föstudagur, janúar 30, 2004

Í morgun vaknaði ég upp af draumi sem mér fannst hroðbjóðslega fyndinn og sniðugur. Ég var staðráðin í að deila honum með ykkur en þar sem ég dottaði aftur þá gleymdi ég honum og er ófær um að rifja hann upp, þrátt fyrir ítrekaðar tilraunir.

Ég hlakka mikið til að vakna í fyrramálið því að ég ætla að draga eiginmanninn með mér í mubluleit. Eftir tæplega sex ára búsetu í litlu holunni okkar á loks að gera eitthvað í málunum og koma upp einhvers konar fatahengi, Júhú!

Ég hef ekkert meira að segja núna en ætla að bjóða ykkur að rifja upp fortíð mína með mér, ég tek það fram að eftirfarandi frásögn er dagsönn og ef einhver heldur öðru fram þá er sá hinn sami aumur lygalaupur.

Bókabéus
Einu sinni var ég gift trillusjómanni á Dalvík. Hann var furðulegur maður og átti það til að borða bækur. Þetta var ekkert stórkostlegt vandamál því að ég átti nóg af lélegum skruddum sem mér var skítsama um. Kallinn var í kiljuklúbbi máls og menningar og fékk reglulega sendingu frá þeim og var mér uppálagt að matreiða bækurnar á ýmsan máta. Einhverju sinni vaknaði ég við skrjáf í stofunni um miðja nótt. Þegar ég kom fram var kallhelvítið farið að éta Þjóðsögur Jóns Árnasonar, þá skildi ég við mannfjandann.

fimmtudagur, janúar 29, 2004

Jæja, nú er ég hætt að væla. Það kemur víst fyrir að einhverjir nenni að lesa þetta þrátt fyrir að kk-ið hafi ekki beinlínis verið ofnotað.

Þar sem óboðinn pestargestur hefur haldið til á heimilinu síðustu vikununa þá hef ég ekki getað farið mikið út úr húsi. Ég er orðin óhugnalega háð sjónvarpinu og skiptir ekki öllu hvað er á dagskrá. Þessa stundina er ég að fylgjast með dr. Phil tala við offitusjúklinga um viðhorf þeirra til lífsins og kílóanna. Ég er eilítið yfir kjörþyngd og stundum er ég ofsalega leið á sjálfri mér þegar ég lít í spegil, ég tala nú ekki um þegar eitthvað stendur til og mig langar að vera glimmergella. Núna hugsa ég bara "vá hvað ég er mjó!" Ég vona bara að pestargesturinn fari að standa undir nafni og hlaupast á brott því að annars enda ég eins og gestir þeir sem sitja í settinu hjá Phil hinum fagra.

Einu sinni vann ég á sama vinnustað og maður sem er svona álíka þykkur og ég margfölduð með þremur. Hann er ekki mikið hærri í loftinu en ég þannig að hann er svona beisikklí eins og ég var rétt áður en snillingurinn leit dagsins ljós. Á fyrrnefndum vinnustað var mötuneyti og samstarfskona mín sagði mér þá sögu að maðurinn borðaði á við tvo, svo sem ekkert að því enda borgaði kallgreyið mat sinn fullu verði. Þetta endaði samt á því að eiginkonan hafði samband við matráðskonuna og bað hana að stoppa þetta af og sjá til þess að kallinn fengi ekki meira að éta en sem næmi einföldum matarskammti í hverjum matar- eða kaffitíma. Þegar ég var í slorinu í gamla daga var þar ungur maður sem gat varla unnið fyrir mötuneytiskostnaðinum, samt var hann eins og tannstöngull í laginu. Misskipt er mannanna spiki!

Einu sinni var ég hormjó og gat borðað allt sem ég vildi án þess að það sæist á mér. Svo varð ég ólétt og matarlystin minnkaði ekki við það. Mín kenning er sú að lífsýni karlmanna innihalda fitugen sem sest að í kvenlíkamanum eins og sníkill. Það er ástæðan fyrir því að margar konur eiga erfitt með að ná af sér spikinu eftir barneignir. Þetta er verðugt rannsóknarefni og á alveg von á því að rannsóknir framtíðarinnar eigi eftir að staðfesta þessa kenningu mína.

Ókei, ég skal aldrei blogga svona mikið um spik aftur og ég vona að engum ofbjóði eða misbjóði eða viðbjóði eða bjóði nokkuð yfir höfuð þótt ég hafi talað um offitu og lífsýni.

Góða nótt.

miðvikudagur, janúar 28, 2004

Elsku lesendurnir mínir tveir!

