miðvikudagur, mars 19, 2008

Illugi bjáni

Ég get ekki með nokkru móti séð hvaða tilgangi það þjónar að birta myndir af spámanninum í einhverju tímariti. Þetta minnir mest á óþekkan krakka. Hví í ósköpunum skyldi maður sína meðborgurum sínum virðingu ef maður má, lögum samkvæmt, sleppa því?

Ég ber litla virðingu fyrir Illuga núna.

mánudagur, mars 17, 2008

sunnudagur, mars 16, 2008

SKAMM ÁRBORG!

Ég var að koma af forsýningu hjá Leikfélagi NFSU á rokksöngleiknum Til Sölu! Það er dásamlegt að sjá og heyra hversu hæfileikaríkir þessir krakkar eru og ég lofa að það verður enginn svikinn af sýningunni. Sýnt var í ófullgerðum menningarsal Hótel Selfoss og það er það sem hneykslar. Þessi salur hefur staðið ókláraður í 25 ár skv. mínum heimildum. Fullklárað yrði þetta eitt flottasta leikhús/tóneikastaður/kvikmyndahús á landinu. Auðvitað kostar allt peninga en það getur bara ekki verið svo ótrúlega dýrt að einangra og mála svona sal enda pottþétt dýrara að láta þetta standa ónotað. Ég ætla rétt að vona að ég fái að njóta þess að fara í mínu fínasta pússi og horfa á fleiri menningarviðburði þótt það sé vissulega sjarmi yfir því að sitja í leikhúsi íklæddur vetrarfatnaði og undir teppi.

fimmtudagur, mars 13, 2008

Þetta reddast

Hér stendur allt til bóta, húsbóndinn kominn heim, heilsan komin í bæinn og allir giska kátir.

miðvikudagur, mars 12, 2008

Pestarbæli (aumingjablogg)

Heimilið hefur verið sannkallað pestarbæli síðan í byrjun febrúar, allar mögulegar og ómögulegar pestir hafa fundið sér samastað hér og má telja veikindalausa daga á fingrum annarrar. Sú nýjasta er magapestin og hefur hún nú laggt mig og krónprinsinn. Þetta hefur áhrif á leik og störf og er mín eina ósk sú að þessu fari að ljúka og að eðlilegt líf hefji innreið sína á ný.

mánudagur, mars 10, 2008

Grasekkjustand

Ich bin eine grasekkja, maðurinn á stanslausum þvælingi og gistir nú á þýskri grundu. Ég hef svo sem ekki tíma til að láta mér leiðast, eiginlega hef ég ekki einu sinni tíma til að hugsa um börnin mín nema þegar þau sofa. Gaman aððessu.

Baráttukveðjur í Eyjahraunið.

miðvikudagur, mars 05, 2008

DramaÞú ert léttsteikt dramadrottning.
Ef dramadrottningar væru hamborgarar sem fengjust
"rare",
"medium rare",
"medium"
og "well done"
værir þú "medium rare", léttsteikt og meyr undir tönn. Léttsteiktar dramadrottningar eru ávallt gerðar úr besta hráefni. Þær eru lífrænt ræktaðar og því í raun móðgun að líkja þeim við hamborgara. Nær væri að framreiða þær sem steikur með góðri rjómasósu og bökuðum kartöflum.Léttsteiktar dramadrottningar skammast sín ekki fyrir að vera dramadrottningar. Þvert á móti eru þær stoltar af því og leggja rækt við þann hluta persónuleika síns. Gott jafnvægi ríkir á milli drama og yfirvegunar. Í raun hefur léttsteikta dramadrottningin fulla stjórn á dramatíska hluta heilans. Hún er því fær um að halda dramanu í skefjum þegar við á en gerir út á það þegar hún er í stuði til þess.Léttsteiktar dramadrottningar eru tilfinningaríkar. Þær eru gjarnan leiðtogar í vinahópi sínum, eru vel liðnar af flestum, dáðar af mörgum en einnig öfundaðar af sumum. Hin léttsteikta drottning er hins vegar haldin jafnaðargeði og lætur hólið ekki stíga sér til höfuðs eða öfundsýki koma sér úr jafnvægi.


Hversu mikil dramadrottning ert þú?

mánudagur, mars 03, 2008

Leikhús

Í gær brá ég mér í leikhús með krónprinsinum og skólafélögum hans. Við sáum Skilaboðaskjóðuna í Þjóðleikhúsinu og er skemmst frá því að segja að þetta er alls ekki leikrit fyrir fullorðna. Börnin höfðu flest nokkuð gaman af en foreldrarnir dottuðu yfir sýningunni nema þegar Þórunn Lárusdóttir og/eða Árni BeinteinnÁrnason voru á sviðinu (sem var allt of sjaldan). Af einhverjum ástæðum voru tveir leikarar fjarverandi og afleysingafólk kom í þeirra stað, Katla Margrét Þorgeirsdóttir er fín leikkona en Baldur Trausti Hreinsson hefði alveg eins getað sleppt því að mæta, hann lagði ekkert til. Reyndar voru uppi getgátur um þynnku eða veikindi (hans sko... ekki samt Hans) en ég veit ekkert hvort það var eitthvað til í því.
Sjónrænt er þessi sýning listaverk, búningar og sviðsmynd algjörlega gullfalleg en það dugar því miður ekki til.

Helvítis hroki í manni alltaf hreint.

sunnudagur, mars 02, 2008

laugardagur, mars 01, 2008

Trall og tjútt í Borg Sársaukans

Við hjónin fórum í bráðskemmtilegt hlaupársafmæli í gær og lögðumst svo í mannlífsrannsóknir á Ölstofunni ásamt afmælisbarninu. Þar hitti ég gamlan vinnufélaga sem í eina tíð var efnismaður en hangir nú á börum og betlar sígarettur. Synd.

Veit einhver hvar ég fæ góðan lögfræðing? Ég ætla í mál við erkifíflið sem ákvað að það væri góð hugmynd að setja niður járnbólur í götur borgarinnar. Ég er hölt á báðum eftir að hafa snúið mig á ökkla og hoggið sundur annað hnéð svo sá inn að beini. Allt helvítis járnbólunum að kenna.

Borg Sársaukans á ekki upp á pallborðið hjá mér í dag, læt ekki sjá mig þar næstu mánuðina (að undanskilinni lítilli leikhúsferð á morgun) svo ef þið eigið við mig erindi þá megiði gjöra svo vel að gera ykkur ferð í Þorp Satans.
 
eXTReMe Tracker