mánudagur, september 27, 2004

Ég á ammælí dag
ég á ammælí dag...

Ég á eins árs afmæli í bloggheimum í dag og ætlaði sko aldeilis að gleðja lesendur mína með því að setja inn hið heittelskaða haloscan kommentakerfi en það dettur alltaf út og ég nenni ekki að reyna meira í bili. Hins vegar er myndin loksins komin á réttan stað og þess vegna tók ég hana út sem bloggfærslu. Prófíllinn er í boði uppáhalds, uppáhalds frænda míns, húrra fyrir honum!!!

Á morgun fer ég í langferð um landið vestanvert og verð netsambandlaus fram á fimmtudag svo að ég held líklega kjafti eitthvað fram eftir vikunni. Veriði góð.

p.s. getraun kannski væntanleg.
kj á koppnum !

föstudagur, september 24, 2004

Urr! Ég er búin að eyða löngum tíma í að reyna að setja mynd í prófílinn minn en í staðinn birtist hún bara sem bloggfærsla. Andskotans djöfulsins helvítis ári! En ef ég lít á björtu hliðina þá er ég a.m.k. búin að læra að setja myndir inn á bloggið núna.

fimmtudagur, september 23, 2004

Gawd! Ég veit ekki hvort ykkur ("Edie Who and the Who", þeir taki það til sín sem eiga) er viðbjargandi, þetta er svona álíka og að hafa ekki heyrt minnst á Tic Tac Toe. Skólinn hefst hér og nú. Sísí er hins vegar hér með kjörin fegurðardrottning vikunnar (sbr. tárin) en því fylgja samt lítil sem engin fríðindi, nema kannski afrit af Tic Tac Toe smáskífunni minni.

miðvikudagur, september 22, 2004

Edie Brickell and the New Bohemians var það heillin. Angistarfulla brúðurin með allt á hreinu nema tengingar við fyrri vísbendingar, leymmér að útskýra. Fyrsti smellur hljómsveitarinnar var "What i am" sem barnakryddið Emma Bunton misþyrmdi svo eftirminnilega. Edie kynnstist Paul Simon við upptökur á Saturday Night Live og nú eru þau gift og eiga þrjú börn.

Ég kolféll fyrir bandinu þegar ég heyrði fyrst í þeim, 13, 14 eða 15 ára og ég beið ein í röð í hljómdeild KEA þegar "Ghost of a dog" kom út. Gömlu Schneider fermingagræjurnar gáfu hins vegar upp andann fyrir ca 5 árum og því hef ég ekki getað spilað vínilinn í laaangan laaaaangan tíma. Þið getið kannski ímyndað ykkur gleði mína þegar ég fann eina eintakið af geisladiskinum sem til er á landinu. Nú tilheyrir það mér (fyrir 1699 kr.).

Þess má svo til gamans geta að þegar ég fór fyrst í heimsókn til þáverandi verðandi eiginmanns (eftir tiltölulega stutt kynni) setti hann "Shooting rubberbands at the stars" undir geislann og það innsiglaði örlög okkar beggja. Ég átti nefnilega bara kasettuna en ekkert kasettutæki.
Jæja, einhverjir kíkja hér við öðru hvoru þannig að ég má víst ekki vera of dónaleg eða hvað?

Leifur bað um auðveldari vísbendingar, nú er bara að sjá hvað ég get gert. Eins og áður hefur komið fram er hljómsveitin ameríkönsk, hefur tengsl við Kryddpíurnar (sérstaklega eina þeirra) og Simon & Garfunkel. Sagan segir að hin Texasættaða söngkona sveitarinnar hafi kynnst bandinu þegar hún vann sem gengilbeina á bar þar sem sveitin kom eitt sinn fram. Hún skellti í sig nokkrum skotum, stökk svo upp á svið og tók lagið með þeim og varð eftir það fullgildur meðlimur og átti stóran þátt í gríðarlegum vinsældum hljómsveitarinnar á síðari hluta 9. áratugarins (eitís). Þetta hlýtur að segja ykkur eitthvað.

