fimmtudagur, febrúar 26, 2004

Fyrir hálfum mánuði setti ég hér inn smá pistil um íbúðina mína og nefndi ég m.a. að mig langaði í nýtt baðherbergi. Ég átti hins vegar ekki von á því að það gerðist strax! Húsið okkar var byggt fyrir miðja síðustu öld og eru flestar lagnir eftir því, reyndar skiptum við um rör í eldhúsinu í ondúleringunni miklu áður en við fluttum inn en baðherbergið var bara málað og látið bíða betri tíma. Nú er tíminn runninn upp en hvort hann er góður veit ég ekki. Baðkarið hefur öðru hvoru stíflast síðustu árin en alltaf hefur tekist að losa stífluna. Nú er öldin önnur, þrátt fyrir gríðarlegt erfiði sat stíflan sem fastast og sagðist vera komin til að vera. Við höfum því brugðið á það ráð að henda helv... baðkarinu út og skipta um lagnir. Baðkarið fær svo aldrei að koma inn aftur því okkur finnst tími til kominn að smíða sæta innréttingu þarna inn og ætlum við aldrei í bað aftur. Bara sturtu. Hér verða mikil læti á næstunni og ef ykkur finnst við eitthvað skítug eða illa lyktandi þá verðiði bara að eiga það við ykkur sjálf! Blóðug fjárútlát munu einnig fara fram og eru öll framlög sérlega vel þegin.

miðvikudagur, febrúar 25, 2004

Afsakaðu... Hefurðu nokkuð séð kommentakerfi á flækingi hérna einhverstaðar? Ég lagði það rétt sem snöggvast frá mér en ég get bara ómögulega munað hvar...

þriðjudagur, febrúar 24, 2004

Best að ég segi ykkur hvað við höfðum fyrir stafni þessa merku helgi sem nú er nýliðin.

Á föstudagskvöld var ég ein heima og hvað gerist þegar kötturinn bregður sér af bæ? Jú, rétt hjá ykkur, mýsnar fara á kreik. Ég skundaði sem sé út á næstu vídeóleigu, fann mér hrollvekjur tvær og sá því fram á gott kvöld. Mér tókst að koma syninum snemma í bólið, slökkti ljósin og kveikti á "28 days later". Hún var ágæt og mér brá m.a.s. nokkrum sinnum. Um tíma var ég samt að spá í að slökkva á henni og vera ekki að gera sjálfri mér þetta en svo fannst mér að ef ég gerði það þá væri það eins og að viðurkenna að ég sé orðin of gömul fyrir þetta. Sénsinn! Ég er og verð 17!
Næsta mynd var unglingahrollurinn "jeepers creepers" og unglingurinn ég var í ágætu stuði þar til kom í ljós að ekki yrði útskýrt hverrar þjóðar eða tegundar ógnvaldurinn var. Ég þoli ekki svoleiðis! Öll skrýmsli eiga sér rætur í þjóðtrú og/eða munnmælum, þetta getur ekki verið nein undantekning. Ég held sem sé að ég neyðist til að horfa á framhaldið. Þess má geta að mig dreymdi fallega drauma eftir þetta.

Á laugardagskvöld var okkur boðið á Chicago og þó að sjóið sé flott þá er ég ekkert yfir mig hrifin. Bestur fannst mér Matti með fiðluna og banjóið og Eggert Þorleifs skreið í kjölfarið. Freyðivínið og sætindin í hléinu voru hins vegar alveg að gera sig.

Sunnudagurinn hófst á gleðilátum barnanna "okkar" tveggja, Eiginmaðurinn fékk fullt af heimagerðum afmæliskortum í afmælisgjöf og við sungum afmælissönginn yfir eggjaköku í hádeginu. Kakó og Rjómabollur í kaffinu og voru það einu bollurnar sem komu inn fyrir hússins dyr þetta árið. Ljúffeng folaldasteik að hætti Ljúfu í kvöldmat og dýrindis rauðvín með. Hvað síðar gerðist kemur ykkur ekki við.

