föstudagur, október 31, 2003

Jólasveinninn minn
káti karlinn minn...

Oj bara, ég er komin í jólaskap. Því var eiginlega troðið upp á mig því að hið árlega saumójólaföndur er á morgun og að sjálfsögðu þurfti ég að velta mér dáltið upp úr jólunum í tilefni af því.

Ég gerði mér ferð í borgina til að fjárfesta í föndurefni. Skemmst er frá því að segja að ég fékk ekkert #%$="%&#$ efni í frægum föndurbúðum og þykir mér það hreinasta hneyksli. Ég snéri aftur í heimabæ minn og rakst inn í þá ágætu verslun sem Bókabúð Böðvars er. Ég fékk þarna allt sem ég hafði verið að leita að og í þokkabót var allt efni miklu ódýrara. Þetta var líka svona þegar ég var að föndra fyrir brúðkaupið. Ég læt þetta mér að kenningu verða og fer aldrei aftur út fyrir bæjarmörkin (nema til að fara til Drífu á morgun).

Þið eruð obboslega rík og fræg!

fimmtudagur, október 30, 2003

Það eru að spinnast heitar blogg umræður um Leoncie sem var eitt sinn indversk prinsessa en er nú bara Icy Spicy Leoncie. Ástæðan fyrir þessu öllu er nýútkomin plata hennar sem inniheldur meðal annars hið stórkostlega Kópavogslag. Það eru allir með það á síðunum sínum þannig að ég vísa ykkur bara á eina slíka. Þetta lag er algjör snilld, ég var að heyra það í annað skipti í dag og ég get bara ekki annað en brosað og dillað mér við það. Mér þykir verst að hafa misst af ískryddinu í morgunsjónvarpinu, ég vona að það verði endursýnt. Miðað við sumar lýsingar á þessu má ég kannski kallast lánsöm að hafa misst af þessu en lagið er engu að síður stórfenglegt og HANA NÚ!

miðvikudagur, október 29, 2003

Jæja, þetta er ljótt maður/kona! Ég er orðinn letibloggari og það er komið frost. Reyndar er frost fínt, kannski kemur þá nægur snjór til að skíðabrekkurnar verði þolanlegar (dream on).

Síðustu dagar hafa verið tiltölulega rólegir. Ritgerðasmíð. Reyndar tók betri helmingurinn sig til og bókaði ferð til Köben um þarnæstu helgi. Dáltið gaman.

Ég þoli ekki þetta yo dæmi hérna fyrir neðan og er að hugsa um að taka það út. Kvartanir verða endursendar.

Hér finniði fyrirtaks tímasóun og hana megiði stunda þar til ég blogga næst.

Mér þykir bara býsna vænt um ykkur.
Góða nótt

laugardagur, október 25, 2003

YO yo yo! Heví stuð í vísindaferð í gær. Árbæjarsafn rúlar!

Nei, ég tala ekki svona í alvörunni, það var samt mjög gaman. Dagurinn í dag var ekki síður skemmtilegur, ég fór í langa gönguferð með Leibbalingnum og við komum við á einum stað og sníktum kaffi.

Það á að setja það í lög að allir eigi að ganga um Hellisgerði í haustlitunum, fegurðin er næstum óbærileg. Undir steinsteyptum vegg sá ég blátt sumarblóm í blóma. Ég legg til að þið gerið ykkur greiða og farið og leitið blómið uppi. Það er samt alveg bannað að slíta það upp!

fimmtudagur, október 23, 2003

Greinilegt að ekki náðust allir krimmarnir því einhver fór inn í ólæsta bílinn minn og rótaði í öllum hólfum. Sennilega verið að leita að myndunum sem eru helstu sönnunargögnin í málinu. Sorrý skúrkur! Löggan hefur myndirnar.

