sunnudagur, október 31, 2004

Yfirleitt þoli ég ekki þegar Íslendingar taka upp ameríska merkisdaga, sérstaklega ekki Valentínusardaginn þar sem við eigum séríslenska daga sem gegna nánast sama hlutverki, að minnsta kosti í nútímanum. Hrekkjavaka hefur hins vegar alltaf heillað mig og mér þykir ekki verra að hún á uppruna sinn hjá nágrönnum okkar, Keltum, mér finnst líka svo frábært að hún er lifandi þjóðfræðilegt fyrirbæri. “Liminality“ er hugtak sem er vel þekkt meðal þjóðfræðinga og byggist á því að við öll tímamót eða landamæri er ákveðið hættuástand og það er vel þekkt að alls konar óvættir komist á kreik eða að sérstakt ástand skapast. Þetta þekkjum við Íslendingar vel, kýr tala á Jónsmessu, huldufólk og draugar fara á kreik um áramót og á þrettándanum og svo má lengi telja. Þeir sem hafa áhuga á að vita meira geta kíkt á þetta (eða bara googlað). Í tilefni af Hrekkjavöku ætla ég að birta hérna lista (í engri sérstakri röð) yfir þær hrollvekjur sem hafa vakið mér ugg eða heillað mig að öðru leiti í gegnum tíðina.

La Chiesa öðru nafni The Church, mjög skerí djöflamynd.
The white buffalo kannski ekki beint hryllingsmynd en ég var svo skelfingu lostin þegar ég sá hana fyrst sirka 10 ára gömul, að ég þorði ekki að vera ein úti eftir myrkur.
Rosemary's baby einfaldlega drottning hryllingsins.
The Blair witch project kannski ekki sú skemmtilegasta en ég vildi helst ekki fara í þvottahúsið í myrkri eftir að ég sá hana.
Candyman segðu það þrisvar... ef þú þorir!
The Birds hvað get ég sagt?
The others ég horfði á hana tvisvar í röð.
The Ring ég hef ekki enn þorað að horfa á hana aftur.
Riget eða Lansinn. Er ekki orðið tímabært að endursýna þessa þætti?
The Stepford wives ég var varla orðin unglingur þegar ég sá þessa en hún situr enn í mér því að stundum grunar mig að karlmenn vilji í raun og veru hafa okkur konurnar svona.
The Changeling ég þarf bráðnauðsynlega að sjá þessa aftur.
Signs besti geimveruhrollur ever. War of the worlds var líka góð en hljóðritunin er betri.
Pet sematary úff, 100 gelgjur sem hrökkva við, öskra og grenja í bíó! Veit ekki hvort er skelfilegra, það eða myndin.
The lost boys hugsa sér, ég var nærri búin að gleyma þessari. Samt er þetta eina myndin sem ég hef séð tvisvar í bíó. "Sleep all day, party all night, never grow old, never die, it's fun to be a vampire" (eða mig minnir að þetta hafi verið svona).
Omen myndirnar. Ég tók fyrst eftir Carmina Burana í myndinni með Sam Neil, snilldar leikari og snilldartónlist.


Þetta eru þær myndir sem ég man eftir í fljótu bragði en ég er örugglega að gleyma einhverjum meistaraverkum. Ég veit, ég er geðveik að elska svona drasl en það eru bara ekki til nein lyf við þessu!

laugardagur, október 30, 2004

miðvikudagur, október 27, 2004

Um daginn rakst ég á svona "ég man" blogg (þó að ég muni alls ekki hvar ég rakst á það). Ég man svosem líka ýmislegt, en þið?
Á meðal þess sem viðkomandi mundi var þegar kostaði 50 kall í sund, ég kalla það ekki að muna sérlega langt. Hér kemur minn listi og mér þætti óskaplega vænt um að þið rifjuðuð upp það sem þið munið í kommentakerfinu.

