sunnudagur, desember 31, 2006

Salómon lætur ekkert á sér kræla núna og ætlar greinilega að fæðast á nýja árinu, hann er augljóslega bráðvel gefinn.

Áramótafögnuður verður með öðru sniði hjá okkur en venjulega þar sem við erum boðin í veislu til uppáhalds nágranna okkar, allir gestir mæta með vínflösku og eitthvað að narta í og svo verður bara stuð eins lengi og orkan leyfir. Hér þarf því ekkert að hafa áhyggjur af einhverjum stórsteikum, grjóni er það eina sem verður eldað hér í dag. Eiginmaðurinn hefur svo hótað að skikka mig í stigahlaup og alls kyns æfingar eftir miðnætti svo Salómon missi nú af sem minnstu af komandi ári.

Ég þakka ykkur öllum kærlega fyrir ánægjulega samveru á þessu ári, hvort sem var í raun- eða bloggheimum og vona að 2007 verði ykkur gæfu- og gleðiríkt. Góða skemmtun í kvöld!

laugardagur, desember 30, 2006

Einn grimmasti harðstjóri sögunnar var líflátinn í dag. Þrátt fyrir hrottalega glæpi hans þá get ég ekki fagnað þessu þar sem dauðarefsingar eiga aldrei rétt á sér. Að auki er hætt við að þessi aftaka verði vatn á myllu öfgamanna um allan heim og að veröldin verði verri staður fyrir vikið.
Ég er dálítið döpur núna.

föstudagur, desember 29, 2006

þriðjudagur, desember 26, 2006

Hó hó hó!

Héðan er allt gott að frétta, maturinn var stórfenglegur, sérstaklega hangikjötið og laufabrauðið, allir fengu góðar gjafir og þegar þessi orð eru skrifuð sitja eldri karlmennirnir í fjölskyldunni á Old Trafford og fylgjast með Manchester United vinna frækinn sigur á Wigan (vonandi skrifa ég aldrei framar um fótbolta á þessa síðu). Við hin fórum og skoðuðum útsölur og náðum að eyða smá peningum. Salómon er alveg rólegur en það verður að segjast að hann er orðinn ansi fyrirferðamikill og ég væri nú alveg til í að fara að sjá framan í piltinn. Ég held að það sé skemmtilegra hans vegna að bíða fram yfir áramót en ég veit líka að önnur amman vill svo gjarnan fá að sjá hann áður en hún fer heim. Hún verður bara að koma aftur, það er gott því þá er dekrað svo mikið við okkur.

laugardagur, desember 23, 2006

Gleðileg jól!

fimmtudagur, desember 21, 2006

Furðulegt veðurfar þessa dagana, allt á floti heima á klakanum og hér sést varla á milli húsa fyrir þoku. Vona að jólagestirnir mínir komist á leiðarenda á skikkanlegum tíma. Aðrir gestir, sem eitt sinn þóttu óttalegir vágestir, virðast þó ekki eiga í neinum vandræðum með að rata hingað þar sem sokkurinn hefur aldrei verið tómur að morgni. Ég er jafnvel að spá í að setja sjálf skó í glugga þegar Kertasníkir verður á ferð og vita hvort ég hafi ekki verið stillt stelpa, ég get að vísu ekki hrósað mér fyrir að fara snemma að sofa en líklega hef ég betri afsökun en margir aðrir.

Salómon er nú búinn að gera sig kláran til lendingar og gæti látið sjá sig hvenær sem er, ég vona samt að ég nái að kaupa jólagjöf handa eiginmanninum áður en stúfurinn kemur. Það má svo alveg bóka það að ég þarf að bíða í a.m.k. þrjár vikur í viðbót, er það ekki alltaf svoleiðis? Reyndar væri eitt stykki Salómon alls ekki slæm jólagjöf... eða... ætli hann vilji frekar peysu?

