föstudagur, janúar 21, 2005

Þar sem ég ligg bara í eymd hef ég litla nennu til að gera annað en að lesa og glápa á imbann. Ríkissjónvarpið hefur oft mátt þola harða gagnrýni fyrir efnisval, stundum er ég sammála, stundum ekki. Ég held að ég hafi samt aldrei séð annað eins krapp og það sem yngri áhorfendum er boðið uppá rétt fyrir kvöldfréttir á föstudögum. Aumkunarverða, krúttlega löggan úr Beverly Hills cop myndunum leikur snargeðveikan fjölskylduföður sem gerir sitt besta til að koma í veg fyrir að fjölskyldan umgangist annað fólk. Börnin ganga ekki í skóla fyrr en þau eru komin á unglingsaldur, fram að því kennir pabbinn þeim heima. Þegar börnin koma loks út í lífið, eiga þau í mesta basli með að aðlagast og eignast vini, þannig væri það a.m.k. í raunveruleikanum en í þættinum dugar að þau bjóði v.i.p. liði skólans til fæðingarhátíðar fjölskyldunnar. Fæðingahátíðin er eitthvað sem fjölskyldan fagnar í stað afmælisdaga en ekki er venjan að bjóða neinum utanaðkomandi. Fjölskyldufaðirinn mölvar leirkrús með kylfu, allir borða vondan mat (sver það) og svo syngur pabbinn en mamman spilar undir á píanó. Þvínæst hlusta allir saman á upptökur af sársaukaópum og blótsyrðum móðurinnar við fæðingar barnanna þriggja, að lokum er venjan að dansa við tónlinst frá fyrri hluta síðustu aldar. Úbbs! Þetta svínvirkaði og nú eru unglingarnir ógislega vinsæl meðal flottasta liðsins í skólanum. Je ræt! Svo þoli ég ekki þegar leikarar sem eru á þrítugsaldri og líta út fyrir það, leika 15 ára krakka. Fyrir hvern eru svona þættir sýndir á Íslandi? Krakkar undir 10 ára aldri hafa ekki ýkja mikinn áhuga á textuðu barnaefni og krakkar yfir 10 ára eru orðin of klár fyrir svona lagað, samt held ég að verið sé að reyna að höfða til unglinga. Þetta minnti mig helst á unglingabækur Andréss Indriðasonar þar sem söguhetjan var algerlega heilög og eyddi miklu púðri í að snúa öðrum frá villu síns vegar. Hvers vegna er ekki hægt að sýna eitthvað sem minnir meira uppátæki Orms og Ranúrs? Íslenskir unglingar eru ekki fávitar en við komum þannig fram við þau með því að bjóða þeim upp á svona djöfulsins dellu.
Í dag fékk ég skemmtilegan tölvupóst þar sem viðkomandi minnti mig á að kjósa sig í kosningunni á rás 2 í dag. Fólk verður að bera sig eftir björginni, þetta er almennilegt!

Ég ligg í eymd og volæði og les Harry Potter and the Order of the Phoenix í hundraðasta skipti. Ég er búin með flestar bækurnar sem við fengum í jólagjöf. Kleifarvatn er eins og við var að búast, ljómandi góð. Erlendur verður sterkari fyrir hugskotsjónum mínum með hverri bókinni en spurning hvort hann er ekki farinn að líkjast kollega sínum honum Wallander þó nokkuð. Belladonnaskjalið er ágætis afþreying en ef einhvern langar að lesa verulega góða bók af þessu tagi þá mæli ég frekar með Dumasarfélaginu. Danteklúbburinn er svolítið erfið í fyrstu en þegar maður kemst í gang þá er hún þrælfín og spennandi.

Hátíðarhöldum í tilefni Bóndadags verður frestað á þessu heimili vegna hors og heilsuleysis en ég vil samt nota tækifærið og óska ykkur til hamingju með daginn strákar!

þriðjudagur, janúar 18, 2005

Ég bætti inn nokkrum nýjum tenglum í dag og hvet ykkur til að kíkja á hvað er á seyði hjá Parísardömunni, Reykjavíkurdramadrottningunni, Hemúlnum og Júlíu. Þau eru ansi sniðug.
Já, ég fór að sjá Edith Piaf. Í einu orði sagt þá var þetta Lífsreynsla. Fram að hléi barðist ég við tárin. Í hléinu hálfpartinn flúði ég konurnar góðu til að koma skikki á hugsanirnar. Ég hitti stúlku sem ég kannast við og gat eiginlega ekki talað við hana, ég var bara alveg í rusli. Þegar sýningin hófst aftur hvarf ég inn í annan heim og undir það síðasta var ég farin að hágráta og hreinlega barðist við ekkann. Að sýningu lokinni var allur maskarinn og horfinn úr andlitinu. Ég á ekki nógu sterk orð til að lýsa áhrifunum svo að ég er hætt að reyna það. Ég veit ekki hvers vegna ég brást svona við, sýningin er vissulega sorgleg en þetta var eitthvað svo ýkt. Ég hugsa að það sé ástæðulaust fyrir mig að fara í leikhús framar, það toppar þetta ekkert.