Í gær hófst lausn að erfiðu máli sem lengi hefur legið á mér og í dag er ég öll léttari einhvern veginn (en mér dettur samt ekki í hug að stíga á vigtina). Baðherbergið mitt er reyndar að mestu ónothæft vegna stíflu í baðkari og vaski, lyktin af stíflueyðinum veldur því að mér súrnar um augu en samt get ég ekki annað en verið kát (hvað með það þó ég þurfi að halda í mér?) þegar sólin skín og styttist í páska!

mánudagur, febrúar 23, 2004

Í dag lagði ég þrjá bloggara til viðbótar í hlekki.

Leifur er frændi minn sem er gæddur miklum hæfileikum í mannlegum samskiptum, a.m.k. í samskiptum við mig. Á ótrúlegan hátt hefur honum oft tekist að fá mig til að brosa þegar ég hef þurft á því að halda og í dag tókst honum það með bloggsíðuna að vopni. Takk fyrir það Leifur, ég þurfti svo sannarlega á því að halda.

Gneistinn er bróðir Kisumömmunnar og þ.a.l. frændi frænku minnar. Hann trúir ekki á guð og er að læra bókasafnsfræði.

Eygló, sambýliskona Gneistans, er hugljúf og einlæg en mætti blogga oftar.

sunnudagur, febrúar 22, 2004

Elskulegur eiginmaður minn er 35 ára í dag...

Til hamingju ástin mín!

fimmtudagur, febrúar 19, 2004

Lengi hef ég lúrt á fjársjóði en nú er kominn tí­mi til að deila honum með umheiminum. Mér finnst gaman að skoða blogg annarra og hef gert það nokkuð lengi, en ekki nennt að hlekkja á þessi blogg fyrr en nú og geta áhugasamir skoðað hlekkina hér til hliðar. Ég held að það sé rétt að ég segi ykkur aðeins frá hverjum og einum.

Leibbalingurinn er sætasti gæi í­ heimi og aðdáandi Villa Naglbí­ts.

Guðfaðirinn er vonandi tilvonandi eiginmaður vinkonu minnar.

Dr. Gunna þarf vart að kynna.

Heimsborgarinn gefur skemmtilega innsýn í­ líf einhleypra, samkynhneigðra háskólanema og vann þar að auki einu sinni með mér.

Kýrhausinn segir frá lífi þjóðfræðings að loknu námi og er á góðri leið með að verða framhaldsskólakennari.

Heilaga beljan á sérvitran kött sem heitir Fí­del og hefur hann haldið mörg þjóðfræðipartý.

Illugaskotta er draugur sem býr í­ turni með rottu.

Blamla gekk einu sinni með mér yfir Kjöl (næstum því­ allan).

Bedda er fyndin stelpa sem vinnur á leikskóla og ætlar bráðum að giftast manni sem var einu sinni í kjól og með fjólubláar krullur. Hún er með heitan pott heima hjá sér en ég hef aldrei komið í­ hann þar sem ég þekki Beddu ekki neitt.

Blindgata skrifaði ævisögu Ruthar Reginalds og liggur ekki á skoðunum sí­num.

Beggi er afturbata hjartasjúklingur og getraunabloggari.

Aðkomumaðurinn er fyrrverandi blaðamaður og núverandi kennari. Hann elti ástina í sjávarþorp út á land og honum er kennt um allt sem aflaga fer í plássinu (eiginlega ætti ástin hans að vera hér lí­ka en hún fær ekki aðgang fyrr en hún byrjar að blogga aftur).

Matarást skrifar um mat og ég slefa oft yfir blogginu hennar.

Sí­sí­ er í­ Brúðarbandinu og er nýbúin að kaupa sér íbúð.

Nornasveimurinn er einfaldlega langbesta blogg ever...

