Jæja krakkar mínir.
Nú er hreinlega liðin vika síðan ég bloggaði síðast. Það hefur svo sem ekkert markvert átt sér stað fyrir utan það að ég átti (allt of ) stutta dvöl í Danaveldi. Það var frekar gaman og ég fór létt með að fá kaupæði í barnafataverslunum á Strikinu. Það vill svo furðulega til að um leið og maður er kominn út fyrir landsteinana þá er hægt að finna falleg strákaföt. Skrítið að þessi menning hafi ekki enn numið land á skerinu okkar ástkæra. Oh well!
Á laugardagskvöldinu borðuðum við feita danska steik (aðallega ég samt, hinir nörtuðu bara aðeins í fuglakjöt) og að því loknu tók við leit að skemmtilegri staðsetningu fyrir jólabjórsdrykkju. Við römbuðum inn á stað nokkurn þar sem gljásvartur maður barði bumbur af miklum móð og ég fann ryþmann skekja mig í allar áttir en samferðamenn mínir ákváðu að tíma ekki að borga 300 kall á mann til að mega njóta bumbusláttarins til fulls. Ég varð því að láta í minni pokann og var hrikalega ekki í stuði á næsta stað. Við fundum þó að lokum skoskan bar en eigi var tónlistin skosk og ekki var skotapils að sjá á nokkrum manni. Við áttum þó ótrúlegar stundir inni á staðnum og má þakka það að mestu konukind nokkurri af asískum uppruna. Hún skók sig sem mest hún mátti og naut m.a. dyggrar aðstoðar samferðamanna minna. Betri helmingur minn var fyrstur til að hristast í takt við hana og vakti það svo mikla kátínu að allir gestir staðarins lögðu frá sér spil og prjóna til að fylgjast með aðförunum, dyraverðirnir lögðu um stundarsakir niður störf vegna hláturs og allir skemmtu sér hið besta. Ég missti alveg af þessu því að ég beið í röð eftir að komast á hlandlyktandi salerni staðarins. Oh well!
Nánasta framtíð mín hefur tekið nýja stefnu síðasta sólarhring og er það vel, ég vona bara að hún eigi eftir að breytast enn meira en það ætti að koma í ljós allra næstu daga. Oh well (djók)!
Þið eruð alveg ótrúlega ligeglad!
Gerast áskrifandi að:
Birta ummæli (Atom)
Engin ummæli:
Skrifa ummæli