miðvikudagur, desember 20, 2006

Tjallinn er skrítinn. Stundum. Ég var að koma frá ljósmóðurinni og ákvað að taka strætó heim, þar sem ég sat í sakleysi mínu kom ungur piltur, á að giska 12-13 ára, askvaðandi með sígarettu í kjaftinum. Hann reykti sitt tóbak og tók svo til við að hrækja allmikið, ég taldi tuttugu hrákaslummur á gangstéttinni áður en ég hætti að telja. Að spýtingum loknum vildi hann nú aldeilis ræða málin og mátti ég hlusta á afsökun fyrir því af hverju hann var ekki í skólanum, hvert hann væri að fara og hvers vegna, hvað væri langt fyrir hann í skólann o.s.frv. Athyglisverðust fannst mér þó sagan af því þegar hann, á einum degi, gekk tvær ferðir fram og til baka niður í miðbæ og síðan yfir í annað hverfi hér í bænum. Hann sagðist hafa verið orðinn svo örmagna að hann féll um koll á leiðinni heim til sín.
Svo kom strætó.

mánudagur, desember 18, 2006

Sjálf Grýla er farin að derra sig í kommentakerfinu mínu og ég veit ekki alveg hverju ég á að þakka þennan mikla heiður. Ég get fullvissað lesendur um það að glyðrufötin eru öll komin í kassa og verða ekki tekin upp á næstunni enda getur engin sómakær móðir og eiginkona látið sjá í bert hold.

Við fórum í heimsókn á herragarð um helgina, hittum fullt af skemmtilegum fólki og borðuðum rosa góðan mat. Ég fékk líka þessa ágætu fyrirvaraverki en krakkinn var bara aðeins að grína.

Jólagestirnir koma á föstudaginn og ég get hreinlega ekki beðið! Hlakka meira til komu þeirra en sjálfra jólanna og þá er nokkuð mikið sagt.

Grýlu er óhætt að loka jólaköttinn inni því ég keypti mér flík og henni er hollast að halda sig á skerinu því unglingurinn á heimilinu hefur verið óhemju stilltur. Hún má samt alveg óhrædd tjá sig í athugasemdum því einhver verður að ala mig upp, það veitir sko ekki af.

fimmtudagur, desember 14, 2006

Mér finnst ég verða að láta vita aðeins af mér þótt ég hafi lítið að segja.

Við erum farin að hlakka til jólanna og gestanna sem þeim fylgja, það er samt ekki hægt að segja að við höfum lagt hart að okkur í undirbúningnum, hér hefur ekki verið bökuð ein einasta smákaka, ekki skorið í laufabrauð, ekki skrifað á eitt einasta jólakort og jólaskrautið er tínt upp á veggina eftir nennu. Sem betur fer eru allar jólagjafir tilbúnar nema náttúrulega eiginmannsins, ég er alltaf í vandræðum með hann. Jólakortin verða ekki skrifuð en ég bendi ykkur á að hlusta á jólakveðjurnar í útvarpi allra landsmanna á Þorláksmessu.

Ég er byrjuð að þvo barnaföt og undirbúa komu Salómons enda styttist óðum í þann merkisviðburð. Hann er nú búinn að skorða sig og er stax farinn að halda móður sinni vakandi um nætur, yfirleitt sofna ég á milli fjögur og fimm og er því alveg viðurstyggilega hress þegar ég þarf að koma stóra stráknum mínum í skólann á morgnana.

Talandi um stóra strákinn, hann var að syngja í kirkju í kvöld og stóð sig með mikilli prýði. Reyndar er hann svo yfirmáta stillur núna að hann er uppgefinn á kvöldinn, það er erfitt að þurfa að hemja sig svona en maður tekur enga áhættu þegar pörupiltarnir þrettán eru annars vegar. Ég þarf líklega ekki að lýsa fyrir ykkur fögnuðinum sem braust út þegar í ljós kom að þeir félagar gera sér ferð alla leið til Englands. Sá sem kemur á heimili breskra og amerískra barna á jóladag er víst veikur núna og alls óvíst hvort hann nái heilsu fyrir ferðalagið mikla en það er ekkert vandamál, Leifur ætlar að biðja þá íslensku að hlaupa í skarðið svo skólafélagarnir fái nú örugglega í skóinn líka.

