mánudagur, febrúar 28, 2005

Það er að afar hollt að hætta að reykja en það getur haft afleiðingar, jafnvel hræðilegar. Síðasta föstudag fann ég orkuna streyma um mig og vissi að ég yrði að koma henni frá mér með góðu eða illu. Ég byrjaði á því að rífa niður stofugardínurnar og þvo þær en það dugði ekki til svo að ég gekk berserksgang í herbergi sonar míns, alla helgina reif ég og tætti (eiginmaðurinn hjálpaði líka pínu, oggulítið), blótsyrðin fuku en þar sem ég var í barnaherbergi lét ég ekkert grófara út úr mér en “ansans ári!” ég sagði það samt svolítið oft en hei, ég á ennþá eiginmann og son sem vilja búa með mér svo að þetta var vel þess virði og drengurinn er að sjálfsögðu alsæll núna. Gallinn við þetta er sá að ég er búin að fá útrás fyrir orkuna og nú er gangurinn hjá mér fullur af drasli sem ég losaði úr herberginu og verð að koma einhvers staðar fyrir. Nú þarf ég að hætta einhverju öðru svo að ég hafi mig í tiltekt í geymslunni, einhverjar uppástungur?

Hér að neðan má sjá myndir af afrakstrinum.

fyrir (rúmið er reyndar komið út á mitt gólf þarna) Posted by Hello

eftir Posted by Hello

fyrir Posted by Hello

eftir Posted by Hello

fyrir Posted by Hello

eftir Posted by Hello

smá auka Posted by Hello

meira auka Posted by Hello

fimmtudagur, febrúar 24, 2005

"Felst lykillinn að lífshamingjunni í nettara nefi og bólgnari barmi?"

miðvikudagur, febrúar 23, 2005

Svo virðist sem mig dreymi einstaklega mikið núna og það koma alltaf reykingar við sögu. Í fyrrinótt og nóttina þar áður reykti ég smá en í nótt var ég alltaf trufluð þegar ég var að fara að kveikja í. Í forföllum var ég beðin að taka að mér lítið hlutverk í stórum söngleik og átti að læra lagið og dansinn fimm mínútum áður en ég fór á svið. David Hasselhof bauð mér í afmælið sitt, hann hélt upp á það í Mosó að degi til, vildi nefnilega vera í Færeyjum um kvöldið. Ég keypti handa honum ódýrustu sængina og koddann í Rúmfatalagernum og pakkaði því inn í væmin rauð og hvít rúmföt. Utan um allt þetta fór fullt af rauðum umbúðapappír og enn meira af límbandi. Á sama tíma var mér boðið í afmæli til Nornarinnar og ég verð að segja að mér tókst betur upp með að velja gjöf handa henni, falleg uppstoppuð rolla og úr. Þessu var pakkað þannig böggullinn leit út fyrir að vera líkkista, silfursvartur glansandi pappír utan um og bleikar rósir ofan á, ótrúlega smart. Það tók heilmikinn tíma að finna þessar fínu gjafir en þegar það var loks afgreitt, settist ég niður með sígarettu til að ákveða í hverju ég ætti að vera. Þá var hringt úr leikhúsinu og mér tilkynnt að það væri beðið eftir mér, ég væri næst á sviðið. Ég ákvað að sleppa afmælinu hans Davids, klára mitt á sviðinu, tjútta svo með Norninni og kveikja seinna í sígarettunni. Ég veit ekki hvernig neitt af þessu fór þar sem ég vaknaði þegar hér var komið sögu. Helvítis raunveruleiki!

þriðjudagur, febrúar 22, 2005

Af hverju eru eiginlega allir latir að blogga núna? Hafiði eitthvað betra að gera? Og hvað er með that.is liðið, eruði í felum letibloggarar? Held ég horfi bara á Spiderman 2 myndina sem Leibbalingurinn gaf pabba sínum í afmælisgjöf.

Afmælisbarn dagsins Posted by Hello
Elskulegi eiginmaður, til hamingju með daginn!!!

Ég var að reyna að birta mynd af honum en blogger og hello eru ekki alveg að tala saman núna, sjáum hvað setur seinna í dag.

mánudagur, febrúar 21, 2005

Ég graðka í mig öllu sem að kjafti kemur, svo fremi sem það er ekki holt.

Súkkulaði - tjekk
orkusælgæti - tjekk
saltpillur - tjekk
ostapopp - tjekk
piparmolar - tjekk
magapína - tjekk

Annaðhvort byrja ég aftur að reykja eða drullast í ræktina á morgun, ætli það síðarnefnda verði ekki ofan á.
Missti mig aðeins í tilraunum með birtu og stillingar. Mér finnst að maðurinn minn ætti að gefa mér oftar blóm, þá þyrfti ég ekki að festa svona rækilega á filmu þegar það gerist.