Ég man
-þegar það kostaði 50 aura í strætó
-ísboltar
-lög unga fólksins
-Jónína Ben með morgunleikfimi í ríkisútvarpinu
-svarthvítt sjónvarp
-fyrsta sería "einu sinni var" í sjónvarpinu
-fyrsta plata Kötlu Maríu
-vinsældarlisti rásar 2
-plastslaufur og satínskyrtur
-broddaklipping með sítt að aftan
-teiknimyndir fyrir tíma talsetningar
-útvíðar buxur áður en þær urðu hallærislegar og svo aftur heitar (mig minnir að ég hafi svarið þess dýran eið að láta aldrei sjá mig í svoleiðis)
-allir söfnuðu servíettum og spilum
-pennavinadálk æskunnar (það var þegar fólk skrifaði alvöru bréf og sendi með sniglapósti)
-leikritið "tordýfillinn flýgur í rökkrinu" í útvarpinu, og líka leikgerð einhverrrar Ævintýrabókar Enyd Blyton á laugardegi í útvarpinu
-óskalög sjúklinga og sjómanna
-hvar ég var þegar ég heyrði um dauða John Lennon (gott ef mamma klökknaði ekki)
-þegar carmenrúllur voru daglegir gestir í hári kvenna
-sauðagærur
-þegar kjúklingar voru algjör sparimatur
-þegar líterskók í gleri dugði fjögurra manna fjölskyldu og vel það, með máltíð
-Jóga drykkur með epla eða jarðaberjabragði
-veggfóður á öllum veggjum
-bravo og pop rocky blöð
-peningar fyrir myntbreytingu
-sindí og deisí dúkkur

Hvað munið þið?


miðvikudagur, október 20, 2004

Í færslunni hér að neðan fjallaði ég um barnabækur og ýmsar tilfinningar þeim tengdum og eins og þar kom fram þá olli bókin um Snúð og Snældu á skíðum mér martröð sem ég minnist enn þann dag í dag. Hr. Pez vill vita meira um þetta og spyr :

Hver var martröðin? Var það að detta ofan í dimman kolakjallara? Eða að járnsmiður væri að skríða ofan á svefnpokanum þínum? Eða kannski að enginn vildi vera vinur þinn?

Vissulega hafa öll þessi efni valdið mér áhyggjum einhvern tímann á lífsleiðinni en þó var martröðin af öðrum toga. Ég hef líklega verið rúmlega fjögurra ára þegar mig dreymdi að litli bróðir minn (líklega um eins árs) skriði inn í hrímað frystihólfið í ísskápnum og hann datt niður þar sem bakið á hólfinu átti að vera og kom ekki til baka. Hann hvarf inn þröng göng og ég mátti gjöra svo vel að fara á eftir honum og reyna að bjarga honum. Með reku að vopni fór ég inn í göngin sem enduðu í einhvers konar íshelli. Íshellirinn var tómur og það eina sem ég gat gert var að fara til baka. Ég man ekki nákvæmlega hvernig þetta endaði en bróður minn fann ég aldrei.

Ég var að lesa Snúð og Snældu fyrir Leibbalinginn þegar ég fékk gríðarlega öfluga déjá vu tilfinningu, ein myndin í bókinni var af öðrum kettlingnum að dútla eitthvað í snjónum og var þar komið sögusvið martraðarinnar. Raunar ættu allar bækurnar um sætu kettlingana að vera á listanum því að þær vöktu allar svona tilfinningar þegar ég las þær fyrir son minn en þessi var sú eina sem olli mér pínu vanlíðan. Nú mætti svo deila um hvort það var í raun og veru bókin sem kom martröðinni af stað eða hvort hún lagði eingöngu til sviðið, hugsanlega var þetta mín innri kona að óska þess að lilli bró hefði aldrei fæðst, hence þröng göng og hellir. Vanlíðanina má svo kannski rekja til þess að ég vissi að það var óæskilegt að hugsa svona. Æji nú er ég bara farin að bulla.

Nú ætla ég að skipta um umræðuefni. Mér þykir súkkulaði gott. Á dögunum keypti ég hið unaðslega Síríus vanilin Konsum súkkulaði frá Nóa Síríus, svo sem ekki í fyrsta skipti, en nú tók ég eftir því að það gilda ákveðnar reglur um notkun súkkulaðisinsins (hvernig svo sem þetta er skrifað). Vissuð þið þetta? Á umbúðunum stendur.

Notkunarreglur
Ein súkkulaðiplata (100 g) er brotin í mola og leyst upp í svolitlu vatni (einum kaffibolla eða tveim) við hægan hita. Einn lítri af mjólk er hitaður að suðumarki, honum hellt saman við smátt og smátt og hrært í á meðan. Þá er drykkurinn tilbúinn.
Gætið þess að ílátin, sem notuð eru, beri ekki keim af neinu, sem áður var í þeim soðið. Gætið þess enn fremur, að mjólkin sé fersk.
------------------------------------------------------
Nú geta allir fengið sér heitt súkkulaði og lesið Snúð og Snældu.
Bless í bili.

mánudagur, október 18, 2004

Hæ! Ég er sko ekki dauð.

