þriðjudagur, desember 30, 2003

Mér tókst að klára öll atriðin á listanum nema 4 og 14. Ég hugsa að ég hafi bara nr. 4 fyrir áramótaheit en hvað 14 varðar þá á ég ágætis brúnkukrem sem ég tek líklega fram í kvöld svo ég verði glimmergella í bleika dressinu annað kvöld.
Jólin eru búin að vera svona hjá mér:
1. sjúklega góður matur á aðfangadagskvöld og fallegar gjafir.
2. jólaboð hjá tengdó
3. skautaferð, nýju skautarnir fara mér ótrúlega vel
4. jólaboð á Langó
5. skíðaferð, það kostar morð fjár að leigja skíði
6. Hilmir snýr heim í boði Landsbankans
7. kaffiboð á Vitastíg
8. svefn
9. svefn
10. svefn


Kæru vinir og fjölskylda, ég þakka ykkur öllum fyrir góðar stundir á liðnum árum og vona að guð og gæfan vaki yfir ykkur á árinu sem nú ber að dyrum.

föstudagur, desember 19, 2003

Jæja, nú er helv. törnin að verða búin, ég hugsa að ég eigi eftir að sofa í sólarhring þegar verkefnavinnu líkur. Ég ákvað að taka mér smá hlé í dag og skrifaði nokkur jólakort. Það eru samt ansi mörg eftir. Hér er listi yfir allt sem ég á eftir að gera áður en jólin mega koma:

1. klára að skrifa jólakort
2. kaupa næstum allar jólagjafirnar
3. finna spariskyrtu á son minn
4. Leggja af um 5 kíló
5. laga til og þrífa
6. kyssa kallinn minn sem aldrei er heima
7. skreyta
8. ákveða jólamatinn
9. versla
10. senda jólakort og pakka
11. koma öllum hinum pökkunum á sinn stað
12. slaka á
13. fara á tvö bókasöfn og skila bókum
14. verða brún
15. sofa
16. sofa
17. sofa
18. sofa
19. sofa
20. sofa

Haldiði að ég hafi þetta allt af?

föstudagur, desember 12, 2003

Kæru lesendur (ef einhverjir eruð)!
Þetta er áskorun, ég ætla að skora á ykkur að fara inn á þessa síðu og lesa færslu frá 9. desember. Þetta er háalvarlegt mál og það er öllum hollt að hugsa aðeins um aðra öðru hvoru. Ég vil þó vara ykkur við því að það er hætt við að tár muni falla en við skulum samt vona að það verði ekki svona Barn í Bíafra tár.

laugardagur, desember 06, 2003

Sáuði þáttinn um búðarhnupl sem var sýndur á RÚV um daginn? Ókei, muniði eftir konunni sem vann við að nappa þjófa? Ókei, muniði eftir konunni í Muriel´s wedding sem gengdi sama hlutverki? Ókei, muniði eftir kasettutækinu hennar Muriel? Ókei, ég átti vasadiskó sem var alveg í sama stíl. Litirnir voru nákvæmlega þeir sömu og takkarnir voru eins. Steini bróðir keypti mína græju þegar hann fór til útlanda. Muriel´s wedding er uppáhalds myndin mín og þegar ég gifti mig síðasta sumar var ég næstum því að vona að brúðkaupið mitt yrði eins... samt bara næstum því.

miðvikudagur, desember 03, 2003

SAMVISKUBIT DAUÐANS!
Ég er hræðileg móðir og ekki er faðirinn mikið skárri. Þannig er mál með vexti að í síðustu viku sótti faðirinn soninn í leikskólann og þegar heim kom, henti sá eldri í mig miða sem fjallaði um dagskrá leikskólans í desember. Ég sat við ritgerðarskrif og próflestur og mátti því ekkert vera að því að lesa miðann. Um helgina ætlaði ég svo að kynna mér málið en þá fannst helv. bleðillinn hvergi. Í gær sótti ég soninn á leikskólann og bað fóstrann um nýjan miða svo ég gæti nú fylgst með. Hann fann hvergi eintak en lofaði mér því að hafa það tilbúið fyrir mig í morgun. Pabbinn fór svo með drenginn í morgun og sótti hann nú síðdegis þar sem ég er enn á kafi í ritgerð. Hei! Haldiði að það hafi ekki verið foreldradagur í dag! Allir foreldrar mættu og föndruðu pínu með börnunum, smökkuðu piparkökur sem þau höfðu málað og hlustuðu á þau syngja jólalög. Aumingja litli snillingurinn minn! Oj hvað hann á hræðilega foreldra. Mér skilst reyndar að hann hafi bara skemmt sér ágætlega, en samt! Mig langar bara að fara að grenja! Gat bévítans fóstrinn ekki látið mig vita í gær! Ég sagði honum að ég vissi ekkert um dagskrána framundan! %#@&%#"!
Þetta er nú meiri tryllingurinn þessi desembermánuður. Þegar eitt er búið þá tekur það næsta við og svo næsta og svo næsta og svo næsta. Ég veit ekki alveg hvenær ég á að hafa tíma til að græja jólakortin og kaupa jólagjafir, ætli ég endi ekki bara í sjoppunni og kaupi rauðan ópal á línuna.

Þrif segiði... kannski næsta vor.
Jólabakstur... ætli það. Nema laufabrauð teljist með.
Jólamaturinn... sennilega týni ég til eitthvað sem liggur undir skemmdum í frystinum og helli frönskustrám úr bauk á disk með.

Þið eruð nú meiri jólasveinarnir.
 
eXTReMe Tracker