Posted by Hello

Posted by Hello

Posted by Hello

Posted by Hello

Posted by Hello

Posted by Hello

Posted by Hello

Posted by Hello

Ég elska túlípana. Posted by Hello
Í nótt dreymdi mig sígarettur og bókasöfn. Í draumunum var ég að berjast við löngunina og þar kom að ég lét undan. Ekki í alvörunni samt. Þekkt andlit úr veitingahúsabransanum á Akureyri var búinn að láta byggja landsins flottasta bókasafn en vildi helst ekki lána neinar bækur út, þær voru meira svona til sýnis. Svo voru líka börnin hennar Berglindar að synda í öllum smápollum sem þau komust í tæri við. Sonur minn var með óspektir á Bókasafni Hafnarfjarðar. Af hverju dreymir mig svona oft bókasöfn?

sunnudagur, febrúar 20, 2005


Karlarnir mínir færðu mér vönd af eftirlætis blómunum mínum í dag Posted by Hello
Fór með eiginmanninum á veitingastað í gær í tilefni af afmælinu hans þann 22. Ákváðum að breyta aðeins til og borða í heimabænum og sjáum svo sem ekki eftir því. Þrátt fyrir óða axarmorðingja ákváðum að taka sénsinn og prófa matinn á A Hansen. Eiginmaðurinn fékk sér parmaskinku í forrétt og humar í aðalrétt, ég vildi heldur humarinn í forrétt og svo ægilega fínar lamba-, grísa- og nautalundir í aðalrétt. Forrétturinn minn var einstaklega vel úti látinn, raunar svo vel að ég hætti að borða hann þegar ég var orðin vel södd, ég gat svo rétt nartað í aðalréttinn, líklega hef ég borðað svona einn þriðja af honum. Forréttur eiginmansins var af nokkuð eðlilegri stærð en humarinn hans var ekki síður vel skammtaður. Þrátt fyrir þetta tókst spúsa mínum að klára matinn sinn og minn líka, eins fór hann létt með að hesthúsa ísinn sem húsið bauð honum upp á í tilefni afmælisins, duglegur strákur! Það er eiginlega nauðsynlegt að taka fram að ísinn var borinn fram á diski en ásamt honum voru þrír kyndlar á diskinum, á einum logaði appelsínugulur eldur, öðrum bleikur og grænblár á þeim þriðja, ótrúlega smart! Að máltíð lokinni ákváðum við að gera þetta bara svona keppnis og prófa að tjútta í Hafnarfirði og ég get sagt ykkur að það þarf ekki að vera slæmt, Café Aroma í Firði er t.d. þokkaleg búlla og eiginlega upplifðum við svona þorrablóts- eða sveitaballastemningu þar. Skemmtilegt kvöld og algjörlega laust við leigubíla.
Í dag hóf ég nýtt líf. Það er svo sem ekki erfitt þegar maður er hálf rykaður og gæti orðið stórmál þegar rykið fýkur burt. Ég geri mér engar grillur um það að þetta verði auðvelt, ég á eftir að vera eins og naut í flagi fyrstu vikuna en svo verður þetta smám saman auðveldara. Nú vona ég veitingahúsabannið nái fram að ganga svo að ég falli ekki í freistni þegar ég sest niður á einhverju kaffihúsinu.

síðasti naglinn. Posted by Hello

miðvikudagur, febrúar 16, 2005

Nýja ANTM er loksins byrjuð. Í eldri þáttunum hefur dramað ágerst eftir því sem á líður en í þessum fyrsta þætti var allt útbíað í því, barslagur, tík, anorexía, blind gella og allt!!! Hvernig verður framhaldið eiginlega? Það er harðbannað að missa af þessum þáttum því þeir eru fullkomin snilld!!!

