föstudagur, mars 31, 2006

Sándtrakk lífs míns krefst yfirlegu en mun vonandi verða tilbúið innan viku.
Fylgist með...

miðvikudagur, mars 29, 2006

Icelandair keypti upp allt auglýsingapláss moggans í dag og það er svo sem gott og blessað. Ég sé hins vegar enga ástæðu fyrir því að blaðið fjalli ítarlega um fyrirtækið í lesmálinu, mér finnst fúlt að borga þessa umfjöllun með mínum peningum.

þriðjudagur, mars 28, 2006

Ég er svolítið blá núna.

Við sýndum síðustu sýninguna um helgina og auðvitað var það langskemmtilegasta sýningin. Leikhópurinn er alveg magnaður og mér finnst bara alveg þrælsorglegt að þurfa að yfirgefa þessa öðlinga í sumar.
Eiginmaðurinn kom heim um helgina og systkyni mín þyrptust í Þorpið til að fara með honum á sjóvið, held að þeim hafi ekki leiðst neitt rosalega. Hái, dökkhærði og myndarlegi maðurinn hvarf af landi brott í gær.
Mér gengur ekki alveg nógu vel að skrifa og ég er hrædd um að gamall draugur sé farinn að gera svolítið vart við sig. Ég kann samt að kveða niður svona drauga.

þriðjudagur, mars 21, 2006

Ég er svöng.
hvort á ég að fá mér súkkulaði eða samloku í hádegismat?
Nú er búið að sýna söng- og gleðileikin fjórum sinnum og alltaf fyrir fullu húsi, það er býsna gott. Síðasta sýning í bili verður á laugardaginn og þeir koma að sjá hana eru ákaflega lánsamir þar sem bæjarstjóri Þorpsins, Ólafur Áki fjallagarpur, ætlar að elda eitthvað gott handa þeim fyrst og svo verður dúndrandi ball á eftir, semsagt svona Broadway stemmning.

Það er einhver Lukka farin að gera sig heimakomna í kommentakerfinu mínu og sú hegðar sér svolítið eins og ég eigi að þekkja hana, ég er ógeðslega forvitin. Er það kannski hin eina sanna Lukka hrukka? Ef ekki gefðu mér þá vísbendingu, plís!

miðvikudagur, mars 15, 2006

Sjitt! Ég þori aldrei aftur að loka augunum af ótta við að sjá fyrir mér eða dreyma Geir Ólafs og "Halle Berry". Ég get svo svarið að ég var farin að halda fyrir augun undir það síðasta, þetta særði blygðunarkennd mína.

þriðjudagur, mars 14, 2006

"Ég mun hugsa til þín á jólunum, ég mun biðja fyrir þér hvar sem þú verður... eh... ég vona að það verði góð aðstaða til að biðja, ég verð á Kanaríeyjum en ég finn mér stað. Hafðu engar áhyggjur. Uh... njóttu þess litla sem þú átt eftir. Sofnaðu bara... eða þú getur vakað ef þú vilt..."

Sigtið var bara nokkuð fyndið.

föstudagur, mars 10, 2006

Garg! Eftir ævintýri kvöldsins (sem m.a.o. gekk mjög vel) get ég engan veginn sofnað, ég er búin að rembast eins og rjúpan við staurinn síðustu tvo tímana, líkaminn vill en hugurinn ekki. Ég er búin að yfirfara allan texta í hausnum á mér aftur og aftur en ekkert virkar. Garg!!!

fimmtudagur, mars 09, 2006

Í kvöld gerist það.
"Ég elska alla" verður frumsýnt í Ráðhúsi Ölfuss og allir eiga að mæta, reyndar er nánast uppselt en fáein sæti eru laus annað kvöld og aðeins fleiri þann 17. mars.
Um er að ræða söng- og gleðileik. Ef þið viljið heyra meira um þetta þá getið þið hlustað á mig og vinkonu mína á vef Ríkisútvarpsins, velja bara rás 1, 8. mars, morgunvaktin, að endurreisa leikfélag. Amen.

þriðjudagur, mars 07, 2006

Nú styttist ískyggilega í að við frumsýnum. Ég stefni að því að verða orðin alveg raddlaus og helst bara veik, eða þannig, það væri a.m.k. dæmigert. Ég er langt leidd af stressi og eiginlega ekki mönnum sinnandi en það gerir ekki til þar sem minn maður er í Englandi. Eiginlega hefðum við þurft að æfa í svona mánuð í viðbót en nú er ekkert að gera annað en að krjúpa á kné og biðja um kraftaverk.

fimmtudagur, mars 02, 2006



Eru virkilega engin úrræði til að efla atvinnulíf í landinu okkar önnur en þau að planta niður eiturspúandi álverum á alla tiltæka bletti? Er þetta arfurinn sem við viljum að gangi til barnanna okkar? Ég neita að trúa því að við Íslendingar séum svo illa gefin að geta ekki fundið neinar aðrar leiðir til þess að bæta kjör landsbyggðarinnar.

Einu sinni flaug félagi manns míns yfir álverið við Hafnarfjörð, það vakti athygli hans að eitthvað var að leka í sjóinn frá álverinu og hann myndaði það. Þessar myndir eru að finna á heimasíðu Sléttunnar en því miður er hún enn niðri eins og aðrar that.is síður, ég skal reyna að birta þær ef síðan kemst aftur í loftið.

Ég er alin upp á norðurlandi og átti ömmu frá Húsavík og afa úr Þingeyjarsýslunum. Mér þykir vænt um norðurland og reyndar landið mitt allt en mér þykir vænna um son minn og framtíð hans. þess vegna skrifaði ég undir þennan lista.

miðvikudagur, mars 01, 2006

Lítil ninja fór í skólann í morgunn og hitti þar silvíur, spædermenn, nornir, púka og alla hina. Þegar hann kom heim var hann búinn að innbyrða tvö prinspóló, tvo sleikipinna, ís, fullt af karmellum, súkkulaði og öðru drasli. Ég efast um að hann hafi nokkurn tíma áður borðað svona mikið nammi á einum degi. Hell... höfum það einni viku.

Ég lagði mikla vinnu við að hanna öskudagsbúninginn minn í ár, ég gætti þess að greiða mér ekki eða farða, fór ekki í brjóstahaldara, valdi elstu og sjúskuðustu hettupeysuna mína og sjúskaðar gallabuxur og útkoman varð hrein út sagt fabulous. Typical sloppy housewife. Þetta verður seint toppað.
 
eXTReMe Tracker