miðvikudagur, nóvember 26, 2003

Enn eina ferðina er ég í heimildaleit. Á ferðum mínum á netinu er ég sífellt að rekast á áhugaverðar greinar á Vísindavef Háskóla Íslands. Ég er að hugsa um að leyfa ykkur að njóta hans með mér og hef því hlekkjað á hann hér til hliðar. Góða skemmtun!

laugardagur, nóvember 22, 2003

Ég veit að ég sagðist ekki ætla að blogga en ég get bara ekki orða bundist eftir að ég las Fréttablaðið í dag. Aðalfréttin er sú að rauðhært fólk er í útrýmingarhættu. Þetta þykja mér skelfilegar fréttir í ljósi þess að ég á ákaflega góðar rauðhærðar vinkonur! Hvar væri ég án þeirra? Ég vil biðja ykkur að vera duglegar að auka kyn ykkar því heimurinn má ekki án ykkar vera! Ein rauðkan á bara ljóshærð börn, önnur á tvo yndislega rauðhausa og er það vel, vonandi verða þeir duglegir að auka kyn sitt í framtíðinni (það sama á við um eogb). Sú þriðja á bara kisu, hvort hún er rauðhærð veit ég ekki þar sem ég hef ekki séð hana enn. Systir mín á tvo rauðhærða drengi þannig að fjölskyldan liggur ekki á liði sínu, bróðir minn á nefnilega hina tvo sem áður var minnst á. Sjálf á ég bara kæfulitarhært barn (eins og ég er sjálf) en ég gerði mitt besta og var rauðhærð alla meðgönguna og alveg þar til brjóstagjöf lauk. Við litla bróður vil ég segja þetta: Eignastu rauðhærða konu!
Ég legg til að foreldrar fái verðlaun fyrir hvert rauðhært barn sem þeir koma á legg. Þannig hvetjum við þessa foreldra með rauða genið til að auka kyn sitt enn frekar.

Kæru vinkonur, þið eruð yndislegir rauðhausar!

föstudagur, nóvember 21, 2003

Bara svo að þið vitið það þá er ég að skrifa ritgerð og skrifa kannski ekkert fyrr en um næstu helgi.

Adios.

miðvikudagur, nóvember 19, 2003

Hvað finnst ykkur um fólk sem sparkar í ketti? Ég stóð nýju grannkonu mína að því að munda sparkfótinn í átt að kettinum mínum. Ég hef haft illan bifur á þessu fólki síðan þau fluttu inn og ekki bætir þetta úr skák. Ég hef reyndar haft illan bifur á öllum sem fluttu í húsið á eftir mér en hef þó viljað gefa fólki séns. Þetta líst mér hins vegar ekkert á. Ég er farin að skoða fasteignaauglýsingar.

mánudagur, nóvember 17, 2003

Nýjasta æðið í bloggheimum er að blogga um draumana sína. Þið sem þekkið mig vel vitið að draumarnir mínir eru oftast svo stórfenglegir að það væri synd að sóa þeim á bloggið (þeir eiga heldur heima í skáldsögu), nema hvað að í nótt dreymdi mig um bloggið mitt svo að ég má til með að segja ykkur aðeins frá því.

Mig dreymdi að ég bloggaði um sokka. Já ég sagði sokka! Alls konar sokkamyndir prýddu síðuna mína og var þeim reglulega skipt út fyrir nýjar, en það þarf varla að taka það fram að ég tók allar myndirnar sjálf og var orðin vel þekkt fyrir listræna hæfileika.

Mín túlkun á draumnum er sú að ég skammast mín fyrir að hafa ekki verið nógu dugleg að blogga. Sokkarnir komu til af því að ég horfði á Family guy í gærkvöldi. Í þættinum var hið alkunna sokkahvarf í þvotti tekið fyrir. Fjölskyldufaðirinn skreið inn í þurkarann til að leita af sér allan grun en hafnaði þá inni í töfralandinu Narníu. Þar tók á móti honum fánninn sem Lucy hitti og hélt hann á týnda sokknum. Mér fannst þetta ógeðslega hroðbjóðslega fyndið atriði.

Ég er að hugsa um að breyta nafninu á blogginu mínu í sokkablogg.