miðvikudagur, október 22, 2003

Ég lenti í hrakningum síðasta laugardag. Þannig er mál með vexti að ég fór í­ flugferð eins og áður hefur komið fram. Umhverfis höfuðborgina er ógrynni sveitavega sem enginn veit hvert liggja enda liggja þeir til allra átta. Við flugum yfir einn slí­kan og sáum 4 bíla mætast og stöðva á miðjum veginum (2 og 2 saman, úr sitt hvorri áttinni >><<). Út úr fremri bí­lunum (>><<) stigu rumungar miklir, íklæddir joggingbuxum og ermalausum bolum (það var skítakuldi og rigningarúðii). Úr aftari bí­lunum (>><<) stigu svo tveir menn, annar klæddur Armani jakkafötum en hinn var í­ Calvin Klein gallabuxum og Fruit of the Loom háskólabol. Okkur dauðbrá þegar við sáum þessa merkismenn skiptast á bögglum (og þá er ég sko ekki að tala um neina jólapakka) en þrátt fyrir skjálfta náði ég myndum af þessari athöfn. Okkur brá enn meira þegar við sáum að þeir höfðu orðið okkar varir. Beljakarnir þrifu báðir skotvopn úr buxnastengjunum (eða g-strengjunum, hver veit?)
og hófu skothríð sem okkur tókst með naumindum að forðast. Allir krimmarnir (þegar hér var komið sögu var okkur orðið ljóst að það hlytu þeir að vera) stukku upp í­ bí­la sí­na og gerðu sig lí­klega til að elta okkur á jörðu niðri. Ég náði að mynda númeraplötur allra bílanna áður en við stungum þá af (bí­lar þurfa nefnilega vegi en flugvélar ekki). Eftir lendingu á Sléttunni hringdum við í lögguna og sögðum okkar farir ekki sléttar. Við vorum boðuð í­ skýrslutöku og að henni lokinni fengum við lögregluvernd þar sem mafíósarnir höfðu eflaust séð einkennisstafi flugvélarinnar. Sennilega hafa glæponarnir átt í­ vandræðum með að finna okkur því það var ekki fyrr en í nótt að aftur dró til tíðinda. ég vaknaði við að kötturinn fór að mjálma og hegða sér mjög undarlega. Ég hélt að hún væri eitthvað veik og fór fram úr til að gá að henni en þegar ég gekk framhjá svefnherbergisglugganum varð ég vör við hreyfingu í garðinum. ég gægðist varlega út og sá hettuklæddan jaka vera að læðast upp að húsinu. Ég leit á löggubí­linn og sá að löggurnar sem áttu að gæta okkar voru sofandi (seinna kom í ljós að svefnlyfi hafði verið laumað í­ kleinuhringina þeirra). Ég stökk í­ sí­mann og hringdi í neyðarlí­nuna en fékk ekkert svar (seinna kom í­ ljós að nafnlaus aðili hafði sent þangað kassa með kleinuhringjum, hvort það er samhengi þarna á milli, veit ég ekki), þannig að ég ákvað að taka til minna ráða (þau voru soltið dýr) og náði mér í­ kveikjara og hárspreysbrúsa. Það leið ekki á löngu þar til að ég heyrði að rjálað var læsinguna á útidyrunum og ég beið því­ reiðubúin með vopn mín og verjur þar til ég sá hurðarhúninn snúast og dyrnar opnast. Durgurinn gæðist laumulega inn en hann átti sko ekki von á mér og eldvörpunni minni. Þegar hann hafði fengið að kenna á henni, hrökklaðist hann argandi út í ­ snjóskafl og lá þar veinandi nokkra stund. Hávaðinn vakti hálfa götuna og eftir öskamma stund voru nágrannar mínir komnir út, margir hverjir vopnaðir, og átti dólgurinn sér nú ekki undakomu von. Hraustir menn vöktu löggurnar sem tóku illmennið höndum og óku svo svefndrukknar á braut. Í morgun hringdi svo aðallöggan og sagði mér að mannfjandinn hefði sagt til allra félaga sinna og að þeir væru nú allir komnir bak við lás og slá þar sem þeir myndu hí­rast til eilífðarnóns enda afkastamestu dóp- og pulsusalar landsins. Ég átti semsagt þátt í því að uppræta Mafíu Íslands.

þriðjudagur, október 21, 2003

Vóóó!!!!!
Ég er hugsanlega að fara að vinna spennandi verkefni næsta sumar. Segi ekki meira núna en fer að hitta mann útaf þessu á morgun. Vúhú!

mánudagur, október 20, 2003

Langar ykkur ekki að skoða vefsíðu dagsins? Kíkið þá hér. Þarna versla allir vondu kallarnir í James Bond og Batman.
Þegar ég fór að sækja linginn á leikskólann mætti mér kona sem sagði:

"Heitir þú ekki Árný?"

