miðvikudagur, mars 30, 2005

Tilgangslausasta blogg í heimi.

Herra Edet eða Sunnanvindur?

laugardagur, mars 26, 2005

Ég held að ég hafi verið að kaupa skemmtilegustu plötu í heimi í dag. Ég dansa og skoppa og syng og hlæ, svei mér ef ég hef ekki yngst um einn og hálfan áratug, vildi óska að ég gæti spilað þetta fyrir allan heiminn því þá væru allir í stuði og enginn í stríði.

miðvikudagur, mars 23, 2005

Föstudagur, apríl 02, 2004

Mig langar ótrúlega til að Borgarholtsskóli vinni Gettu Betur.

Þetta skrifaði ég í fyrra og eiginlega er ég að vissu leyti næstum því sama sinnis núna. Held samt líka með MA af því að það er gamli skólinn minn en mér finnst Borgóliðið bara svo skemmtilegt og hef lítið fylgst með MA liðinu. Ég verð að minnsta kosti ekki fúl yfir úrslitunum í þetta skipti.

mánudagur, mars 21, 2005

Þakka ykkur fyrir hlýlegar hamingjuóskir, það veitir ekki af þeim þegar maður er í þann mund að flytja í rokrassgat úti á landi.

Getraunin veldur því að kommentakerfið mitt logar í skemmtilegheitum svo að ég tími varla að greina frá úrslitum. Kannski ætti ég samt að gera það áður en þið flytjið mig út til Færeyja (þó það sé örugglega fínt að búa þar).
Foreldrar mínir búa reyndar næstum í Vogum eða á mörkum Vogahverfisins í Reykjavík þ.e. á Langholtsvegi. Ég bý nánast í miðbæ Hafnarfjarðar. Ég er allt frá 12 mínútum og upp í hálftíma að keyra þangað, fer eftir umferðinni. Ég tók tímann frá bæjarmörkum tilvonandi heimabæjar og heim til foreldraminna í töluverðri umferð á laugardegi. Aksturinn tók 34 mínútur.
Það er skemmst frá því að segja að ekkert ykkar svaraði rétt svo að ég hef ákveðið að hella aðeins í þann sem komst næst því þegar hann kemur og heimsækir mig, með því skilyrði að hann komi með gítarinn og haldi smá tónleika, hvernig líst þér á það Leifur?

Þið eruð svo öll guðvelkomin í kaffi til mín þegar þið eigið erindi til þorps Satans aka Þorlákshafnar.

Hér má svo sjá myndir af slotinu, það eina sem ég ætla að gera innan dyra er að mála smá.

föstudagur, mars 18, 2005

Ég er að hugsa um að bjóða upp á nýja getraun. Þeir sem vita svarið nú þegar eru beðnir um að sitja á strák sínum. Fyrir rétt svar fæst kippa af hálfslíters Carlsberg. Hvert erum við að flytja í sumar?
Þetta er búið. Við erum að eignast 140 fm einbýlishús og 60 fm bílskúr. Úti á landi. Fyrir sama verð gætum við keypt okkur skítsæmilega blokkaríbúð í gúlaginu í Hafnarfirði. Ég er 15-20 mínútur að keyra héðan og heim til foreldra minna. Eftir flutningana verð ég 40 mínútur að keyra á milli. Landsbyggðin rokkar!

fimmtudagur, mars 17, 2005

Samningaviðræður eru í fullum gangi.
Eins gott að ég er hætt að reykja, annars væri ólíft nálægt mér núna.

Ég er búin að fá ógeð á myndinni sem var í prófílnum mínum og langar að setja aðra inn en virðist ekki með nokkru móti hafa getu til að búa til svona netslóð. Anyone?

miðvikudagur, mars 16, 2005

Sambíóin bjóða mér öðru hvoru að sjá forsýningar á hinum og þessum myndum fyrir spottprís, nú síðast fékk ég boð á Ring 2. Sénsinn að ég þori að sjá þessa mynd í bíó! Fyrri myndina horfði ég á í rúminu um hábjartan dag og ég skal segja ykkur það að ég hef sjaldan orðið jafn hrædd í lífinu en samt fór ég beint út á leigu og tók Ringu 2 (japönsku útgáfuna), mér fannst hún bjánaleg. Ég get líka sagt ykkur það að ég á pottþétt eftir að horfa á Ring tvö en það verður gert á björtum degi um hásumar. Af hverju er ég að þessu?
Út fyrir endimörk alheimsins!!!
Húsnæðismál eru okkur hjónum hugleikin þessa dagana en það er með þetta eins og flísarnar á baðherberginu að við erum ekki sammála um nokkurn skapaðan hlut. Þetta gekk svo langt að við ákváðum að salta þessi mál í bili eða skilja ella. Við ákváðum samt að gera lokatilraun til að ná sáttum og skoða hús sem ég hef hingað til ekkert viljað með hafa. Það er skemmst frá því að segja að húsið fer okkur ótrúlega vel og nú bíðum við með öndina í hálsinum. Það ætti að koma í ljós fyrir helgina hvort við munum flytja út fyrir endimörk alheimsins eða hírast áfram í allt of litlu húsnæði og klóra augun hvort úr öðru.