þriðjudagur, febrúar 15, 2005

Ég er með strengi í dag (fæ aldrei harðsperrur). Lét loks verða af því í gær að vígja líkamsræktarkortið sem ég er búin að eiga í þrjár vikur en hef ekki getað notað sökum heilsuleysis. Ég tók ágætis þyngd í tækjum fyrir maga, rass og læri en þegar kom að efri hluta líkamans var ég algjör aumingi, enda finn ég bara til í bak-, axla-, handleggs- og brjóstvöðvum. Mér líður ótrúlega vel og maðurinn minn er farinn að spyrja hvenær ég fari að taka þátt í fitness. Það mun aldrei gerast.

sunnudagur, febrúar 13, 2005

Ég væri nú ekki almennilegur kvenmaður ef ég hefði ekki dálítið gaman af skóm. Vandamálið er bara að ég er með svona vandræðalappir sem þola ekki hvaða skæði sem er og þess vegna gerir tízkan mér oft erfitt fyrir, ekki það að ég þurfi að eiga skó eins og Svava í 17 heldur eru aðrir skór en þeir sem hún leggur blessun sína yfir, ófáanlegir (takið eftir að hér er Svava notuð sem samnefnari yfir allar tízkulöggurnar). Nú eru hins vegar ógurlega skemmtilegir tímar að því leyti að alls konar fótabúnaður er móðins og skyndilega fást alls staðar skór sem henta mínum aumu fótum og það besta er að þeir eru ekki allir eins. Í dag gerði ég mér ferð alla leið í Glæsibæ til þess að skanna skóútsölu ásamt tugum annarra skósjúkra kvenna og mér líður eins og ég hafi unnið í lottóinu, ég fann tvenn unaðsleg pör sem kostuðu slikk og sá fleiri sem ég gæti vel hugsað mér að eignast. Eins keypti ég íþróttaskó á Leibbalingin og var svo ótrúlega lánsöm að þeir eru of litlir, það þýðir að sjálfsögðu að ég verð að gera mér aðra ferð og hver veit hvað rekur á fjörur mína þá? Hér fyrir neðan má svo sjá myndir af dýrðinni.

sjúklega gott að ganga á þessum. Posted by Hello

Eru þeir ekki unaðslegir? Posted by Hello

föstudagur, febrúar 11, 2005

Á þessum árstíma fæ ég alltaf á tilfinninguna að það sé óvenju mikið um dauðsföll og þetta árið er engin undantekning, ég held jafnvel að núna nálgist metár (ekki það að það sé eitthvað eftirsóknarvert). Hafiði tekið eftir því hversu margar dánarfregnir eru í blöðunum á degi hverjum? Ekki? Kíkiði þá í Fréttablaðið í dag. Flensan er getur verið ótrúlega hættuleg.

Fyrir sjö árum upp á dag, kvaddi amma mín elskuleg þennan heim. Hún var að mínu mati einn sá almesti snillingur sem uppi hefur verið, sjö barna móðir, verkakona, hannyrðakona, vinkona (bæði lítilmagnans og mín) og allt. Hún var líka stórreykingakona en náði þrátt fyrir það að verða 82 ára gömul. Einu sinni var fjölskylduboð hjá annarri dóttur hennar, sú gamla sat frammi í eldhúsi með sígarettuna í annarri og öskubakkann í hinni. Ég settist hjá henni og við tókum spjall eins og okkar var von og vísa. Þegar sígarettan var brunnin upp og kominn tími til að kveikja í þeirri næstu fékk siðprúði unglingurinn hún ég aðkenningu að taugaáfalli, kveikjarinn hennar skartaði mynd af alsnöktum karlmanni. Þegar ég hafði jafnað mig, áttaði ég mig á þvíð að þetta var ótrúlega smart og ákvað að ég skyldi verða eins þegar ég kæmist á áttræðisaldur. (Nú er ég reyndar búin að lofa að hætta að reykja þann 20. febrúar en það er enginn sem segir að ég geti ekki byrjað aftur í ellinni en það væri kannski skemmtilegra að vefja eina og eina jónu en að svæla hitt eitrið.)
Amma mín var mér ótrúlega góð og er eiginlega bara fyrirmynd mín í lífinu, vonandi kemst ég einhvern tíma með tærnar þar sem hún hafði hælana, meira bið ég ekki um.
Aldeilis búin að svíkja loforðið.
Sumarbústaðarferðin um síðustu helgi var eins og hún átti að vera fyrir utan smávægileg heilsufarsvandamál sem virðast hrjá lýðinn um þessar mundir. Þið hefðuð bara átt að smakka súkkulaðikökuna sem ég bakaði og ekki var nú rjóminn slæmur heldur, að ég tali nú ekki um folaldið sem ég steikti!
Borðaði hálfa bollu og sleppti saltkjötinu alveg enda er það alveg ljóst að ég þarf að endurskoða mataræðið ýtarlega ef ég ætla ekki að þorna alveg upp.
Ekkert nýtt að frétta af hugleiðingum um húsnæðiskaup.
Eiginmaðurinn búinn að vera í Danmörku síðan á þriðjudag, kemur heim á laugardag og eins gott að hann kaupi eitthvað fallegt handa spúsu sinni.
Ædolpartý og spaghettí fram undan og svo bara brjáluð vinna um helgina.
Nýtt viðmót á kommentakerfinu... miklu skemmtilegra en það gamla.
Var að rifja upp Hello og setti þess vegna inn mynd hér fyrir neðan, ætla að leyfa henni að vera enda börnin gullfalleg og hvers manns hugljúfi.
Ódáðaborg er frábær þáttur.
Furðuleg færsla en svona það sem mér liggur helst á hjarta.

