mánudagur, febrúar 26, 2007

Eiginmaðurinn er loksins kominn heim og verður vonandi við í fáeina daga, mér leiðist grasekkjulífið og strákarnir eru guðslifandi fegnir að geta kvabbað í einhverjum öðrum en mömmunni sem er hvort eð er löngu hætt að hlusta á þá.

Það lítur út fyrir að litli snáðinn ætli að verða nískur á brosin, hann er orðinn sjö vikna gamall og hefur bara einu sinni brosað í alvöru til mín, hann er líklega hundleiður á þessu stanslausa brosbetli og harðákveðinn í að halda brosinu fyrir sjálfan sig um sinn, mér finnst þetta frekar fúlt og er að hugsa um að teikna bros á andlitið á barninu. Sá hlær best sem síðast hlær... eða eitthvað.

Annars er stórra tíðinda að vænta í vikunni en fyrst um sinn eru þau leyndó.

laugardagur, febrúar 24, 2007

Ég lofaði að svara athugasemd sem var gerð við síðustu færslu, svarið varð bara svo óskaplega langt að ég ákvað að birta það hér og athugasemdina með.



Ég er svo ósammála að það hálfa er bæði barma og bakkafullur lækur.


Hræsnin er algjör að neita fólki sem hefur að atvinnu starfsgrein sem fólki er ílla við og það samkvæmt könnun er það minnihluti að auki! Og það af hóteli sem sýnir svo jafnvel þeirra vöru í sjónvarpinu. Hvurn fjandann kemur okkur við hvað þeir ætla að snakka inná einhverjum hótelsal þetta er fólk sem kemur til þess að skemmta sér og ræða viðskipti.

Hversu margir hafa dáið í nafni auðvalds og olíugróða, Eruði pottþéttar að brækurnar ykkar, föt og fótboltar barnana séu ekki saumaðar í höndum lítilla barnaþræla sem eru föst í einhverjum þriðjaheims swetshop holu? seld í ánauð eða vinna bara fyrir loft og skít! hvernig er samviskan þegar þið smeygjið ykkur í fötinn á morgnana? eða þegar þið keyrið af stað í bílnum sem er knúin af blóðolíu?

Svo hefðu þeir átt að neita þeim frá upphafi og ekki átt að bóka handa þeim herbergi og láta svo undan þrýstingi borgaryfirvalda og minnihlutans sem er rauninn.

Vér mótmælum allur.

Það skiptir ekki máli hvort fólki er vel eða illa við starfsgreinina ef hún er ólögleg. Eitthvað myndi líklega heyrast ef dópframleiðendur eða melludólgar ákvæðu að hittast hér og ræða framleiðsluna og dreifinguna. Hvorugt er ólöglegt í Hollandi t.d. Töluverður fjöldi fólks lítur þessa starfsgrein hornauga og það er ástæða fyrir því. Klám sýnir konur, karla og börn sem viljugar kynlífsbrúður þeirra sem kæra sig um. Það að einhverjir skuli taka það nærri sér er ekkert skrítið, það er ekki svo langt síðan íslenskar konur voru nánast í eigu eiginmanna eða húsbænda og máttu sætta sig við margt sem engin okkar gerir í dag og flokkast jafnvel sem ólöglegt athæfi. Viljum við hverfa aftur til þeirra tíma?

Nú veit ég ekki í hvaða könnun þú vitnar eða hvort hún hefur vísindalegt gildi en ég þori næstum að hengja mig upp á það að það eru konur sem eru líklegri til að vera á móti kláminu. Karlar eru pottþétt í meirihluta neytenda þótt vissulega megi líka finna konur í þeim hópi, segir það ekki eitthvað um viðhorf þessara karla til kvenna? Höfum við ekki fullan rétt á því að vera ósáttar við að við séum hlutgerðar á þennan máta? Það er eflaust fullt af konum sem stunda þessa iðju af einlægum áhuga en þær eru líka fjölmargar sem eru neyddar til starfans og ef við mótmælum ekki fyrir þeirra hönd, hver gerir það þá?

Hvað hótelið snertir þá skilst mér að til standi að hætta sýningum á klámfengnu efni á sjónvarpsstöð þess. Mér finnst það bara ofsalega flott að hótelrekendur taki þetta frumkvæði og óska þess að fleiri feti þessa slóð.

Hvað barnaþrælkun varðar þá er einmitt verið að mótmæla henni enda þarf ekki að leita út fyrir landsteinana eftir dæmum þar sem börn eru/voru skipulega gerð út til að svala ofbeldisfýsnum fullvaxinna karlmanna. Ég veit ekki hvort hver einasta flík sem ég á er unnin af fullorðnum en ég reyni að vera meðvitaður neytandi og sniðganga fyrirtæki sem ég veit að nota börn til starfa, þú munt t.d. aldrei sjá persneskt teppi á gólfi hjá mér. Klám og fatnaður er reyndar ekki alveg sambærilegt þar sem við myndum líklega geyspa golunni ef við gengjum alltaf ber, klám er hins vegar algjörlega val neytandans.

