miðvikudagur, mars 14, 2007

Veitingaþjónusta Ljúfu tók í dag við sinni fyrstu pöntun. Kjötætan ég var beðin um að búa til salat fyrir vinnustaðapartý, sama salat og bresk vinahjón okkar snæddu með íslenska lambalærinu síðastliðið laugardagskvöld. Lambakjötsátinu lauk þó ekki þar því við fórum í matarboð hjá indælis Íslendingum og borðuðum þar enskt lambakjöt, satt best að segja var það alls ekki síðra en það íslenska og sást það best á því óhemju magni sem hvarf ofan í okkur.

Við brugðum okkur til London á mánudag enda orðið tímabært að sækja um vegabréf fyrir Emil ef við ætlum að hafa hann með til Íslands um páskana. Í Lundúnum skoðuðum við risaeðlur og betlara, snillingnum varð svo um að sjá hið síðarnefnda að hann var óhuggandi og neitaði m.a.s. að þiggja ís sem þó var búið að biðja mikið um, ég held að samúðin hafi knúið hann í hálftíma hungurverkfall.

Það styttist óþarflega í að við komum heim fyrir fullt og allt en ég er ekki alveg tilbúin að yfirgefa tjallana, auðvitað er margt sem ég sakna að heiman en það er heilmargt gott hér. Ég hlakka til að flytja heim og geta hitt vini og vandamenn á hverjum degi. Ég dauðkvíði því að senda snillinginn aftur í íslenskan skóla, hann hefur blómstrað hér og sést það best á þeim vitnisburði sem hann fékk í foreldraviðtali í gær (varúð, hér á eftir fer mont): Það er umtalað meðal kennara hversu kurteis og hjálpsamur hann er, honum fer hratt fram í náminu og tungumálinu og það er hreinasta ánægja að kenna honum. Heima var talað um að hann ætti erfitt með að sitja kyrr og mætti leggja sig betur fram. Kannski hefur hann bara haft svona gott af því að skipta um umhverfi og kynnast aganum sem hér ríkir, kannski eru skólarnir hér einfaldlega betri. Þetta kemur allt í ljós.

Engin ummæli:

 
eXTReMe Tracker