Ég þakka ykkur öllum fyrir góðar kveðjur, það er svo notalegt að vita af ykkur þarna úti þegar maður saknar fjölskyldu og vina heima á Frónni.
Hér hefur svo sem lítið borið til tíðinda síðan síðast, við Emil höfum sofið nánast alla vikuna, hann þó heldur meira en ég, alveg var því stolið úr mér hvað hvítvoðungar sofa mikið og eins sá háttur þeirra að vakna þegar allir aðrir eru í fastasvefni. Drengurinn dafnar vel og hefur augsýnilega bætt á sig einhverjum grömmum síðan hann leit fyrst dagsins ljós, líklega hefur hann þessi grömm af mér sem er bara hið besta mál, farið hafa grömm betri.
Í dag langar mig óskaplega að vera á Íslandi og leika mér í snjónum, fara svo heim til mömmu og pabba og fá heitt kakó og nýbakaðar vöfflur. Kannski um páskana.
Sérstakar kveðjur sendi ég hetjunum í Edinborg en þau heyja nú baráttu við illvígan dreka og eru um það bil að leggja hann að velli.
Gerast áskrifandi að:
Birta ummæli (Atom)
Engin ummæli:
Skrifa ummæli