Þið eruð þónokkuð flink.

laugardagur, nóvember 15, 2003

Ég er að horfa á endursýningu á Fólki með Sirrý. Venjulega nenni ég ekki að horfa á þessa þætti en ég ákvað að sjá þennan vegna umræðu sem hefur skapast um Lindu Pé í kjölfarið. Einhverra hluta vegna fannst mér hún alltaf heimsk og spillt ljóska (þrátt fyrir velgengni baðhússins) en ég játa það að ég get verið ótrúlega fljót að dæma fólk og að sama skapi lengi að skipta um skoðun. Ég sé hana í allt öðru ljósi núna og held með henni, um leið og ég skammast mín.

fimmtudagur, nóvember 13, 2003

Jæja krakkar mínir.
Nú er hreinlega liðin vika síðan ég bloggaði síðast. Það hefur svo sem ekkert markvert átt sér stað fyrir utan það að ég átti (allt of ) stutta dvöl í Danaveldi. Það var frekar gaman og ég fór létt með að fá kaupæði í barnafataverslunum á Strikinu. Það vill svo furðulega til að um leið og maður er kominn út fyrir landsteinana þá er hægt að finna falleg strákaföt. Skrítið að þessi menning hafi ekki enn numið land á skerinu okkar ástkæra. Oh well!

Á laugardagskvöldinu borðuðum við feita danska steik (aðallega ég samt, hinir nörtuðu bara aðeins í fuglakjöt) og að því loknu tók við leit að skemmtilegri staðsetningu fyrir jólabjórsdrykkju. Við römbuðum inn á stað nokkurn þar sem gljásvartur maður barði bumbur af miklum móð og ég fann ryþmann skekja mig í allar áttir en samferðamenn mínir ákváðu að tíma ekki að borga 300 kall á mann til að mega njóta bumbusláttarins til fulls. Ég varð því að láta í minni pokann og var hrikalega ekki í stuði á næsta stað. Við fundum þó að lokum skoskan bar en eigi var tónlistin skosk og ekki var skotapils að sjá á nokkrum manni. Við áttum þó ótrúlegar stundir inni á staðnum og má þakka það að mestu konukind nokkurri af asískum uppruna. Hún skók sig sem mest hún mátti og naut m.a. dyggrar aðstoðar samferðamanna minna. Betri helmingur minn var fyrstur til að hristast í takt við hana og vakti það svo mikla kátínu að allir gestir staðarins lögðu frá sér spil og prjóna til að fylgjast með aðförunum, dyraverðirnir lögðu um stundarsakir niður störf vegna hláturs og allir skemmtu sér hið besta. Ég missti alveg af þessu því að ég beið í röð eftir að komast á hlandlyktandi salerni staðarins. Oh well!

Nánasta framtíð mín hefur tekið nýja stefnu síðasta sólarhring og er það vel, ég vona bara að hún eigi eftir að breytast enn meira en það ætti að koma í ljós allra næstu daga. Oh well (djók)!

Þið eruð alveg ótrúlega ligeglad!

fimmtudagur, nóvember 06, 2003

Einu sinni var hún Aþena mín algjör veiðiköttur, en ekki lengur.

Það er hlussufluga að fara á taugum hérna inni, samt ekkert gult í henni (sem betur fer því að Þór er farinn til Danmerkur og þá þyrfti ég að hringja í pabba eða einhvern til að henda henni út ef hún færi ekki sjálfviljug). Ég hélt að kisa mín myndi aldeilis taka við sér og brýna klærnar aðeins. En... nei! Aldeilis ekki! Þegar Veiðiklóin Aþena varð flugunnar vör þá skreið hún undir hornborðið í stofunni og er þar í felum á bak við Trivial og Gettu betur. Ennþá eftir c.a. 10 mínútur. Raggeit!

miðvikudagur, nóvember 05, 2003

Þessa dagana er mikið að gera, ég reyni að læra sem mest svo að ég hafi minna samviskubit í Köben um helgina.

Þið eruð algjörir grínistar.

mánudagur, nóvember 03, 2003

Ég má nú eiginlega ekki vera að þessu en ég verð samt að segja frá því að jólaföndrið var einstaklega skemmtilegt. Ég á langbestu vinkonur í heimi. Partýið um kvöldið var ekki síður skemmtilegt en ég held að við vinkonurnar höfum verið dálítið búnar eftir allan hláturinn og skætinginn um daginn, a.m.k. voru vinir (og ættingjar) húsbóndans heldur "hressari" en við. Ógislega gaman allt saman.

Nýja (fyrir þremur vikum) kaffikannan var vígð um helgina, það var eiginmaðurinn sem sá um það, ég hef ekki enn prófað kaffið góða því að ég hef hingað til notað góðu espressókönnuna sem góðu vinkonur mínar gáfu okkur í brúðkaupsgjöf. Takk stelpur!

Þið eruð rosalega vel gefin.
 
eXTReMe Tracker