Leibbalingurinn og kærastan Posted by Hello

laugardagur, febrúar 05, 2005

Ég neyðist til að brjóta loforðið um blogg á dag því að ég er að fara í sumarbústað á morgun og þar er að sjálfsögðu engin nettenging. Fór í barnaafmæli í dag sem var svo framlengt í ædol partý svo að nú hef ég horft á heilan þátt, óruglaðan. Það er svo sem engin þörf á að halda áfram með þessa keppni því að þetta steinliggur hjá Hildi Völu, Heiða verður svo númer tvö ef allt er með felldu. Eða öfugt. Það þarf náttúrulega ekki að taka það fram að síðan ég kom heim er ég búin að stúdera keppendur og flutning þeirra fram til dagsins í dag og það eru allar líkur á að næstu föstudagskvöld bjóði ég sjálfri mér í heimsókn til einhverra sem tíma að borga stöð 2. Orð dagsins er Kárahnjúkastykki.

fimmtudagur, febrúar 03, 2005

Ég lofaði víst bloggi á dag. Hef svosem ósköp lítið að segja en ég hafði rétt fyrir mér um íbúðina. Við hringdum bara í eigendurna og fengum að skoða, þetta er akkúrat íbúðin sem ég get hugsað mér að eyða ævinni í, nóg pláss fyrir börn, hund og flugvél, svalir til að drekka morgunkaffið og garður með geitungagildru. Nú er bara að sjá hvort við getum sett saman tilboð sem allir verða ánægðir með. Ég er flutt inn í huganum og hlakka svo til að velja mér borðstofuborð í nýju borðstofuna. Allir að krossleggja fingurna núna.

miðvikudagur, febrúar 02, 2005

Ég held að íbúðin sem ég þrái sé á leiðinni á sölu og nú er ég með allar klær úti til að ná henni, verð að fá hana!

þriðjudagur, febrúar 01, 2005

Það eru einhverjir ólátabelgir með skæting í kommentakerfinu mínu. Hlustiggjáedda. Ég er risin upp úr pestinni og nú er ég að bíða eftir að losna fullkomlega við fylgifiskana til þess að geta notað líkamsræktarkortið sem ég gaf eiginmanninum umboð til að fjárfesta í, fyrir mína hönd, á meðan óráðið réði yfir huga mínum . Finnst einhverjum þetta vera stolið? Samt allt satt (til hamingju með íbúðina þið þarna!)

Mér finnst gaman að ganga um bæinn og bjóða fólkinu í kringum mig góðan dag. Ég verð eitthvað svo glöð og full trausts á mannkyninu þegar ókunnug manneskja úti á götu kinkar kankvíslega til mín kolli. Íslendingar eru ekki sérlega duglegir við þetta og ég var það ekki heldur á mínum yngri árum, horfði stundum frekar niður eða út í loftið og flautaði ef ég mætti einhverjum. Eftir harðvítuga menntaskólagöngu flutti ég tímabundið til Austurríkis og ég gleymi því aldrei þegar ung kona mætti mér, bláókunnugri manneskju, og heilsaði svona líka vingjarnlega. Mér datt ekki annað í hug en að hún væri að taka feil en eftir nokkra daga var ég farin að heilsa öllum sem ég mætti, á sama hátt. Mér fannst synd að leggja þennan góða sið niður þegar ég kom heim og ákvað þess vegna að gera tilraun á Laugaveginum. Ég valdi fallegan rigningardag til verksins, leiddi reiðhjól við hlið mér þannig að fólk þyrfti kannski aðeins að hafa fyrir því að mæta mér, starði svo brosandi á alla sem ég mætti og hafði upp úr krafsinu tvær kveðjur, báðar af erlendum uppruna. Hvort segir þetta meira um mig eða Íslendinga almennt? Skora á ykkur að prófa þetta.

Ég ætla að fara að dæmi Huldu og þykjast ætla að blogga daglega í viku (hún stefnir reyndar á tvær færslur á dag en ég legg ekki í að lofa því.)

 
eXTReMe Tracker