Ég undraðist mjög þar sem ég kannaðist ekkert við hana og hún hefur sko örugglega séð það á mér því að hún flýtti sér að kynna sig. Hún heitir semsé Hulda og sagðist hafa kennt mér íþróttir í fyrsta bekk í MA fyrir LÖNGU SÍÐAN! Ég sem er nýútskrifuð úr menntaskóla! Hún var líka með einn bekk í umsjón. Ég man ekkert eftir henni og skil ekki hvernig í ósköpunum hún man eftir mér þar sem ég mætti nánast ekkert í íþróttir þennan vetur vegna slæmsku í ökkla og gifs á fæti og þurfti að skrifa ritgerð til að ná áfanganum. Hún sagðist hafa kveikt um leið og hún sá mig því að ég hefði sko ekkert breyst síðan í fyrsta bekk í menntó! Komm on, ég var sextán, það eru þrettán ár síðan þá! Á ég að taka þessu sem gullhömrum eða...

Mér þætti ógurlega gaman að heyra frá ykkur lesendur góðir, bæði um það hvort þetta voru eðalmálmhamrar og eins ef þið eigið í sarpi ykkar reynslusögur af áður nefndri Huldukonu eða sögusagnir.


Ástarkveðjur.

laugardagur, október 18, 2003

Ég fór í fyrstu fis flugferðina í dag og það var sko æði. Ég tók myndir sem koma kannski einhvern tíma inn á Sléttusíðuna. Ég flaug meira að segja sjálf og þyki mikið efni í flugmannaheiminum. Við flugum yfir Vatnsleysuströndina og sáum milljón eyðibýli og enn fleiri sóðabýli. Það er nefnilega með ólíkindum hvað er mikið drasl í kringum flest húsin þarna. Þetta er algjör skandall því landslagið er virkilega fallegt. Það þyrfti að halda eina góða áramótabrennun þarna, hún yrði stór því brennið er engan vegin af skornum skammti. Við sáum líka hraunið og ég er ekki frá því að ég hafi séð glitta í Geirfinn (eða var þetta kannski bara Leirfinnur?).

Dagurinn hætti ekki að vera skemmtilegur þegar flugferðinni lauk því við mæðginin buðum okkur í mat á Langó. Mamma bað mig að koma við í búð fyrst og hvað haldiði að ég hafi fundið í búðinni? Þið getið svarað þessu á sjátátinu mínu og ég skal gefa ykkur vísbendingu: ég var ótrúlega glöð og keypti mikið af því.

Góða nótt.
Vá hvað ég skrifaði oft "í dag", tókuði eftir því? Það er svona þegar maður er að horfa á sjónvarpið og blogga samtímis.

Annars vil ég vekja athygli á því að síðasta færsla var skrifuð í gærkvöldi, ekki í dag.
Nýja kaffikannan hefur ekki enn verið tekin upp úr kassanum en hinsvegar er aldeilis búið að nota "gömlu" espresso könnuna og nýju mjólkurþeytara græjuna í dag.

Það gerðist annars ekkert markvert í dag en ég sá hinsvegar sniðuga síðu í dag og er hún slóð dagsins.

Góða nótt.

fimmtudagur, október 16, 2003

Ég er búin að vera svokallaður "aumingjabloggari" í tvo daga (eða þarf kannski lengri tíma til að öðlast þann titil?).

Ég á lí­ka nýja Braun kaffikönnu, ligga ligga lá lá! Það hefur ekki verið til slí­kt tæki á þessu heimili í meira en mánuð. Að auki keypti ég lí­tinn mjólkurpott og sprota til að gera svona froðumjólk (ef einhver veit hvað græjan heitir þá vil ég gjarnan fá að vita það líka). Ég er að verða tækjaóð, mig langaði mest í svona espresso kaffivél en betri helmingurinn var ekki alveg á þeim buxunum, honum fannst ómögulegt að geta ekki hellt uppá fyrir alla gestina sem eru alltaf hér. Jæja, þá verð ég bara að nota "gömlu" espressókönnuna (sem við fengum í brúðkaupsgjöf í sumar) ó, vell. Mmmm, mig er farið að langa verulega í nammigott kaffi.

Betri helmingurinn splæsti í­ dönskunámskeið á spólum í dag og situr nú með nýja vasadiskóið sitt og æfir sig í að segja:

"Oppe på taget sidder en mand og læser avis"

með smá frönskum hreim.

Ekki spyrja mig um tilganginn með þessu því að ég mun ekki segja ykkur neitt.

Stundum upplifir maður svona "It´s raining man! Halelujah!" fí­ling en nú er ég að upplifa svona "It´s raining pregnant women! Halelujah!" Á tveimur dögum hitti ég fullt af konum sem eru með börn í­ bumbu. Kvað svo rammt að þessum óléttum að ég fór og keypti mér þungunarpróf. Segi ekki hver niðurstaðan er.

