Ég lofaði að svara athugasemd sem var gerð við síðustu færslu, svarið varð bara svo óskaplega langt að ég ákvað að birta það hér og athugasemdina með.
Ég er svo ósammála að það hálfa er bæði barma og bakkafullur lækur.Hræsnin er algjör að neita fólki sem hefur að atvinnu starfsgrein sem fólki er ílla við og það samkvæmt könnun er það minnihluti að auki! Og það af hóteli sem sýnir svo jafnvel þeirra vöru í sjónvarpinu. Hvurn fjandann kemur okkur við hvað þeir ætla að snakka inná einhverjum hótelsal þetta er fólk sem kemur til þess að skemmta sér og ræða viðskipti.Hversu margir hafa dáið í nafni auðvalds og olíugróða, Eruði pottþéttar að brækurnar ykkar, föt og fótboltar barnana séu ekki saumaðar í höndum lítilla barnaþræla sem eru föst í einhverjum þriðjaheims swetshop holu? seld í ánauð eða vinna bara fyrir loft og skít! hvernig er samviskan þegar þið smeygjið ykkur í fötinn á morgnana? eða þegar þið keyrið af stað í bílnum sem er knúin af blóðolíu? Svo hefðu þeir átt að neita þeim frá upphafi og ekki átt að bóka handa þeim herbergi og láta svo undan þrýstingi borgaryfirvalda og minnihlutans sem er rauninn.Vér mótmælum allur. JC | 02.23.07 - 4:28 am | #
Það skiptir ekki máli hvort fólki er vel eða illa við starfsgreinina ef hún er ólögleg. Eitthvað myndi líklega heyrast ef dópframleiðendur eða melludólgar ákvæðu að hittast hér og ræða framleiðsluna og dreifinguna. Hvorugt er ólöglegt í Hollandi t.d. Töluverður fjöldi fólks lítur þessa starfsgrein hornauga og það er ástæða fyrir því. Klám sýnir konur, karla og börn sem viljugar kynlífsbrúður þeirra sem kæra sig um. Það að einhverjir skuli taka það nærri sér er ekkert skrítið, það er ekki svo langt síðan íslenskar konur voru nánast í eigu eiginmanna eða húsbænda og máttu sætta sig við margt sem engin okkar gerir í dag og flokkast jafnvel sem ólöglegt athæfi. Viljum við hverfa aftur til þeirra tíma?
Nú veit ég ekki í hvaða könnun þú vitnar eða hvort hún hefur vísindalegt gildi en ég þori næstum að hengja mig upp á það að það eru konur sem eru líklegri til að vera á móti kláminu. Karlar eru pottþétt í meirihluta neytenda þótt vissulega megi líka finna konur í þeim hópi, segir það ekki eitthvað um viðhorf þessara karla til kvenna? Höfum við ekki fullan rétt á því að vera ósáttar við að við séum hlutgerðar á þennan máta? Það er eflaust fullt af konum sem stunda þessa iðju af einlægum áhuga en þær eru líka fjölmargar sem eru neyddar til starfans og ef við mótmælum ekki fyrir þeirra hönd, hver gerir það þá?
Hvað hótelið snertir þá skilst mér að til standi að hætta sýningum á klámfengnu efni á sjónvarpsstöð þess. Mér finnst það bara ofsalega flott að hótelrekendur taki þetta frumkvæði og óska þess að fleiri feti þessa slóð.
Hvað barnaþrælkun varðar þá er einmitt verið að mótmæla henni enda þarf ekki að leita út fyrir landsteinana eftir dæmum þar sem börn eru/voru skipulega gerð út til að svala ofbeldisfýsnum fullvaxinna karlmanna. Ég veit ekki hvort hver einasta flík sem ég á er unnin af fullorðnum en ég reyni að vera meðvitaður neytandi og sniðganga fyrirtæki sem ég veit að nota börn til starfa, þú munt t.d. aldrei sjá persneskt teppi á gólfi hjá mér. Klám og fatnaður er reyndar ekki alveg sambærilegt þar sem við myndum líklega geyspa golunni ef við gengjum alltaf ber, klám er hins vegar algjörlega val neytandans.
Eins og er þá á ég ekki bíl en vissulega hef ég hugsað mér að eignast svoleiðis þegar ég flyt aftur heim enda er erfitt að vera bíllaus á Íslandi ef maður er með börn. Ég játa samt að ég hugsa ekki um olíugróða og stríð í hvert sinn sem ég sest upp í olíuknúið farartæki, það ætti samt ekki að hafa farið fram hjá neinum sem þekkir mig í prívatlífinu eða gegnum bloggið að ég er á móti ofbeldi af öllu tagi, hvort sem það er stríð, klám eða eitthvað annað.
Til að koma í veg fyrir allan misskilning vil ég benda á að klám og kynlíf fara ekki endilega saman og þótt ég sé á móti klámi þá er ég ekki á móti því að fólk stundi kynlíf eins og því finnst best á meðan þátttakendur eru sjálfráða og samþykkir því sem fer fram, ég er á móti því að fólk hagnist á eymd annarra og auki hana þar með.
Það má vel vera að þér þyki ég vera óttalegur hræsnari en það verður þá svo að vera, ég er langt frá því að vera fullkomin. Mér finnst samt tilvalið að nota tækifærið til að mótmæla þegar það kemur svona upp í hendurnar á mér eins og gerðist í síðustu viku. Ég vil búa börnunum mínum heim þar sem jafnrétti og bræðralag eru meira metin en réttur einstaklinga til að græða peninga og traðka á þeim sem ekki geta borið hönd fyrir höfuð sér.
Engin ummæli:
Skrifa ummæli