Uppgjafarblaðamaðurinn hefur skoðanir á öllu og kann krassandi sögur.

Lúní­ á marga Vanilla sky boli og býður upp á alls kyns fegrunarráð.

Húsmóðirin vill ekki búa í­ svona innlits útlits íbúð.

Pezkallinn er maður frænku minnar og er núna í­ sumarfrí­i.

Kisukonan er frænka frænku minnar og hún kann dönsku betur en margir.

Það eru reyndar fleiri sem mættu vera hérna en þeir fá ekki inngöngu í­ fjársjóðskistuna fyrr en síðurnar þeirra hætta að fela sig.
Njótið vel!

miðvikudagur, febrúar 18, 2004

Börn hitta oft naglann á höfuðið án þess að hafa hugmynd um það.

Sonur minn er mikill aðdáandi Villa naglbíts, í hans augum er Villi mesti gæi í öllum heiminum og það skiptir öllu máli að vera gæi. Af þessum sökum sperrir drengurinn augu og eyru hvernær og hvar sem Villi birtist. Í atinu í kvöld voru svo Rokkslæðurnar snjöllu að flytja músík. Stráksi hallar undir flatt, bendir á Kiddu rokk og segir svo:

"Ég er meiri gæi en þessi stelpa!"

Það skrítna við þetta er að hann veit vel að stelpur eru yfirleitt kallaðar pæjur ef tilefni gefst til.

Ég vil taka fram að ég hef gaman að Rokkslæðunum og mér finnst Kidda vera töffari.

þriðjudagur, febrúar 17, 2004

Veðrið leggst á sálina mína og mig langar bara að skríða í rúmið og breiða upp fyrir haus.

mánudagur, febrúar 16, 2004

Glöggir lesendur hafa eflaust tekið eftir því að ég flokkaði hlekkina hér til hliðar í þrjá flokka; blogg, næstumþvíblogg og ekkiblogg. Mér urðu á þau leiðu mistök að flokka stóra bróður sem “næstumþvíblogg” enda skrifar hann stundum skemmtilegar vangaveltur á fínu heimasíðuna sína og ég þekki fullt af fólki sem skrifar miklu sjaldnar en hann en kallar sig samt bloggara. Ekki var hann sáttur við þetta og bað mig um að breyta þessu. Jafnframt setti hann fram þessa skilgreiningu á bloggurum:

“Bloggarar eru vinstri sinnaðir, bóhemar og háskóla-nemar/menntaðir og vilja helst af öllu búa í miðbæarkjarna með kaffihús í næsta nágrenni.”

Ég hef aldrei kallað sjálfa mig bloggara en þessi skilgreining fékk mig til að hugleiða stöðu mína í Bloggheimi. Ég er a.m.k. ekki hægri sinnuð, líklega frekar svona vinstra megin við hægra megin. Bóhem? Nei ég held ekki. Háskóla-nemi/menntuð? Já og verð örugglega endalaust í námi. Vill helst búa í miðbæjakjarna? Nei, ekkert endilega en það vill svo undarlega til að ég er ekki nema þrjár mínútur að labba niðrí bæ. Kaffihús? Það er slatti af kaffihúsum í göngufæri frá heimili mínu en það nennir enginn að koma með mér á þau þannig að ég stunda þau ekki sérstaklega grimmt (enda á ég æðislega kaffikönnu og mjólkurþeytara), breytum kaffihúsinu í bókasafn og þá er ég alsæl. Þetta gera bara næstum fjögur atriði af fimm! . Svei mér þá, ég held að stóri bróðir hafi haft mig í huga þegar hann skáldaði skilgreininguna og gott ef ég er ekki bara sátt við það.

