föstudagur, maí 28, 2004

Af einhverjum óútskýranlegum ástæðum hefur DV runnið inn um lúguna hjá mér síðustu þrjá daga. Ég verð bara að segja að blaðamennirnir sem þar skrifa eru hreinlega að fara á kostum, bæði hvað varðar efnisval og eins hvernig fréttirnar eru skrifaðar. Frásagnirnar af dúkauppreisninni á Alþingi og eftirköstum hennar eru til dæmis alveg unaðslegar og það sama er að segja af bréfaskriftum Jóns Steinars. Einhvern veginn minnir þetta mig á skólablöð framhaldsskólanna. Ég er alvarlega að hugsa um að kaupa mér áskrift.

miðvikudagur, maí 26, 2004

Margt (öllu heldur sumt) hefur á daga mína drifið síðan síðast. Á uppstigningardag settist ég upp í gæðinginn minn græna og hélt norður á bóginn. Ég stoppaði í öllum vegasjoppunum á leiðinni en það er föst venja hjá mér að þegar ég ferðast, hvort sem það er innanlands eða utan, þá gerir blaðran uppreisn því hún er svo hrikalega heimakær. Þar sem ég var ein á ferð í þetta skiptið kom þetta ekki að sök. Ég eyddi einni nótt í höfuðstað norðursins og hélt svo aftur af stað suður síðdegis en af því að ég nennti ekki alla leið heim, beygði ég út af þjóðvegi 1 einhvers staðar í Borgarfirðinum og endaði óvart í Húsafelli. Fyrir algjöra tilviljun var dularfulli, dökkhærði, hávaxni maðurinn (sá sem ég kyssti á Egilsstöðum) staddur þar í sumarbústað ásamt fleirum. Þarna var helginni eytt við glaum og gleði en þegar kom að því að þrífa og ganga frá þá sá ég mér þann kost vænstan að leggjast fársjúk í sófann og láta hina um allt þar sem draslið og hroðbjóðurinn ofbauð mér. Veikindin ágerðust svo þegar leið á daginn og þegar kom að brottför var ég ófær um að aka en sem betur fer voru þrír frískir fullorðnir fullfærir um að keyra þrjá fríska, fulla bíla. Ég er svo búin að liggja í vesöld síðan en er nú loks að skríða saman, sem betur fer enda eru þrír dularfullir, dökkhærðir og hávaxnir karlmenn staddir í stofunni hjá mér þessa stundina...

Góðar stundir.

þriðjudagur, maí 18, 2004

Stundum (reyndar ansi oft) er mitt litla móðurhjarta við það að springa úr stolti og hamingju og þannig er ástandið einmitt í dag. Þegar mér loks tókst að vekja barnið mitt þá upphófst mikil gleði, hann er semsé búinn að læra Tomma og Jenna ullið og ákvað að gleðja mig með því. Fyrir ykkur sem ekki vitið þá er Tomma og Jenna ull þannig að maður setur þumalfingur upp að eyrum og glennir hina fingurna út og veifar lítillega með þeim, tungan er rekin út og hreyfð upp og niður eða til hliðar um leið og maður gólar "leblerele" eða eitthvað ámóta. Ég mátti að sjálfsögðu til með að sýna hæfni mína á þessu sviði og af þessu atriði okkar hlaust hin besta skemmtun, ekki síst þegar sonurinn bjó til það sem hann kallar pylsubrauð, með tungunni á meðan á ullinu stóð. Það kom þó að því að hlátrasköllunum linnti og okkur tókst að troðast í fötin svo að drengurinn gæti mætt í leikskólann. Honum gekk hins vegar eitthvað illa að komast í skóna og skyndilega, í anda Kolbeins kapteins, datt upp úr drengnum:
"Soðinn kartöfluís!"
Þetta fannst mér óheyrilega fyndið og ég hló hátt inni í mér (hefði ég hlegið upphátt þá værum við enn að reyna að komast í skóna).

miðvikudagur, maí 12, 2004

Rétt áðan sat ég við eldhúsborðið og hlustaði á Edith Piaf auk þess sem ég gluggaði í Tímarit Morgunblaðsins frá síðasliðnum sunnudegi. Ég rak aukun í stutt viðtal við Hildi Helgu Sigurðardóttur og renndi yfir það að gamni, þegar hún var spurð eftir hvaða lífsspeki hún færi, svaraði hún “Je ne regrette rien”. Í sömu mund söng Edith “ Non, je ne regrette rien”. Tilviljun eða skilaboð að handan?