Fór á pöbb í heimabænum ásamt vinkonu síðastliðið föstudagskvöld. Mjög súrrealískt. Næstum allir sem komu inn á staðinn settust við borðið okkar og trítuðu okkur eins og drottningar. Mjög fyndið kvöld.

Barnaafmæli á laugardaginn. Afmælisgjafir í formi bóka urðu til þess að fullorðna fólkið hóf spennandi umræður um uppáhalds barnabækurnar. Það vill svo skemmtilega til að í leiðindum í síðustu viku settist ég niður og rifjaði upp eftirlætis barnabækurnar. Sumar þeirra voru kannski ekki svo skemmtilegar en eftirminnilegar einhverra hluta vegna. Hér kemur listi:

Bækurnar um Sólarblíðu - Vésteinn Lúðvíksson Ég var nú eiginlega búin að gleyma þeim þegar ég rakst á þær á bókasafninu um daginn, ég hló mig máttlausa þegar ég las þær og það sama gerði eiginmaðurinn yfir völdum köflum. Sonur minn á von á góðu.
Strákur á kúskinnsskóm – Vigfús Björnsson Eina sem ég man voru átök við draug í dimmu fjósi.
Bækur Ármanns Kr. Einarssonar um Árna frá Hraunkoti Þrekraunir og björgunar afrek.
Bláskjár - Franz Hoffmann Vorkenndi greyinu alltaf óskaplega.
Snúður og snælda á skíðum - Pierre Probst Ég vissi ekki hversu djúpstæð áhrif þessi bók hafði á mig fyrr en ég las hana fyrir son minn og uppgötvaði að ein af minnistæðustu
martröðum bernskunnar á rætur sínar í þessari bók. Reyndar skoðaði ég bók um líf og dauða risaeðla með syni mínum í gærkveldi og fékk hrottalega martröð um krókódíla sem gátu breytt sér í tvífætt finngálkn.
Galdramaðurinn - Ursula K. Le Guin Æsispennandi eltingarleikur við skugga. Galdrar og hryllingur.
Kalli og Sælgætisgerðin, Nornirnar – Roald Dahl Kennarinn minn í þriðja bekk las Kalla fyrir bekkinn og stuttu seinna voru þættirnir sýndir í sjónvarpinu. Sumarnótt í Hellisgerði með Kalla og eiginmanninum. Nornirnar eru skelfilegar skepnur í kvenmannslíki en þá bók las ég eftir að ég fékk bílpróf.
Silas og hesturinn hans - Cecil Bødker þessi var frekar dularfull og ekki beint í anda Ármanns Kr. Silas gerði það sem hann þurfti til að komast af en ég hef ekki lesið þessa lengi, lengi. Held að hún hafi týnst í flutningum ásamt fleirum gömlum og góðum.
Múmínálfabækurnar - Tove Jansson Þetta var líklega fyrsta sjónvarpsefnið sem ég sýndi nokkurn áhuga, Morrinn var svooo hræðilegur! Það var slegist um þessar bækur á Amtbókasafninu.
Vísnabókin Glaðlegar, hversdagslegar, leiðinlegar, skemmtilegar, hrollvekjandi og spennandi barnavísur. Ekki hægt að fjalla um barnabækur án þess að hafa þessa með.
Palli var einn í heiminum – Jens Sigsgaard Og þá hringdi síminn. Ætli ég hafi ekki verið fjögurra þegar ég fékk þessa í jólapakka, ein af örfáum sem ég á enn og þykir óskaplega vænt um enda er hún listilega myndskreytt af Arne Ungermann og mér.
Siggubækurnar - Gretha Stevns Mig langaði að verða eins og Sigga rauðtoppa, sitja vel hest, blístra falskt, læra lexíurnar og umgangast sígauna.
Tarzan blöðin Steini bróðir var áskrifandi og í hvert sinn sem nýtt blað kom út, röltum við systkynin í Siglufjarðarprentsmiðju og sóttum glóðvolgt eintak. Tarzan blöðin eru hreinlega ástæða þess að ég lærði að lesa, í einu blaðinu lenti hetjan í bardaga við hræðilega risakónguló en það kvikindi óttaðist ég svo mikið að ég mátti helst ekki sjá blaðið. Þetta vissi stóri bróðir og vinir hans og ef þeim fannst ég vera til ama opnuðu þeir blaðið og ráku upp að nefinu á mér og voru lausir við mig það sem eftir var dags. Dag einn kom ég skjálfandi til móður minnar með blaðið í höndunum og bað hana að segja mér hvað þar stæði. Hún skrifaði upp stafrófið og kenndi mér að lesa blaðið sjálf.
Bróðir minn Ljónshjarta - Astrid Lindgren Ég hef ekki enn lesið leiðinlega bók eftir þennan höfund en þessi grætir mig í hvert einasta skipti. Það var kennarinn í þriðja bekk sem las þessa fyrir mig.
Barist til sigurs – Jan Terlouw Sigur einstaklingsins yfir kerfinu. Gott ef það var ekki líka kennarinn í þriðja bekk sem kynnti mér þessa.
Þjóðsögur hverskonar. Ég hef alltaf verið hrifin af þeim og þegar ég fór í heimsókn til föðursystur minnar vildi ég heldur kúra í sófa með Þjóðsögunum en að leika við krakkana hennar sem eru á svipuðum aldri og ég. Þeim þótti þetta frekar skrítin hegðun.
Hobbitinn og Hringadróttinssaga – Tolkien Myndasögurnar voru gasalega spennandi.