Jú! Ég er bloggari og ég er stolt af því!

sunnudagur, febrúar 15, 2004

Ég er farin að líta á sjálfa mig sem tveggja barna móður. Þannig er mál með vexti að sonur minn á ákaflega góða vinkonu og eyða þau öllum stundum í félagskap hvors annars, hvort sem er í leikskólanum eða frítímanum. Vinkonan býr í næsta húsi og því er ekki langt á milli þeirra.
Í dag hringdi Dísin í mig og spurði hvort ég væri að gera eitthvað sérstakt. Ég svaraði:
"Nei, bara hangsa. Krakkarnir eru hinu megin."
Ég er semsagt hætt að hugsa um son minn í eintölu og farin að tala um krakkana! Þess má geta að vinkonan sefur nú vært við hlið sonarins, við fengum hana lánaða þar sem foreldrum hennar var boðið í mat. Þegar pabbinn kom til að segja bless við hana, stökk sonur minn til og heimtaði líka knús í kveðjuskyni og sagði svo:
"Mamma og pabbi eru best... og líka þið!"
Ætli honum sé eins farið og mér (nema að í mínu tilviki hefur börnunum fjölgað), að hann eigi tvö pör af foreldrum? Það kæmi mér ekki á óvart.

föstudagur, febrúar 13, 2004

Vegna athugasemdar við síðustu færslu þá ætla ég að skrifa hér stuttan pistil til svars.

Já við vorum að kaupa og gera upp íbúð... fyrir fimm árum.

Efir extreme meikóver á íbúðinni fengum við nett ógeð á frekari framkvæmdum og létum nokkur smáatriði vera af þeim sökum. Þegar okkur fæddist svo sonur, voru allar að- og viðgerðir settar í bið, nema þær sem lutu beinlínis að öryggi erfingjans. Það verður að taka fram að íbúðin okkar er u.þ.b. 75 fm og eftir því sem barninu áskotnaðist aldur og meira dót þá minnkaði plássið.
Einu sinni átti ég skrifborð og bjó það í barnaherberginu en þegar kom að því að drengurinn flutti í sérherbergi var skrifborðinu fleygt því að hvergi var pláss fyrir það. Þegar lærdómurinn krafðist þess, skrifaði ég á tölvuna sem var troðið inn í eina lausa hornið í hjónaherberginu en allar heimildir sem ég þurfti, lágu á víð og dreif um hjónarúmið. Öllu þessu skólabrölti fylgir ótrúlegt magn pappírs og bóka og síðustu misseri hef ég kvartað óspart yfir geymsluleysi vegna þessa.
Fyrir rúmlega tveimur vikum fór bóndinn að minnast á að gera smávægilegar úrbætur en ég hamraði járnið á meðan það var heitt og gabbaði hann til þess að víkka úrbæturnar út og plássið um leið. Nú er svo komið að það er eins og aukaherbergi hafi bæst við því að geymslupláss hefur aukist til muna (ekki síst vegna þess að við erum búin að henda mörgum ruslapokum af alls kyns ónauðsynlegu drasli). Ljósakróna í eldhúsið er komin í hús en enn á eftir að festa hana upp og verður það væntanlega gert um helgina. Það skal tekið fram að fjárútlát vegna þessara breytinga hafa ekki skriðið yfir þrjátíuþúsundkallinn og því er þetta mun ódýrara en að skipta um íbúð til að græða aukaherbergi. Svo er bara að sjá hvort mér takist að knýja á um að baðherbergið fái lýtaaðgerð (a la Ruth) og að íbúðin verði máluð í kjölfarið.

fimmtudagur, febrúar 12, 2004

Það er bara allt að gerast þessa dagana. Í gær flutti glænýtt skrifborð inn í svefnherbergi okkar hjóna og í kvöld fylgdu nokkrar hillur í kjölfarið. Hver veit nema raunveruleg ljósakróna birtist í eldhúsloftinu og leysi þá rússnesku af hólmi? Allt getur gerst! Íbúðin okkar hefur verið að taka vaxtakippi síðustu tvær vikur og skyndilega er hægt að finna pláss alls staðar. Vonandi fylgja þessu engir vaxtaverkir.

