laugardagur, ágúst 27, 2005

Ég fór í berjamó í blíðunni. Það var indælt.

mánudagur, ágúst 22, 2005

Hálfgert heilsuleysi kemur í veg fyrir mikinn tölvuáhuga. Þetta er svona "of slöpp til að gera gagn/of hress til að liggja í rúminu". Hvernig stendur á því að ég fæ oft svona hálfgildings pestar (pestir? nenni ekki að fletta því upp), því get ég ekki fengið að afgreiða þetta með einni almennilegri árlega?

Æ, maður á ekki að kvarta svona. Einu sinni kvartaði ég yfir einhverju smotteríi hérna og fékk þvílíku skammarræðuna í kommentakerfinu mínu.

Ég verð tölvulaus hvað úr hverju því að skarnið mitt þarf að komast í viðgerð. Veit ekki hvort eða hversu mikið ég nenni að blogga á risaeðluna.

Ég má þó til með að segja frá því að stóri strákurinn minn er byrjaður í skóla! Óskaplega líður tíminn hratt.

föstudagur, ágúst 19, 2005

Sie ist die wahre Königin seines Herzens...

Verður Þórey Edda næsta furstynja í Mónakó?

fimmtudagur, ágúst 18, 2005

Fyrir tíu mínútum sat ég fáklædd úti á sólpalli með moggann í annarri og kaffibolla í hinni og velti fyrir mér hvort ég ætti að sækja mér sólvörn. Ég ákvað að láta verða af því og skaust inn, þegar ég kom aftur út skall á þvílíkt úrhelli að annað eins hefur varla sést á Íslandi. Þetta finnst mér notalegt.

þriðjudagur, ágúst 16, 2005

Fyrir ári síðan:

mánudagur, ágúst 16, 2004
Sumarið 1996 vann ég á litlu sveitahóteli á suðurlandinu. Þær fáu fríhelgar sem ég átti voru vel nýttar í félagsskap góðra vina en heldur lágdautt var yfir ástarlífinu. Það var á hlýju föstudagskvöldi sem ég stóð ein í biðröð við skemmtistað þar sem ég ætlaði að hitta vinkonu. Næst á undan mér í röðinni voru nokkrir strákbjálfar með skrílslæti, einn þeirra eyddi miklum tíma í að fá annan til að teygja tunguna upp í nef en ég leit undan og veit því ekki hvort hann lét verða af því. Fljótlega eftir að steratröllin í dyrunum hleyptu mér inn var sá tungulangi kominn á slóð mína og gerði sitt besta til að ná mér út af staðnum og heim í ból. Hinn, þessi sem vildi svo gjarnan sjá tungu í nefi félagans, stóð yfir okkur og skaut á vininn alveg þar til sá gafst upp og tilkynnti mér að ég væri barnaleg að vilja ekki sofa hjá honum. Félaginn nýtti sér hins vegar tækifærið og var öllu tunguliprari, áður en ég vissi var ég orðin bálskotin og örfáum vikum seinna var ég flutt inn til hans. Að þremur árum liðnum kom frumburðurinn. Fyrir nákvæmlega ári síðan hittumst við í kirkju að viðstöddu fjölmenni og gengum út sem eitt.Ást við fyrstu sýn er ekki til en hinsvegar kannski við aðra... eða þriðju. Ég hef aldrei spurt hvort tungan hafi náð upp í nef.
Jæja, ég setti inn eitthvað dótarí, nú er bara að bíða og sjá hvort egóið bíði þess bætur.

Hvað finnst ykkur annars um frumvarpið um samkynhneygða?
Niðurstöður
Af þeim tólf sem svöruðu, mæla átta með því að ég fái mér teljara, þrír virðast þjást af valkvíða (reyndar er ég ekki viss um hvað einn þeirra á við þar sem ég veit ekki hvað hsfs kílómetrateljari er) og einn segir blákalt nei þar sem hann óttast að egóið mitt höndli ekki fáar heimsóknir. Ég er að hugsa um að láta vaða og nú spyr ég ykkur, lesendur góðir, hvaða teljari er sniðugastur og hvar fær maður svona extreme tracking? Eða er kona komin út í óþarfa persónunjósnir með slíkum búnaði?

föstudagur, ágúst 12, 2005

Óformleg skoðanakönnun...
á ég að fá mér teljara?

fimmtudagur, ágúst 11, 2005

Ég lagði nokkra bloggara í viðbót í hlekki.
Magnþóra er skemmtileg stelpa sem vinnur með mér.
Kirsuber er ljúflingur sem ég þekki ekkert en fær mig alltaf til að brosa út í annað og stundum bæði.
Harpa er rithöfundur og hannyrðakona, hún skrifaði þessa bók.
Majae er opinská stúlka sem lætur ekkert stöðva sig.
Í fyrradag fjárfestum við í borðstofuborði. Nú þarf ég bara að safna pening svo ég geti keypt mat.
Í gær keyptum við nýja ruslatunnu. Ég þarf ekki að safna rusli því ég á nóg af því fyrir.

þriðjudagur, ágúst 09, 2005

Líklega var það bara ég sjálf sem útskúfaði mér af Mikka. Búin að laga það í bili, þökk sé Óla Gneista.
Ég er ógislega fúl yfir að fá ekki að vera með á Mikka. Á einhver dyggur lesandi minn hauk í horni þar? Ég er nefnilega búin að senda þeim póst og fæ engin viðbrögð. Plís, ekki skilja mig svona útundan.
 
eXTReMe Tracker