mánudagur, september 20, 2004

Okei, enginn giskaði eftir síðustu vísbendingu og því nokkuð ljóst að það nennir ekki nokkur kjaftur að lesa þetta bull mitt. Ágætt, þá get ég látið allt flakka án þess að hafa áhyggjur af því að særa nokkurn mann. Vandamálið er bara hvað ég á að gera við þetta nýfengna frelsi. Á ég að ausa svívirðingum yfir allt og alla eða láta mína leyndustu drauma flakka? Á ég að gera bæði? Eða hvorugt? Ég er að spá í að byrja nýja lífið mitt á að játa svolítið fyrir sjálfri mér: Ég er sjónvarpssjúklingur. Ég byrja að horfa eftir fréttir og stend helst ekki upp fyrr en dagskrá lýkur. Ekki nóg með það heldur er ég netfíkill líka. Mér leið bölvanlega fyrir framan sjónvarpið í síðustu viku vegna þess að ég gat ekki vafrað um netið í auglýsingahléum og yfir óspennandi atriðum. Ætli sé til einhver lækning við þessu?

föstudagur, september 17, 2004

Kæru lesendur (ef einhverjir eruð), velkomnir að skjánum!

Dagskráin í kvöld er ekki með sérlega fjölbreyttu sniði en við byrjum á fréttum.
Í fréttum er þetta helst:
Ástkær og elskuleg fartölvan mín er komin af sjúkrahúsi eftir vikudvöl og þótti henni vistin slæm, hún fékk ekki þá ást og umhyggju sem henni ber og er það miður. Ég vona að ég þurfi aldrei aftur að senda hana frá mér því að þetta var ein hræðilegasta vika í lífi mínu og yndið mitt er bæklað í þokkabót.
Enginn reyndi við síðustu vísbendingu þó að hún ætti að gera öllum ljóst um hvaða amrísku hljómsveit ég er að spyrja. Ekki verður birt ný vísbending fyrr en einhver huguð vera sýnir dirfsku og giskar.
Dagskráin verður ekki lengri að sinni, góðar stundir.

miðvikudagur, september 15, 2004

Tölvan mín er á sjúkrahúsi þessa dagana og því hef ég haft heldur litla löngun til að blogga. Núna þykir mér hins vegar vera kominn tími á næstu vísbendingu. Here goes...

mánudagur, september 06, 2004

Enginn reyndi að giska á amerísku hljómsveitina og ætla ég því að birta hér aðra vísbendingu.

föstudagur, september 03, 2004

Skrítinn dagur þetta. þegar ég skilaði snillingnum í leikskólann í morgun blasti við mér sótugt og illa útlítandi hús við Lækjargötu. "Hvur andskotinn skeði þarna?" hugsaði ég. Skömmu seinna fékk ég svar við því; snarbrjálaður brennuvargur á ferðinni í nótt. Heimur versnandi fer. Rússar og Tétjenar drepa börn í tugatali. Hvert stefnir þetta eiginlega? Ákvað að slá þessu upp í kæruleysi og kaupa mér góða lykt í Body Shop. Ég var greinilega eitthvað aumingjaleg í Smáralindinni í dag, ég held bara svei mér þá að allur alheimurinn hafi verið á hvolfi. Fyrsti viðkomustaður var Skífan (sem ég hef ekki komið inn í í mörg ár) og haldiði ekki að diskurinn sem mig langaði mest í í öllum heiminum hafi verið til! (eitt eintak sem ég er að hlusta á núna) Lyktin sem mig langaði í var líka til í Body Shopl. Fór svo í búð með brothættu drasli og sveiflaði pokanum í glerkertastjaka og braut hann, þurfti samt ekki að borga. Fór svo á skyndibitastað sem ég hef ekki prófað áður og pantaði, gat ekki borgað með korti því að það var bilun í símkerfinu, ég leit líklega út fyrir að vera aðframkomin af hungri því að pilturinn á kassanum(a.m.k. tíu árum yngri en ég og helmingi mjórri, öfugt við félaga hans á næsta kassa) endaði á því að bjóða mér upp á matinn, eins gott því að maturinn var forvondur, flokkast eiginlega undir hroðbjóð og ég ætla sko aldrei að borða þarna aftur. Takk samt, þetta var næstum eins og góði maðurinn í Rúmfatalagernum í gæsapartýinu og það er góð lykt af mér.

Nú langar mig hins vegar að leggja getraun fyrir ykkur, lesendur góðir:
Með hvaða amerísku hljómsveit er geisladiskurinn sem ég keypti mér í dag?

(aukagetraun: hvað eru mörg í í færslunni?)
 
eXTReMe Tracker