Ég fór á samkomu í dag og sá alvöru bókmenntafræðinga. Ég hef semsagt fengið svar við spurningunni sem könnunin byggði . Það er kominn tí­mi til að henda henni út, kannski nenni ég að setja nýja inn. Niðurstaðan er sú að 1 sagði já og hafði séð svoleiðis, 1 vissi það ekki, 1 sagði nei og 4 sögðu döhh! Þetta þýðir að 7 manns tóku þátt og þakka ég þessa frábæru þátttöku.

Nú get ég loksins sagt skilið við áráttu mí­na gagnvart bókmenntafræðingum.

Góða nótt.

mánudagur, október 13, 2003

Veij! Öskrarakerfið mitt er komið aftur. Nú er aldeilis hægt að hafa hátt! Ég vil þakka skilvísa finnandanum fyrir að skila því aftur.
Topp 12 listi yfir það sem mig langar í:

1. stærri íbúð
2. borðstofu
3. borðstofuhúsgögn
4. nýtt baðherbergi
5. frið á jörð
6. köfunarnámskeið
7. fullt af bókum
8. skanna
9. nýjan prentara
10. frægð og frama
11. hitta alvöru bókmenntafræðing
12. góða nótt

sunnudagur, október 12, 2003

Ég hef ekki komist til botns í saltlakkrísreimamálinu en ef þið rekist á svona góðgæti í einhverri afdala sjoppu þá yrði ég ykkur ævinlega þakklát ef þið keyptuð upp lagerinn þeirra og færðuð mér svo ásamt reikningnum.

Hafiði tekið eftir því að það er í tísku að vera með svona topp 100 lista á blogginu? Minn er svona

1. Mér finnst gaman að lesa
2. Ég er frjáls (tralalalala)
3. Mér finnst gott að borða saltlakkrís og súkkulaði
4. Ég hef aldrei átt páfagauk
5. Ég horfi oft á Leiðarljós
6. Ég hef aldrei smakkað sushi
7. Mér er ekki illa við bókmenntafræðinga.
8. Ég á vonda gönguskó
9. Ég er húsmæðraskólagengin
10. Mér finnst ekkert vit í að vera með topp 100 lista sem enginn nennir að lesa og þess vegna verður þetta bara topp 10 listi. Ef þið viljið vita eitthvað meira um mig þá getiði bara sent mér tölvupóst á arny@that.is.

laugardagur, október 11, 2003

Ó MÆ GOD!!!

Það er samsæri í gangi og ég skal komast að því hver ber ábyrgð á því. Það er hætt að framleiða fílasaltlakkrísreimar!!!

Þetta er reginhneyksli!

Skyldu bókmenntafræðingar standa fyrir þessu?

föstudagur, október 10, 2003

Hvað sagði ég ekki? (er einhver hissa?)
Koma edduverðlaunin einhverjum á óvart? Þori að veðja að Nói fær edduna sem besta myndin.

fimmtudagur, október 09, 2003

Mig langar að deila því­ með ykkur að mér finnst atvinnumaðurinn ógeeeðslega fyndinn.
Ég er komin með kleyfhugasýki, farin að lifa lífi allra annarra bloggara sem fyrirfinnast. Ég þarfnast hjálpar. Er einhver góðhjartaður vinur þarna úti sem er til í að veita mér aðstoð? Ég fann frekar furðulega mynd í­ dag og hún er eiginlega frekar hmm... ekki falleg. Ég sendi saumó slóðina og þið hin sem hafið áhuga getið sent mér tölvupóst (arny@that.is) og ég skal taka til athugunnar hvort ég treysti ykkur til að skoða þetta. Þetta er nefnilega vefsíða dagsins. Fyrir ykkur hin sem ekki leggið í­ svona óhæfu þá er Steini bróðir með rosalega flotta heimasíðu. Ég skora á ykkur að skrifa eitthvað skemmtilegt í­ gestabókina hans.

Úff, ég verð að eignast lí­f! (lesist: Ég verð að fara að vinna eitthvað af öllum þessum verkefnum sem ég þarf að skila á önninni).

Það er ekki bara ég sem er búin að týna kommentakerfinu, Klinkfjölskyldan sem sér um það er stungin af til Cayman eyja með allt klinkið. Vonandi eru þau bara í sumarfríi.

Bráðum byrjar piparsveinninn.