Þetta er orðið óskaplega langt blogg en ég er samt ekki búin, margar eftirfarandi bóka hefðu mátt fá umfjöllun en ég nenni bara ekki meiru.

Narníubækurnar - C. S. Lewis
Bækurnar um Tak - Hjalti Bjarnason
Ljóðabækur – Þórarinn Eldjárn
Gauragangur - Ólafur Haukur Símonarson
Salómon svarti - Hjörtur Gíslason
Ole Lund Kirkegaard – allar sem ég hef lesið
Doddabækurnar, Ævintýrabækurnar og Fimmbækurnar- Enid Blyton
Margar bóka K. M. Peyton
Leynigarðurinn - Burnett, Frances Hodgson
Bækurnar um Albin – Ulf Löfgren
Ljónadrengurinn – Zizou Corder,
Bækurnar um Lýru - Philip Pullmann
Bækur Lemony Snicket
Nancybækurnar - Carolyn Keene
Tinnabækurnar - Hergé
Harry Potter - J. K. Rowling
Dagbókin hans Dadda - Sue Townsend
Skúli skelfir - Francesca Simon
Beverly Gray - Claire Blank


Það er augljóst að ekki voru allar þessar bækur til þegar ég var ung en ég hef bara aldrei hætt að lesa barnabækur og læt það vonandi alveg eiga sig.

mánudagur, október 11, 2004

Síðustu daga hef ég lítið gert annað en að snæða enda augljóslega fengitími á Íslandi í desember og janúar.

sunnudagur, október 03, 2004

Heimilislífið í hnotskurn

Ég átti erindi í búð eins og gengur og gerist á venjulegum heimilum. Snillingurinn fékk að fara með og við versluðum ýmsar krásir, þ.á.m. þetta fína læri af nýslátruðu. Í fjarveru okkar nýtti heimilisfaðirinn tækifærið og tefldi við páfann en lét það eiga sig að loka að sér á meðan. Í lítilli íbúð eins og okkar er lykt ekki lengi að dreifa sér og þess vegna fitjaði ég upp á nefið og hneykslaðist á fnyknum þegar ég kom heim. Maðurinn minn svaraði því til að það kæmi nú ekki beint ilmvatnsangan úr afturendanum á mér þegar ég sinni kalli náttúrunnar, ég var ekki alveg á sama máli enda sagði vitur maður eitt sinn "sæt er lykt úr sjálfs rassi" og þar að auki sýni ég ALLTAF þá kurteisi að loka að mér. Að þessum umræðum loknum kryddaði ég lambalærið af alkunnri snilld og stakk því svo í ofninn. Hvort fnykurinn umræddi var algerlega gufaður upp eða hvort matarilmurinn yfirgnæfði hann alveg, skal ég ekki segja. Fáeinum mínútum síðar kom kærasta snillingsins í heimsókn. Hún hnusaði út í loftið og spurði svo hvaða lykt þetta væri. Drengurinn svaraði grafalvarlegur:
"Þetta er ilmvatnslykt úr rassinum á mömmu minni!"

föstudagur, október 01, 2004

Kæru vinir!

þakka ykkur innilega fyrir hlýlegar kveðjur sem mér bárust í tilefni eins árs blogafmælis míns.
Ég skreið inn um dyrnar á heimili mínu í gær og get ekki staðið í lappirnar, hvað þá bloggað að ráði, vegna óþverrapestar. Lofa þó að birta hápunkta úr ferðalaginu fljótle
Bless á meðan.
 
eXTReMe Tracker