miðvikudagur, mars 31, 2004

Hæ, þetta er Ljúfa, hvernig hafiði það?

Ég hef það fínt!

Nei, það er svo sem ekkert sérstakt í fréttum, en hjá ykkur?

Ha, baðherbergið? Jú það er loksins eitthvað að gerast, kom pípari í dag og svona, lagði rör og svoleiðis.

Eiginmaðurinn? Hann kom frá Erlendis á sunnudaginn og við vorum ofsalega glöð að fá hann heim aftur, sonurinn sleppti ekki augunum af honum fyrstu tvo dagana og hann er enn að tala um hvað það sé gott að pabbi sé kominn.

Jú, það er gaman í vinnunni, fékk að skoða endurvinnslustöð fyrir málma um daginn, það var mjög skemmtilegt.

Nei, það gengur ekkert allt of vel með það.

Ókei, það var gaman að heyra í ykkur og takk sömuleiðis!

Bless.

fimmtudagur, mars 25, 2004

Stundum finnst mér voða gott að búa á Íslandi, vitandi það að við erum nokkuð örugg fyrir skarkala heimsins og hinu illa sem er á ferli. Oftar er ég hins vegar óþyrmilega minnt á að illskan býr líka á Íslandi, eiginlega gerist þetta daglega. Það líður varla sá fréttatími sem ekki er minnst á barnaníðinga og fórnarlömb þeirra. Af hverju í andskotanum sleppa þessi helvíti alltaf svona vel? Í dag féll dómur yfir manni sem misnotaði stjúpdóttur sína í 12 ár. Hvaða refsingu fékk hann? Jú, skitin fimm og hálft ár og smánarlega lága sekt. Hann hélt barni í hryllilegum fangabúðum í tólf ár, ég get ekki ímyndað mér að fangelsi hérlendis séu jafn skelfileg og það sem stúlkan mátti þola. Það hefði að minnsta kosti átt að dæma manninn til jafnlangrar vistar og hann dæmdi varnarlaust stúlkubarn.

miðvikudagur, mars 24, 2004

Rakst á þetta á flakki mínu um innviði alnetsins. Finnst ykkur að ég ætti að taka hana að mér?

Beggi var sá eini sem svaraði getrauninni hér að neðan en það kom ekki að sök þar sem svarið var rétt. Beggi er því "Gáfnaljós vikunnar" og legg ég til að þið gefið honum gott klapp.

mánudagur, mars 22, 2004

Í höfði mínu hljómar lag sem kom út á plötu árið 1984. Af því að ég hef ekkert sérstakt að segja, er ég að hugsa um að kanna hvort eitthvert ykkar, kæru lesendur, þekkið plötuna og hljómsveitina sem flutti. Ekki væri verra að fá nafnið á laginu. Sá/sú sem svarar rétt fær titilinn "Gáfnaljós vikunnar" auk þess sem sá sami/sú sama má bjóða mér í kaffi. Texti lagsins er svona:

Bo Bo Bee, Bo Bee,
Bo Bo-Bo Bee,
Bo Bee, Bo

I couldn't bear to be special,
I couldn't bear, couldn't bear.
I couldn't bear, right ?

So don't look at me and say, that I'm the very one,
Who makes the cornball things occur, the shiver of the fur.
Don't expect so much of me, I'm just an also-ran,
There's a mile between the way you see me and the way I am.

So don't stare at me that way, of course it gives me pride,
but I won't take on the risk, of letting down the sweet sweet side.

Did you mean to humble me ?
So you did it unsuspectingly !
Oh words are trains, for moving past what
Really has no name.

Bo bo bee, bo be, bo

I couldn't bear to be special,
I couldn't bear, couldn't bear.

So don't look at me and say, that I'm the very one,
Who makes the cornball things occur,
the shiver of the fur. . . . right?


Góða skemmtun.

fimmtudagur, mars 18, 2004

Það má eiginlega segja að með þessu bloggi sé ég að taka áskorun

Hann Magnús Ingvar Bjarnason sem í gærkveldi hlaut viðurnefnið "Undur Íslands" er sko alveg náskyldur mér! Þegar hann var lítill pjakkur þá kallaði hann mig alltaf sögufrænku því mér þótti svo gaman að segja honum alls konar sögur. Ég hef aldrei síðar hitt nokkurt barn sem hlustar af jafn miklum ákafa og hann gerði, hann beinlínis drakk í sig hvert orð sem hraut af vörum mínum. Sögurnar fjölluðu yfirleitt um strák sem hét Magnús og var hann gæddur undraverðum hæfileikum og því er mér skapi næst að álykta að það sé mér að þakka að Magnús fór að þróa með sér þennan undraverða hæfileika að halda á strauborði með andlitinu!

HÚRRA FYRIR UNDRI ÍSLANDS!!!
(húrra fyrir mér!)

Pezkall, var þetta í lagi?

miðvikudagur, mars 17, 2004

Ég er eitthvað dofin í höfðinu þessa dagana...

mánudagur, mars 15, 2004

Í gær gerðum við tilraun til að gefa öndunum á Læknum en þær syntu bara í burtu. Í dag gerðum við aðra tilraun en hættum við þegar við sáum að brauðbitarnir þekja yfirborð Lækjarins bakkanna á milli.