Eitthvað hefur mér förlast þegar ég setti slóðina á greinina í þar síðustu færslu en ég ætla að gera tilraun til að setja hana hér. Sá sem getur þýtt þetta á mannamál má koma í ammælið mitt.

þriðjudagur, janúar 27, 2004

Elsku Dís og steini!
Já, það hefur sem sé komið í ljós að ég á mér tvo lesendur og þeirra vegna ætla ég ekki að leggja síðuna niður. Mér þykir ótrúlega vænt um ykkur og óska ykkur alls hins besta.

Nú! Enn dreifir nýja vinnan úr sér og ég veit ekki alveg hvert þetta stefnir. Stráksi er en með bólur og hita og ég sit heima og vona að einhver skrifi mér tölvupóst eða hringi í mig.

Hlakka ógislega til að heyra frá ykkur, mér er næstum sama hvort það verða mataruppskriftir eða hvað... sendið mér bara skemmtilegan póst.

mánudagur, janúar 26, 2004

"Kæra Dís!"
Heiðursverðlaun dagsins falla dísinni í skaut þar sem hún var fyrst til að vígja nýja kommentakerfið mitt. Reyndar er ég ekki hissa á að hún hafi unnið keppnina því að hún er sú eina sem les bloggið mitt, a.m.k. hafa nánast engir aðrir gefið sig fram nema þá svo örsjaldan að þeir hljóta að hafa villst hingað inn fyrir slysni. Af þessum sökum hef ég ákveðið að tileinka Dísinni bloggið og ávarpa hana eina. Ef það kemur svo í ljós að ég á mér fleiri áhangendur þá verður ákvörðunin endurskoðuð en ekki er þó víst að henni verði breytt.

Enn er setið heima við og beðið eftir að hlaupabólurnar taki á sprett og hypji sig héðan, barnið lítur reyndar út fyrir að vera á batavegi og eru horfur á að það fari aftur á leikskólann á þriðjudaginn. Vonandi hefur þú, kæra Dís, átt ánægjulega helgi (þótt það sé reyndar erfitt að slá síðustu helgi út). Ætli ég verði ekki að fara að sýna þér myndir og sækja hnífapörin mín.

Mig langar að sýna þér smá grein, færð þú einhvern botn í þetta? Ef svo er þá þigg ég þýðingu á ÍSLENSKU.

Góða nótt elsku Svalur.

laugardagur, janúar 24, 2004

Ég er búin að setja inn nýtt kommentakerfi þar sem hitt draslið hefur ekki svarað vikum saman. Ég get samt ekki hent því gamla út strax því að ég finn það ekki í templeitinu.
Annars er lítið að frétta, stráksi er með hlaupabólu og ég hef því verið upptekin við að mála barnið með calmíni.
Bólu-Hjálmar og fjölskylda biðja að heilsa.

þriðjudagur, janúar 20, 2004

Þetta er nú alveg með ólíkindum. Mér er farið að líða eins og ég sé ein í heiminum því það eru allir hættir að blogga og ekki nóg með það heldur svara þeir ekki tölvupósti lengur, Haaaalllllllóóóóó aaallllóóó lllóóó óóó ó! Allir farnir til suðrænna landa? Ég verð þá bara að þreyja þorrann og gleðjast aftur þegar líður að sumri. KOMM ON, SVARIÐI TÖLVUPÓSTINUM, ÉG ER EINMANNA.

sunnudagur, janúar 18, 2004

Takk fyrir mig Bryndís og Einar!
Þrítugsafmælið í gær var sko vel heppnað og það var sko tekið ágætlega á því. Ég er mest hissa á því að lögregla hafi ekki verið send á staðinn til að skakka leikinn því að gestir sungu og dönsuðu af hjartans list og drógu hvergi af sér. Um hálf fjögur var ég orðinn ansi þreytt og hafði orð á því við eiginmanninn. Hann tók ekki í mál að fara heim því hann er að sjálfsögðu í essinu sínu þegar fólk fer að dansa. Til að undirstrika að mér hefði verið alvara fór ég inn í herbergi og lagði mig, það var gott og ég var endurnærð þegar ég náði kallinum loks á mitt band klukkutíma síðar.

laugardagur, janúar 17, 2004

Ég veit að það eru örfáir sem lesa síðuna mína örsjaldan en nennir engin að nota kommentakerfið? Á ég bara að henda því út? Mamma?
vossappeníng? Ekki liðinn sólarhringur síðan ég reit síðustu færslu og hér er ég komin! Ótrúlega merkilegt!