Eins og er þá á ég ekki bíl en vissulega hef ég hugsað mér að eignast svoleiðis þegar ég flyt aftur heim enda er erfitt að vera bíllaus á Íslandi ef maður er með börn. Ég játa samt að ég hugsa ekki um olíugróða og stríð í hvert sinn sem ég sest upp í olíuknúið farartæki, það ætti samt ekki að hafa farið fram hjá neinum sem þekkir mig í prívatlífinu eða gegnum bloggið að ég er á móti ofbeldi af öllu tagi, hvort sem það er stríð, klám eða eitthvað annað.

Til að koma í veg fyrir allan misskilning vil ég benda á að klám og kynlíf fara ekki endilega saman og þótt ég sé á móti klámi þá er ég ekki á móti því að fólk stundi kynlíf eins og því finnst best á meðan þátttakendur eru sjálfráða og samþykkir því sem fer fram, ég er á móti því að fólk hagnist á eymd annarra og auki hana þar með.

Það má vel vera að þér þyki ég vera óttalegur hræsnari en það verður þá svo að vera, ég er langt frá því að vera fullkomin. Mér finnst samt tilvalið að nota tækifærið til að mótmæla þegar það kemur svona upp í hendurnar á mér eins og gerðist í síðustu viku. Ég vil búa börnunum mínum heim þar sem jafnrétti og bræðralag eru meira metin en réttur einstaklinga til að græða peninga og traðka á þeim sem ekki geta borið hönd fyrir höfuð sér.

fimmtudagur, febrúar 22, 2007

Málalok urðu semsagt þau að klámráðstefnan var slegin af. Ég get ekki sagt að ég syrgi það og mér finnst viðleitni eigenda Hótels Sögu virðingarverð, ég á ekki von á að hótelið hefði orðið af miklum viðskiptum þótt það hefði tekið á móti hópnum svo að ákvörðunin en enn merkilegri og manneskjulegri fyrir vikið. Mér finnst gott að vita til þess að enn er til fólk sem hefur snefil af sjálfsvirðingu og lætur hana ganga fyrir gróða. Andmælendum mínum vil ég benda á að enginn hefur bannað hópnum að koma til Íslands, nóg er af hótelherbergjum í borginni og pottþétt að einhver gróðapungurinn hefði hýst liðið.

Eiginmaðurinn er ekki fyrr kominn heim þegar hann þarf að fara aftur. Enn eina ferðina er ég afbrýðisöm þar sem ég er alveg til í að skoða mig um í austanverðri Evrópu.

Ferðalangurinn á afmæli í dag og fær ástar- og saknaðarkveðjur frá eiginkonu og sonum.

miðvikudagur, febrúar 21, 2007

þriðjudagur, febrúar 20, 2007

Helgin var yndisleg enda félagsskapurinn góður. Kaffikella hélt heimleiðis í morgunsárið og nú bíðum við, ég og strákarnir eftir komu eiginmannsins en samkvæmt áreiðanlegum heimildum er hann kominn á enska grundu og á bara eftir að aka fáeinar mílur.

Ég lagaði aðeins til í hlekkjunum í tilefni dagsins og nú ættu allir sem hafa staðið í flutningum að vera komnir á réttan stað.

Nú þarf ég að skipta á kúkableyju.

föstudagur, febrúar 16, 2007

Jæja. Klámiðnaðurinn ætlar að halda ráðstefnu á litla Íslandi og eins og við er að búast eru ekki allir sáttir. Ég get ekki orða bundist eftir að hafa lesið þennan pistil hvers höfundur kemur fram sem talsmaður frelsisins, eins öfugsnúið og það nú er. Vissulega er erfitt fyrir ferðaþjónustufyrirtæki að spyrja alla viðskiptavini um starf en þegar hið sanna er komið í ljós er ekkert að því að sýna andúð á starfseminni. Höfundur pistilsins vill meina að klámiðnaðurinn sé nokkuð meinlaus en kýs að gleyma því að í skjóli hans þrífst alls konar glæpastarfsemi s.s. vændi og mansal, slíkt er nú frelsið. Það má alveg bóka það að klámið hefur drepið býsna marga, það ýtir undir misnotkun, kvenfyrirlitningu og gefur brenglaða mynd af kynlífi og kynhegðun. Í fullkomnum heimi væri einungis fullorðið fólk sem nyti þess að láta mynda sig í kynlífsathöfnum, starfandi í klámbransanum en heimurinn er bara langt frá því að vera fullkominn.

Ég hvet alla til að mótmæla klámiðnaði með sýnilegum hætti, svipað og gert var þegar Kínaforseti þvældis um klakann.