Sonur minn vaknaði eldhress í blíðunni í morgun en þar sem honum gekk eithvað illa að vekja mömmu gömlu rölti hann fram og vissi ég ekki meira fyrr en hann kom inn í herbergi íklæddur ninjabúningi, glamrandi á gítar og syngjandi eins og farandsöngvari. Í kvöld sofnaði hann svo í drekabúningi í sófanum. Í millitíðinni fór ég í foreldraviðtal í leikskólanum og fékk staðfestingu á því að ég á fyrirmyndarbarn. Þetta var góður dagur.

laugardagur, mars 13, 2004

Vá! Ég var að fatta að ég hef ekki bloggað um neitt nema baðherbergið mitt síðan í lok febrúar. Eru ekki allir orðnir leiðir á þessu? Sérstaklega þar sem ekkert hefur gerst! Svona festist maður í sínum eigin litla heimi og sér ekki nema rassgatið á sjálfum sér (reyndar eru það ýkjur, ég sé það yfirleitt ekki einu sinni sjálf). Ég lofa að hætta þessu fyrr en eitthvað gerist og meira að segja þá skal ég ekki segja of mikið.

Nú ætlum við snillingurinn að vera ein heima í tvær vikur og hafa það gott. Verst að geta ekki haldið endalaus matarboð (af augljósum ástæðum sem ég var að enda við að lofa að blogga ekki meira um) en ef einhverjir aðrir eru að halda endalaus matarboð þá erum við í miklu stuði um kvöldmatarleyti á degi hverjum. Ef einhver vil bjóða okkur í sturtu þá er það líka mjög vel þegið, ég nenni nefnilega ekki alltaf að fara í sund. Að sjálfsögðu þýðir lítið fyrir mig að mæta með soninn í sturtuklefa sundlaugar og setja punkt þar við, drengurinn heimtar sitt busl.

Áðan sendi nágrannakona mín mér tvær súkkulaðikökusneiðar og þær voru æði með léttmjólk.
Enn hefur ekki heyrst múkk í iðnaðarmönnunum sem voru ráðnir til að gera lýtaaðgerð á baðherberginu og ég er að verða pínu pirruð. Í gær leit reyndar út fyrir að við hefðum fundið staðgengla en sú sæla stóð ekki nema í u.þ.b. tvo tíma. Vesalings eiginmaður minn var ákaflega súr á svip og í sinni þegar hann færði mér þær fréttir að við snillingurinn sætum hugsanlega uppi iðnaðarmannalaus næstu tvær vikurnar. Af því að ég er svolítið góð (bara smá samt) þá lék ég Pollýönnuleik og lét eins og þetta væri allt í besta lagi.

Í morgun fór öll fjölskyldan á fætur á sérlega ókristilegum tíma og við ákváðum að skreppa á rúntinn. Leiðinn lá á Suðurnes og þegar við nálguðumst Leifsstöð ákvað ég að senda kallinn bara til útlanda í eins og tvær vikur. Á meðan ætla ég að sjá hvort það gerist kraftaverk á baðherberginu eða hvort ég þurfi að kaupa bókina "Handlagin húsmóðir" og bregða mér svo í hlutverk pípara.

Ef þið séuð með hattin þá komist þið kannski í stuð og biðjið ykkar guð að senda mér iðnaðarmenn. Amen.

miðvikudagur, mars 10, 2004

Hæbb!
Hér hefur ekki sést iðnaðarmaður síðan á fimmtudag og ég er orðin leið á biðinni. Er ekki einhver góðhjartaður pípari þarna úti?

föstudagur, mars 05, 2004

Ég hef engar fréttir að færa, veriði sæl í bili.

fimmtudagur, mars 04, 2004

Ástandið er að mestu óbreytt og nú fyrir stundu kom í ljós að þetta er aðeins meira mál en við gerðum ráð fyrir. Það stefnir því í að við þurfum að flytja út í nokkra daga og þá er bara spurning hvort einhver vill taka við okkur. Við erum obboslega góð og þurfum ekki mikið pláss. Einhver?

þriðjudagur, mars 02, 2004

Vælið mitt var toppað með glæsibrag í kommenti við síðustu færslu og já Gulla, þetta er alveg rétt hjá þér, við erum stálheppnar og ég hugsa að ég sé jafnvel heppnari en þú. Baðherbergið verður orðið glænýtt og fínt áður en langt um líður, ég á ágætis ryksugu og nóg af tuskum, ég er útsofin í dag og eiginmaðurinn (sem er jafnframt liðtækur í ryksugun) brá sér bara upp að Kárahnjúkum í nokkra daga. Þetta er bara ágætt allt saman og maður á ekki að vera að kvarta svona alltaf hreint, það eru flestir í mínu lífi við góða heilsu, ég er í skemmtilegu námi og ágætri vinnu og þar að auki á ég notalega íbúð og bíl sem virkar (þótt hann þarfnist sárnauðsynlega yfirhalningar). Skítt með það þó að ég sé skítblönk og nokkrum kílóum of þung, ég hef allt til alls og á þar að auki fullan frysti af mat. Og síðast en ekki síst er nánasta fjölskylda og vinir allt svo ljómandi gott fólk sem er tilbúið að leggja ótrúlega mikið á sig ef maður þarf á hjálp að halda.

Lífið er bara býsna gott!

mánudagur, mars 01, 2004

Það er búið að rífa allt út úr baðherberginu nema salernið, það er búið að brjóta göt í veggin, það er ryk út um alla íbúð, ég svaf fjóra tíma síðustu nótt og kallinn er stunginn af. Toppiði þetta!
 
eXTReMe Tracker