Ég finn mig knúna til að blogga þar sem ædolinu er loksins lokið.
Mér finnst ekkert merkilegt við þessi úrslit, ég hef nefnilega aldrei horft á einn einasta ædol-þátt, a.m.k. ekki íslenskan. Ég skal segja ykkur það að mér er skítsama, ég þurfti sko ekki að horfa á þetta til að vita hvað var að gerast því að það var aðalumræðuefnið í öllum kaffistofum bæjarins og ég komst ekki hjá því að heyra allt um þetta drasl. Ég vona að það verði ekki önnur svona keppni, mér finnst nóg að þurfa að fylgjast með söngkeppni framhaldsskólanna og Júróvisjón.

Jæja, það er alltaf gaman að blogga um ekki neitt...

Vell, ég þarf víst að fara að hafa mig til fyrir barnaafmæli (ég er farin að hallast að því að fengitími á Íslandi sé í apríl, allir aðrir tímar eru undantekningar).

Bæjó.

P.s. fannst ykkur vefsíðan ekki sniðug?

föstudagur, janúar 16, 2004

Er ekki bara kominn tími á smá blogg? Jú við skulum bara segja það.

Partýið hjá Drífu var býsna gott en þar sem ég er farin að gera mér ýmsar væntingar eftir innflutningspartýið góða þá verð ég að játa að ég varð fyrir smá vonbrigðum.

Mánudagurinn byrjaði heldur illa þar sem ég fann loks einkun sem ég hafði lengi saknað. Haldiði ekki að kennarinn hafi reynt að telja mér trú um að ég væri fallin með fjóra? Jú jú, hann gerði mjööög heiðarlega tilraun til þess. Ég neitaði að trúa þessu og sendi í örvæntingu tölvupóst og eyddi svo mörgum klukkutímum í vantrú og örvæntingu þar sem ég stundi reglulega "Þetta getur bara ekki verið... ég get ekki hafa fallið í þessu aulafagi!" Á fjórða tímanum fékk ég svo tölvupóst sem innihélt þá skýringu að ég hefði ekki skilað ritgerð sem gilti 50% af kúrsinum. Ég hringdi fáein símtöl og komst að því að ritgerðin mín hafði víst komist til skila en bara ekki skilað sér inn í lokaeinkunina. Ég fékk einkunina svo senda og komst að því að ég var ein af tveimur hæstu í námskeiðinu. Svona er stutt milli fjalls og fjöru. Ég er samt enn að bíða eftir að þetta verði leiðrétt hjá Nemendaskrá en ef það gerist ekki á allra næstu dögum þá mæti ég eftir helgina og kasta snjóboltum í alla starfsmenn háskólans.

Ég er byrjuð í nýju vinnunni minni og einhvern vegin finnst mér alltaf vera að bætast við það sem í upphafi var talað um. Það er allt í lagi mín vegna, ég fæ tímakaup.

Bryndís mín elskuleg varð þrítug þann þrettánda og fær hún að sjálfsögðu slatta af hamingjuóskum hérmeð (til viðbótar við þær sem hún hefur áður fengið). Ég eyddi deginum í eldamennsku með henni og ég get ekki beðið eftir að fá að snæða afrakstur erfiðisins í veislu til heiðurs hjúkkunni. Það verður reyndar ekki fyrr en annað kvöld en ég læt mig svo sannarlega dreyma fram að því.

Þegar ég byrjaði að blogga þá bauð ég upp á vefsíðu dagsins og ég er að hugsa um að hverfa til fortíðar með því að benda ykkur á þetta hér. Passiði ykkur bara á því að það er hægt að verða dálítið háður þessu.

Ég kveð í bili og vona að ég nenni einhvern tíma að vera duglegri að blogga.

laugardagur, janúar 10, 2004

Jæja gott fólk (og sumt vont líka). Ég vona að þið hafið klórað ykkur nokkuð í kollinum yfir síðustu færslu.

Það er tiltölulega tíðindalaust á vesturvígstöðum þessa dagana og það sem hefur gerst kemur ykkur ekkert sérstaklega við.

Það er lenska í bloggheimum að birta lista yfir markverða atburði síðasta árs en ég nenni því ekki, sérstaklega vegna þess að það eina merkilega sem gerðist í mínu lífi er að ég var gefin unnusta mínum til margra ára fyrir augliti guðs og manna og kvenna og barna.

Ég vil enda þennan pistil á því að óska Drífu vinkonu minni til hamingju með árin þrjátíu, skál fyrir þér Drífa mín!

Bless, ég er að fara í ammæli.
 
eXTReMe Tracker