta meira upp. Svona er blaðamennskan hér, það virðist ekki vera hægt að koma nokkrum sköpuðum hlut á framfæri nema með ýktum hræðsluáróðri. Ég hélt að kaninn væri slæmur...
Þetta er merkilega löng færsla miðað við að ég hafði ekkert að segja.
Gerast áskrifandi að:
Birta ummæli (Atom)
Engin ummæli:
Skrifa ummæli