Góða nótt.

miðvikudagur, október 08, 2003

Enn er kkið mitt týnt og ég leita bara og leita.
Minni á könnun um tilvist bókmenntafræðinga.

Góða nótt

þriðjudagur, október 07, 2003

Enn hefur ekkert spurst til kommentakerfisins míns en þið getið kannski kíkt á þetta á meðan ég held áfram að leita. Kíkið á K og kelling.

Góða nótt.
Obbosí, það hefur einhver stolið kommentakerfinu mínu! Best að reyna að komast að því hver var að verki. Ekki trufla mig því ég hef verk að vinna.

Hmm, skyldi þetta vera Hefnd bókmenntafræðinganna?

Ég held að ég þurfi að komast yfir þetta með bókmenntafræðingana. Þetta er farið að liggja þungt á sálu minni. Vegna smávægilegs lasleika þurfti ég að leggja mig aðeins í dag og mig fór að dreyma að ég væri einhversstaðar í útlöndum með hópi bókmenntafræðinga og ég var meira að segja orðin ein af þeim. Vinkona mín var þarna en stundum var hún Beta rokk (úff, ég þarf að hætta að skoða allt þetta blogg). Við lentum í miklum háska þegar karlmaður sem líktist Fez óþarflega, fór að flytja okkur ljóð. Það endaði með því að einn b.m.fr. dó vegna þess hve ljóðið var lélegt og við hin horfðum hvert á annað og spurðum: "Hvernig gátum við látið þetta gerast?"

Ég ætla að reyna að komast yfir þetta og liður í þvi er að biðja ykkur, lesendur góðir, að svara könnuninni hér til hliðar. Svo skal ég hætta þessari þráhyggju minni.

Áfram bókmenntafræðingar.

mánudagur, október 06, 2003

Betri helmingurinn heldur úti flottri flugsíðu og er kominn tími til að tilnefna hana vefsíðu dagsins.
Fljúgum hærra,
hærra,
fljúgum hærra!
Ah hah hah hah!
Úff! Ég hefði betur sleppt linknum á galdrasíðuna, Það hefur einhver farið inn á hana og lært að galdra stóra bólu á nefið á mér! Skamm skamm!

Það lí­tur út fyrir að fleiri en ég hafi kvartað yfir nýja fyrirkomulaginu á háskólasíðunni því­ Herra Hroki er búinn að setja hlekkinn á póstinn inn á forsíðuna aftur. Húrra fyrir Hroka! Eins gott að hann lesi ekki dagbókina mí­na.

Ég klúðraði þessu alveg í gær. Auðvitað eru jólasveinar til! Spurningin er hins vegar hvort bókmenntafræðingar séu það. Gaman væri að heyra ykkar skoðanir. Annars er ég að spá í að breyta BA verkefninu mínu í rannsókn á sögnum um bókmenntafræðinga.

sunnudagur, október 05, 2003

Ég er þokkalega að klikka á þessu með vefsíðuna, best að setja hérna eina sem gæti nýst ykkur ef þið þurfið að fá belju nágrannans til að hætta að mjólka eða ef þið viljið að keppinautur ykkar í ástum, fái stóra bólu á nefið, gjöriði svo vel.
Ég uppgötvaði mér til skelfingar í dag að ég er að fara í próf á morgun og á þar að auki að skila verkefni. Held samt að ég sé búin að ná þessu nokkurn veginn undir kontról. Ég er einhverra hluta vegna ægilega utan við mig, það fer allt fram hjá mér. Þó er ég búin að komast að því að það sama á við um a.m.k. helming samstúdenta minna.

Ég sé að bókmenntafræðingar eru loksins farnir að lesa hugleiðingar mínar. Hmm. Nei annars. Af fenginni reynslu veit ég að vinkonum mínum er engan veginn treystandi, þær ljúga að mér án þess að blikna og eflaust hefur einhver þeirra brugðið sér í bókmenntafræðingslíki. Öðru trúi ég ekki þar sem téður bókmenntafræðingur kemur ekki fram undir nafni.

Skyldu bókmenntafræðingar vera til í alvörunni? Eða eru þeir bara þjóðsagnapersónur eins og jólasveinar?

Góða nótt.

laugardagur, október 04, 2003

Tíðindalaust á vesturvígstöðvunum í dag, engin óvænt símtöl. Gleymdi víst að setja vefsíðu dagsins inn í gær og ég nenni því eiginlega ekki núna. Merkilegt hvað gerist alltaf mikið hjá öllum öðrum en mér.

Kannski þarf ég bara að læra bókmenntafræði.