Það hafa eflaust allir heyrt af morðunum í Ipswich enda um fátt annað rætt hér, virtar fréttastofur eru með ítarlegar fréttaskýringar í öllum fréttatímum og alls konar sérfræðingar eru kallaðir til til þess að fræða almenning um stöðu mála og vinnubrögð lögreglu. Það er ljóst að það gengur mjög brenglaður einstaklingur laus og að sjálfsögðu er full ástæða fyrir almenning á svæðinu að gera fara varlega og að gleyma sér ekki, það er ágætt að fréttamenn minni fólk á það en þegar einn slíkur fór að tala um Silence of the lambs var mér allri lokið. Þetta er nógu hræðilegt þó það sé ekki verið að hæpa þetta meira upp. Svona er blaðamennskan hér, það virðist ekki vera hægt að koma nokkrum sköpuðum hlut á framfæri nema með ýktum hræðsluáróðri. Ég hélt að kaninn væri slæmur...

Þetta er merkilega löng færsla miðað við að ég hafði ekkert að segja.

sunnudagur, desember 10, 2006

Enn skánar ástandið, nú eru allir á heimilinu búnir að fá jólaföt og ekkert okkar þarf að óttast köttinn grimma. Mér fannst reyndar óþarfi að eyða fúlgu í föt á sjálfa mig þannig að ég keypti bara fullt af litríku glingri sem ég ætla að skreyta gamlar dulur með, ég verð jólatré! Áður en langt um líður verð ég hreinlega búin að útrýma ósætti úr heiminum.

Í anda jólanna ætla ég að gleðja ykkur enn frekar og bjóða ykkur upp á eftirlætislag okkar Leibbalings í dag. Vesgú!

Smá viðauki:
"Ætlarðu bara að vera með svona hálsmen í einhverjum sjoppulegum fötum?"
Þetta sagði sonurinn þegar ég sýndi honum jólaglingrið mitt.

föstudagur, desember 08, 2006

Í dag eignaðist ég tösku sem mig hefur lengi langað í.
"Hvaða máli skiptir það?" hugsið þið eflaust núna. Jú, sjáiði til, alltaf þegar ég fer út úr húsi með töskuna þá geislar af mér ánægjan og hún er náttúrulega bráðsmitandi. Pæliðíðí hvað ein skitin taska getur gert mikið til að bæta ástandið í heiminum!

þriðjudagur, desember 05, 2006

Ég skal segja ykkur það!

Verkfallið stóð ekki lengi þar sem litli bróðir minn er sjúklega klár á tölvur og hefur ótrúlega þolinmæði því hann nennti að leiðbeina tæknifatlaðri systur sinni í síma í gegnum alls kyns uppsetningar og vesen. Það ættu allir að eiga einn svona bróður, hann er æði!

mánudagur, desember 04, 2006

Eiginmaðurinn kom heim sl. laugardag með seríós, nóakonfekt, súkkulaðidagatöl og harðfisk í farteskinu. Hann gleymdi saltpillunum.

Í dag fórum við á fund með ljósmæðrum og konum sem vilja fæða börnin sín í heimahúsum, það var sérlega fróðlegt og gott ef eiginmaðurinn er ekki að verða sannfærður. Við ykkur sem takið andköf núna vil ég segja að þetta er alls ekki hættulegra en að fæða á sjúkrahúsi, ljósmæðurnar mæla með þessu þar sem þetta er afslappaðra bæði fyrir mæður og börn, ég verð við símann á morgun ef þið viljið ræða þetta eitthvað frekar.

Á næstunni verður líklega ekki mikið um nýjar færslur hér þar sem tölvan mín er komin í verkfall og heimilistölvan á eitthvað erfitt með að tengjast netinu. Vonandi tekst að kippa þessu í lag sem fyrst þar sem ég er illa haldin af netfíkn og hef ekki í hyggju að leita lækninga við henni á næstunni enda hætt við að hún verði sjálfdauð í janúar.
Ég vona að þið njótið ykkar í jólaundirbúningnum, verðið góð hvert við annað og gætið ykkar í öllum bænum í umferðinni.

laugardagur, desember 02, 2006


Er í sjónvarpinu mínu núna og yngir mig upp um allt of mörg ár.
 
eXTReMe Tracker