Að lokum ítreka ég að ég er femínisti og ég er stolt af því.

fimmtudagur, febrúar 15, 2007

Lífið leikur eiginlega við mig þessa dagana. Ég á yndislega og heilsuhrausta syni, frábæran mann (sem ég hef ekki séð í viku) og allt er í blóma. Reyndar er ég kannski óþarflega væmin en það er önnur saga, ég má alveg vera það.

Tvær hefðardömur og 4 piltar heimsóttu okkur í dag og hér slógum við upp heljarinnar veislu með heimabökuðum brauðum og tesco smartískökum, þetta þýddi reyndar að ég þurfti að fara á fætur eldsnemma og er því alveg úrvinda núna en það er nú alveg á sig leggjandi að vakna klukkan tíu fyrir svona félagsskap. Kannski ég geri það bara einhvern tímann aftur.

Kaffikella ákvað að veita mér félagsskap um helgina svo hér mun ríkja taumlaus gleði. Í takt við það hvet ég ykkur til að veita laginu um Heiðu og heilann hennar brautargengi í júróvisjón.

Góðar stundir.

laugardagur, febrúar 10, 2007

Ungabörn eru svo sem ekki þekkt fyrir að þegja þegar þau eru óánægð en litli björn er samt með þeim skapstærri sem ég hef hitt. Mamma hélt að hann væri stórslasaður þegar hann lá á skiptiborðinu eitt kvöldið í vikunni, hún hafði aldrei séð annað eins. Skapið náði samt nýjum hæðum rétt í þessu þegar drengurinn varð svo öskuvondur yfir því að fá ekki að liggja á brjósti þegar hann langaði, ég get svarið að barnið varð dökkfjólublátt í framan og það ískraði all svakalega í því. Um leið og snáðinn fékk sínu framgengt varð litarhaftið eðlilegt á ný og ískrið stoppaði eins og einhver hafi slökkt á því. Á heimilinu bjuggu þrír ákaflega þrjóskir einstaklingar, nú hefur sá fjórði bæst við og virðist ekkert ætla að gefa okkur hinum eftir. Hér má búast við fjörlegum skoðanaskiptum næstu árin.

föstudagur, febrúar 09, 2007

Veisluhöldunum er lokið í bili, mamma fór heim í gær, nemöndin er á heimleið núna eftir tíu daga au pair störf, almennilegheit og fjáraustur. Þór leggur svo upp í langferð á morgun. Hann er sko ekkert að skreppa á milli landa, áfangastaðirnir eru effing Kína, Taiwan og Japan. KÍNA, TAIWAN OG JAPAN!!! Ég er græn af öfund!!! Á meðan kallinn kaupir handa mér Kimono, sit ég heima útæld og tætingsleg og það versta við þetta allt saman er að hann er ekkert mjög spenntur fyrir þessari ferð. Er þetta alveg sanngjarnt?

Nei annars, það er ég sem er heppin þar sem tveir sætustu strákar í heimi ætla að veita mér félagsskap. Sá stóri var að byrja í vetrarfríi og sá litli er að fá fagurblá augu Litladalsættarinnar. Við ætlum að hafa það huggulegt hérna saman og erum búin að fylla alla skápa af alls kyns góðgæti ef ske kynni að það héldi áfram að snjóa þótt ekki sé það líklegt í augnablikinu. Nú ætla ég hins vegar að horfa á lélega hrollvekju. Sæl að sinni.

mánudagur, febrúar 05, 2007

Mæt kona á stórafmæli í dag og heldur upp á það með því að rölta um götur Northampton og skoða bókasöfn, ein síns liðs.
Til hamingju með daginn, elsku mamma!

fimmtudagur, febrúar 01, 2007


Ég get ekki annað en orðið við þeirri beiðni að setja inn mynd af Emil enda ótrúlega montin af honum. Þessi er nú samt c.a. tveggja vikna gömul og nýrri myndir verða að bíða betri tíma þar sem myndavélin er batteríslaus, lofa samt að það verður ekki of lengi.

Íslenska nemöndin er hér stödd og ég get svarið það, mig langar að eiga hana. Hún passar, ryksugar, setur í uppþvottavél, eldar OG er skemmtileg! Með hennar hjálp er jafnvel möguleiki á að mér takist að snúa sólarhringnum við og læðast aftur í heim lifenda.
Í dag skruppum við út vorið og önduðum að okkur tiltölulega ómenguðu lofti, stefnum svo að því að sukka all rækilega með súrefnið á morgun í tilefni þess að helgin er á næsta leiti. Móðir mín elskuleg er svo væntanleg á laugardag til að líta nýjasta afleggjarann augum.

Eftirfarandi skilaboð skrifaði eldri sonurinn til mín í gær:
"Ég elsga ðig rosalega mykið
frá Leifi."

Þetta er yndislegt líf.
 
eXTReMe Tracker