P.s. Þessi færsla var skrifuð nokkrum mínútum eftir þá síðustu, ég gleymdi bara að henda henni inn. Ég ýkti hana ekki nokkurn skapaðan hlut, ótrúlegt en satt.

mánudagur, janúar 10, 2005

Síðustu daga hef ég verið í óvæntu fríi og ég nenni engu. Það kemur sjálfri mér þess vegna ótrúlega á óvart að ég hafði mig upp úr sófanum í síðustu viku og fór í bíó. Ég fór fram á ystu nöf með Bridget og skemmti mér konunglega, þó að myndin sé allt öðruvísi en bókin (venjulega pirrar það mig ósegjanlega). Ég er búin að lesa Kleifarvatn, Belladonnaskjalið, Rauða úlfinn og Á villigötum. Ég er búin að sofa alltof mikið og borða allt of mikið og fara tvær ferðir á útsölur. Ég kom úr annarri ferðinni með þurrkara og hinni með fögur fyrirheit um að hefja líkamsrækt. Í gær fór ég með litla bróður á skíði í Skálafelli, eftir einn og hálfan tíma í röð, náðum við tveimur ferðum. Í gærkveldi fór ég ásamt góðum konum á Vegamót og gleymdi um stund fyrirheitunum um fegurra líkamsform, að máltíð lokinni fórum við í Leikhús og sáum Edith Piaf ( þarf eiginlega sér færslu til að lýsa því).

Ég sé að þó að ég nenni engu þá hef ég gert ansi mikið svona miðað við mig.


Síðan ég man eftir hefur Mogginn birt stjörnuspá á gamlársdag sem gildir fyrir nýja árið. Því miður geymdi ég ekki blaðið í fyrra svo að ég er ekki í aðstöðu til að kanna hversu nákvæm hún var. Nú ætla ég hins vegar að vera eilítið forsjálli og hreinlega birta ykkur stjörnuspána mína fyrir 2005.


Tvíburinn
21. maí – 20. júní

Árið 2005 mun opnast tvíburanum líkt og stórfengleg rauð rós í blóma, segja stjörnuspekingar, og bendir staða himintunglanna til þess að komandi ár verði bæði einstakt og eftirminnilegt. Samkvæmt því verður tvíburanum sífellt meira ágengt með hverjum mánuði og sett markmið og fjárhagslegur stöðugleiki virðast innan seilingar. Hermt er að komandi ár verði tímabil rómantíkurinnar í lífi tvíburans og verður engin hálfvelgja þar á ferðinni ef að líkum lætur. Þeir sem eiga maka nú þegar munu njóta samvista við hann enn meira en ella og uppskera vellíðan í tilfinningalífi í samræmi við það. Ekki er úr vegi að tala um nýtt upphaf og afturhvarf til ástarbrímans sem ríkti við fyrstu kynni. Júpíter, pláneta velgjörðanna er nú í vog og hefur áhrif á svið ástar og rómantíkur í sólarkorti tvíburans. Tvíburinn var undir hælnum á kennaranum mikla Satúrnusi frá árinu 2000 til 2003 og lærði að takast á við strembnari hliðar raunveruleikans með þyngri skyldur á herðum en oft áður. Með það í huga er líklegt að hann kunni vel að meta léttleika og afslöppun komandi árs, sem búast má við fyrir tilstilli Júpíters. Horfur á starfsvettvangi tvíburans eru líka góðar og sennilegt að hann taki að sér stórt verkefni á síðari hluta ársins, sem mun útheimta nákvæmni, einbeitingu og ótal vinnustundir þar til yfir lýkur snemma á þarnæsta ári. Hugsanlega er þar um að ræða skriftir af einhverju tagi. Búast má við breytingum á daglegu vinnuumhverfi í apríl og október og í einhverjum tilvikum má jafnvel gera ráð fyrir róttækum umskiptum eða nýju hlutverki á vinnumarkaði á árinu. Tvíburinn, sem að öllu jöfnu þrífst í fjölmennum félagsskap, verður óvenju hlédrægur síðari hluta næsta árs og áttar sig sennilega á því að hann kemur helmingi meiru til leiðar þegar hann er sparari á tíma sinn. Í stuttu máli sagt felur komandi ár í sér fimm stjörnu rómantík, ótrúlega afkastagetu, tækifæri til þess að finna sína réttu köllun í lífinu og breytingar til hins betra í fjármálum, fyrir þá sem fæddir eru í tvíburamerkinu.

Einhvern vegin finnst mér þetta eiga við um árið sem er að líða en nú er bara að bíða og sjá…
 
eXTReMe Tracker