laugardagur, mars 17, 2007

Fólk getur komið manni ofboðslega mikið á óvart, jafnvel fólk sem maður þekkir vel eða telur sig þekkja vel. Kona nokkur hér í Northampton varð illyrmislega vör við þetta þegar lögreglan bankaði upp á hjá henni og tjáði henni að eiginmaður hennar hafi verið handtekinn þegar hann borgaði lögreglumanni undir hulu fyrir að koma henni fyrir kattarnef. Konuræflinum var augljóslega mjög brugðið þar sem hún taldi sig vera hamingjusamlega gifta, eiginmaðurinn sagði henni oft á dag hversu heitt hann elskaði hana og hafði gert í þau þrjú ár sem hjónabandið hafði staðið. Tilefnið var að komast yfir skitin 40 þúsund pund sem eru rúmar 5,2 milljónir ísl. kr.
Eiginmaðurinn var öryggisvörður í lítilli verslunarmiðstöð í miðbænum þar til í október á síðasta ári, það er því ansi líklegt að ég hafi mætt honum einu sinni eða tvisvar. Það er ekki nema hálfur mánuður síðan ég spjallaði við tvo öryggisverði í þessari sömu verslunarmiðstöð og ég ætla rétt að vona að ég hafi ekki truflað þá við bollaleggingar um morð.
Þess má til gamans geta að konan hefur sótt um skilnað frá hinum fláráða öryggisverði.

Engin ummæli:

 
eXTReMe Tracker