Góða nótt.
Í morgun (öllu heldur í gær) fékk ég símtal frá löngu gleymdum "vini". Jón Óskar Ísleifsson hringdi í mig því hann saknaði mín svo mikið. Ekki orð um það meir.

Nú er ég að horfa á hreina snilld sem heitir Zoolander. Ef manni líður ekki sem best þá er skylda að horfa á hana eða Muriel´s wedding. Ég garantera að þá verður lífið gott á ný. Eins er reynandi að fá sér orangemoccafrappucino.

Skyldu bókmenntafræðingar hafa gott af því?
góða nótt.

föstudagur, október 03, 2003

Svei mér, ef ég er ekki að breytast í tölvunörd!

fimmtudagur, október 02, 2003

Kristján rokkar feitt í kastljósinu.

Eftirfarandi fyrirsögn á mbl.is vakti athygli mína í dag:

Skólastjóri sýknaður af því að hafa troðið fisk upp í nemanda


Skólastjóri í Norwich í Englandi hefur verið sýknaður af því að sýna 11 ára nemanda harðræði með því að taka hann hálstaki og troða fiskhaus upp í hann.
Staðhæft var fyrir rannsóknardómi í Norwich, er málið var tekið fyrir, að skólastjórinn, David Watkins, hafi troðið haus á dauðum fiski upp í piltinn. Hins vegar þótti rökstuðningur og vitnisburður það ónákvæmur og óáreiðanlegur að dómari ákvað að venjulegur dómstóll myndi ekki geta dæmt í málinu og felldi það því niður.

Framburður sex vitna að hinni meintu árás og kölluð höfðu verið fyrir var um flest ólíkur. Þá er piltinum, sem bar sök á skólastjórann, lýst sem „prakkara".



Þetta er gríðarlega falleg framtíðarsýn fyrir vinkonur mí­nar í ­ kennarastéttinni. Ég vona að minnsta kosti að þær noti aðrar aðferðir til að fást við "prakkarana".

Ég er enn í­ heimildaleit og í­ dag rakst ég á enn eina síðuna sem fjallar m.a. um dauðann. Hún er vefsíða ­ dagsins. Í þetta skipti er hún ekki sérstaklega blóðug en býsna skemmtileg. Spáiði í að þetta er m.a. það sem ég er búin að vera að nema við HÍ síðustu ár! Useless education?


Ekki frekar en bókmenntafræði.

Ég er að fara í­ saumó, góða nótt.

miðvikudagur, október 01, 2003

Þeir sem nota háskólanetið hafa eflaust orðið varir við að nú getur maður ekki lengur farið beint af forsíðunni inn í tölvupóstinn. Nú er þetta orðið svoleiðis að maður þarf fyrst að fara inn á sínar síður/vefkerfið, til þess þarf að slá inn notendanafn og lykilorð. Þegar maður er kominn inn á vefkerfið þarf að velja vefpóstinn og aftur þarf að slá inn notendanafn og lykilorð. Það þarf sem sé að slá tvisvar inn nn og lo. Á forsíðunni eru nú tvær leiðir inn á vefkerfið en engin á póstinn. Áður var ein leið inn á hvort. Mér þykir töluvert óhagræði af þessari krókaleið og þess vegna sendi ég vefstjóra póst til að spyrja hverju þetta sætti. Þetta er svarið sem ég fékk:

Sæl, hann er hluti af vefkerfinu og einfaldast að fara þá leið, ekki
satt? Með góðum kveðjum, Friðrik Friðrik Rafnsson Vefritstjóri Háskóla
Íslands


Þetta er svarið sem ég sendi honum til baka:

Mér fannst reyndar einfaldara að komast í hann beint af forsíðu og að
þurfa aðeins að slá inn notendanafn og leyniorð einu sinni.


Þetta sendi ég honum í gær og hef enn ekki fengið svar. Er þetta bara ég? Finnst engum öðrum þetta skrítið? Mér fannst þetta t.d. frekar hrokafullt svar sem ég fékk. Jæja, ég ætla svo sem ekki að fara að dissa neinn hérna, það er ljótt.

Vefsíða dagsins er í svipuðum stíl og hinar tvær, mig langar að biðja ykkur að taka sérstaklega eftir slettunum á gula veggnum. Legókubbar eru greinilega til margra hluta nytsamlegir.

Mig langar brjálæðislega í saltpillur.

Ætli bókmenntafræðingum finnist saltpillur góðar?

Góða nótt.
 
eXTReMe Tracker