þriðjudagur, febrúar 10, 2004

Hæ hó jibbí jei og jibbíajei!
það er komin ADSL tenging!

Loksins er hægt að flakka um króka og kima internetsins án þess að þurfa að bíða í 5 mínútur eftir að síðan opnist. Almennilegt!

mánudagur, febrúar 09, 2004

Fartölvan mín er lasin um þessar mundir og því hef ég lítið nennt að færa hér inn síðustu daga. Ég er orðin hálf fötluð á venjulegt lyklaborð en ætli ég verði ekki að láta mig hafa það þar sem mín elskaða fartölva er á tölvusjúkrahúsi og verður þar nokkra daga í viðbót.

Síðasta föstudag hitti ég mann sem hafði mikil áhrif á mig. Hann verður 99 ára gamall eftir nokkra daga og er enn alveg eldklár í kollinum, man ártöl og atburði eins og gerst hafi í gær. Þessi maður missti konuna sína fyrir fáeinum árum en ástin og virðingin skein af honum þegar hann talaði um hana. Hver sá sem fær svona eftirmæli hefur greinilega lifað góðu lífi í þeim skilningi að hafa haft djúp áhrif á samferðamenn sína, enda var þessi kona enginn aukvisi, hún var eldklár og dugleg og barðist fyrir réttindum þeirra sem minna mega sín. Einhverra hluta vegna hef ég ekki getað hætt að hugsa um þessi hjón og ég held bara, svei mér þá, að ég hafi öðlast nýja trú á ástina og lífið og það allt.

fimmtudagur, febrúar 05, 2004

Á Þriðjudaginn komst ég í tæri við flæðilínu í fyrsta skipti í tæp 10 ár. Ég er þó ekki farin að vinna í frystihúsi aftur heldur var átti ég viðtal við einn af eigendum fiskvinnslunnar. Ég verð að játa að lyktin vakti upp margar skemmtilegar minningar enda oft glatt á hjalla við flæðilínurnar hjá ÚA, sem betur fer mundi ég líka eftir vöðvabólgu, kvefi, fótafúnun, þreytu og öðru slíku sem fylgdi starfinu og bjargaði það mér frá því að taka mér hníf í hönd og byrja að snyrta eða pakka í fimm pund.

Ég er búin að tala við fólk á öllum aldri í mörgum stéttum atvinnulífsins s.s. lækni, húsgagnasmið, sveitastóra, alltmuligtmann, lyftarainnflytjanda, bónda, bankastarfsmenn o.s.frv. Það er með ólíkindum hvað fólk er tilbúið að hleypa mér, bláókunnri manneskjunni, inn í líf sitt bara vegna þess að það á það sameiginlegt að hafa átt viðskipti við sama fyrirtækið.

Yfir í aðra sálma...
Mamma á afmæli í dag og ég mæli með því að þið syngið afmælissönginn fyrir hana ef þið hittið hana á förnum vegi.

Elsku mamma, til hamingju með daginn!

mánudagur, febrúar 02, 2004

Við hjónin rifum hér og tættum um helgina og loksins eigum við fatahengi, skóhillan er ekki enn komin í hús en hún kemur um leið og hún finnst. Framkvæmdagleðin er að drepa okkur og það endar með því að við náum jólaskrautinu niður úr stofugardínunum.

Þessa stundina er betri helmingurinn á stefnumóti við örlögin og er ég nokkuð viss um að hann komi sterkur inn.

Mæli með því að þið kíkið á næst-öftustu síðu DV í dag, þar er mynd af Laxinum og lítil grein um hugðarefni eiginmannsins.

Þar sem þessi færsla hefur að mestu snúist um spúsa minn þá ætla ég að benda ykkur á síðu sem fjallar um karlmenn og áhugamál þeirra. Þetta eru sko hnakkar sem segja sex!
 
eXTReMe Tracker