Nenni ekki getrauninni lengur enda nánast komið rétt svar, tréð góða hristi sig og hellti gulli og silfri yfir Öskubusku, hirðþjónninn á ballinu tilkynnti að dansinn mætti byrja og hljómsveitins brast í Dónárvals (minnir mig). Muniði ekki eftir þessu? Þetta var tvöfalt albúm, á hinni plötunni voru þær Rauðhetta og Mjallhvít. Ég hélt að þetta væri klassík.

mánudagur, mars 14, 2005

Erna, þú ert orðin ansi heit í getrauninni en svarið mætti vera eilítið nákvæmara. Geturðu komið því við?

sunnudagur, mars 13, 2005

Mig minnir að ég hafi verið með svona mini getraun í gangi hérna en undirtektirnar eru ekkert gríðarlegar, er samt að spá í að láta nýja vísbendingu flakka. Hún er svona:

Tréð góða, hristu þig...

föstudagur, mars 11, 2005

Újé!!!

Tvær fyrirsagnir á einum degi! Hvar endar þetta eiginlega?
Ástæðan fyrir þessari fyrirsögn er samt ærin, ég var að skipta um ummælakerfi. Líklega hafa einhverjir tekið eftir því að Blogger er búin að vera mjög tregur síðustu daga og nánast ómögulegt að skilja eftir viðbrögð á síðum þeirra sem nota innbyggða systemið. Ég var búin að fá nóg og ákvað að reyna aftur að setja inn haloscan og viti menn, nú eru þeir farnir að setja kerfið upp fyrir mann, ekkert svona "klippa / líma" vesen. Algjörlega aulahelt!
Mig dreymdi að ég væri berleggjuð í pilsi. Ég var ótrúlega loðin á löppunum, við erum að tala um síðan feld folks! Ég ákvað að skipta yfir í buxur til að fela skankana. Hvað þýðir þetta eiginlega?
Dýrkeypt Noregsferð?

Ég horfði loksins á ædolið í gærkvöldi. Skil ekki alveg hvaða sérmeðferð Heiða fær stundum hjá dómurunum, mér fannst eins og þeir vildu ekki segja neitt um fyrri flutninginn hjá henni en svo drulluðu þeir yfir Davíð Smára fyrir snilldarflutning, þó hann hafi ekki sungið sérstaklega þá var hann bara svo einstaklega skemmtilegur, mér fannst Heiða hins vegar pínleg á köflum. Bæði stóðu sig svo vel í seinni umferðinni en Davíð þó betur, Hildur stóð sína plikt að vanda. Í staðinn fyrir Davíð hefði ég viljað sjá Siggu og Þorvald detta úr keppni, Búbbi má vera áfram. Sigurvegari í keppninni um bestu útför ever er að sjálfsögðu Kárahnjúkastykkið Davíð Smári. Spái því að Hildur Vala vinni ædolkeppnina og fari í júróvisjón á næsta ári. Heiða gerir plötu með Þorvaldi Bjarna og hlýtur gripurinn nafnið “Bara ég sjálf”, vonandi verður lukkutröllið fjarri góðu gamni við gerð hennar. Davíð Smári syngur aldrei framar ballöðu og verður rokkstjarna Íslands þvert á allar hrakspár.
Mark my words.

miðvikudagur, mars 09, 2005

Við erum dálítið mikið að spá í að skipta um húsnæði núna en draumaíbúðin sem ég talaði um hérna um daginn reyndist of dýr svo að hún er ekkert í mínum augum... ekkert. Við nennum ekki að steypa okkur í svo brjálæðislegar skuldir að við gerum aldrei neitt annað en að borga af þeim og þess vegna erum við farin að líta í kring um okkur utan höfuðborgarsvæðisins. Ég skoðaði hús í gær sem mig langar að kaupa, það er næstum helmingi stærra en íbúðin okkar, þarf aðeins að gera við og við myndum örugglega ráða við það þrátt fyrir viðgerðirnar, gætum jafnvel bætt við okkur barni og farið til útlanda öðru hvoru. Ég var svo upptjúnuð eftir skoðunina í gær að ég svaf ekki nema rétt til málamynda og er þess vegna með alzheimer í dag. Hugsanlega er ég óþarflega rómantísk gagnvart þessu húsi svo að ég ætla að hafa einn og hálfan iðnaðarmann með mér að skoða það aftur. Vonandi má ég kaupa það.

fimmtudagur, mars 03, 2005

Parísardama
,
velkomin
í
heim
hinna
sjáandi
.
Hulda mín, þetta var ekki rétt hjá þér svo að ég ætla að gefa þér og öðrum sem hugsanlega lesa, aðra vísbendingu. Setninguna er að finna á barnaplötu.

miðvikudagur, mars 02, 2005

Kannast einhver við þetta:

"Dansinn má byrja!"
 
eXTReMe Tracker