þriðjudagur, maí 11, 2004

Það hefur ýmislegt á daga mína drifið að undanförnu. Síðasta fimmtudag vaknaði ég fyrir allar aldir og settist upp í flugvél sem skutlaði mér í heimsókn til Lagarfljótsormsins og fjarskyldra ættingja hans. Mér var plantað í risastóra íbúð sem ég deildi með nokkrum dauðum flugum og Kára kuldabola. Eiginlega var ég þarna til að vinna en ég er svo heppin þessa dagana að vinnan mín felst í því að hitta ólíklegasta fólk og hlusta á alls konar sögur. Það kom mér á óvart hvað Egilsstaðabúar eru gjafmildir á tímann sinn, það er eins og hraðinn og stressið hafi orðið eftir á Reykjavíkurflugvelli. Um kvöldið fór ég á stefnumót með dularfullum dökkhærðum manni og kyssti hann djúpum kossi meðan snjóflygsurnar reyndu að hylja okkur fyrir forvitnum augum. Hvað skyldi eiginmaðurinn segja um það? Ég kvaddi huldumanninn minn og fór ein í stóru íbúðina þar sem ég eyddi nóttinni með kuldabola. Morguninn eftir var allur snjór horfinn og tvær hunangsflugur fluttar inn í eldhúsið. Vinnan heltók mig og það munaði minnstu að ég missti af flugvélinni sem flutti mig heimleiðis en þar sem ég stóð við færibandið á Reykjavíkurflugvelli og beið eftir töskunni minni, sá ég hraða og stess sem hvorutveggja var merkt mér en ég ákvað að taka það ekki með mér heim. Nú er bara að sjá hvort starfsfólki flugleiða liggi lífið á að skila þessu aftur til mín.

mánudagur, maí 10, 2004

Aaaa! (sagt blíðlegri röddu eins og þegar hjalað er við reifabarn)

Sjáiði bara fallega nýja útlitið mitt! Lengi hefur mig dreymt um að eignast svona fallega síðu. Eina vandamálið er að ég er soddan auli að ég get ekki sett kommentakerfið og hlekkina mína inn aftur. Líklega tekur það mig nokkra daga að finna út úr þessu en ef einhver snillingur er þarna úti þá má hann gjarnan senda mér leiðbeiningar á arny@that.is.

þriðjudagur, maí 04, 2004

Ég veit að ég lofaði einhvern tíma að blogga ekki meira um baðherbergið þannig að ég læt það vera. Hins vegar lofaði ég aldrei að blogga ekki um flísar, nú er nefnilega svo komið að okkur vantar flísar á ákveðið herbergi í íbúðinni. Vandamálið er að við hjónin eigum í mesta basli með að komast að samkomulagi um það hvað fari veggjunum vel, við erum búin að þvælast á milli verslana og skoða allt sem til er en niðurstaðan lætur eitthvað bíða eftir sér. Þjónustan í þessum verslunum er ákaflega misjöfn, í einni stóðum við og orguðum í þeirri von um að fá afgreiðslu en gáfumst upp eftir korter. Húsasmiðjan sýnir stundum sínar góðu hliðar eins og t.d. strákinn sem afgreiddi okkur í dag. Eina vandamálið var að okkur hjónunum er ekki viðbjargandi. Við erum svo ótrúlega ósammála að það þarf kraftaverk til þess að við getum klárað herbergið sem ég lofaði að blogga ekki um. Vonandi endar þetta ekki með því að við förum að innrétta hvort sitt herbergið sem ekki á að blogga um.
 
eXTReMe Tracker