þriðjudagur, febrúar 28, 2006

Það kemur líklega ekki á óvart að hér verður ekkert saltkjöt á borðum í kvöld, vitur maður sagði eitt sinn "oft má saltkjöt liggja" og því fær það að liggja í kjötborðum í nóatúni og öllum hinum okurbúllunum, sérvalið eður ei.

mánudagur, febrúar 27, 2006

Því miður er that.is pósthólfið mitt dáið en ef þið viljið eiga samskipti við mig þá er nýja netfangið mitt arny.leifshjásimnet.is
Veist þú hvað er að vera flippaður?
Þessa spurningu fékk ég frá pilti á fermingaraldri um helgina, það er greinilegt að honum finnst ég óskaplega gömul þó að ég sé ekki sama sinnis en reyndar hef ég verið að reka mig á það að undanförnu að það eru næstum tuttugu ár frá því að unglingurinn ég var unglingur. Þetta er auðvitað fáránlegt enda finnst mér eins og þetta hafi gerst í gær. Gott ef það verða ekki tuttugu ár á næsta ári frá því ég stóð prúðbúin við hlið skólasystkyna minna og játaði kristna trú í heyranda hljóði.

Veit ég hvað er að vera flippaður?
Auðvitað veit ég það!
Ég fann upp á því!

föstudagur, febrúar 24, 2006

Ef eitthvert ykkar hefur sent mér tölvupóst síðustu daga þá biðst ég afsökunar á að hafa ekki svarað, póstþjónustan liggur niðri um stundarsakir og verður ekki reist við fyrr en þjónustuaðilinn er risinn upp úr veikindum.

fimmtudagur, febrúar 23, 2006

Trúi ekki að ég hafi gleymt að segja karrý á ógeðslistann. Ég þoli það reyndar í mjög litlu magni.

Í næsta nágrenni við heimili mitt er verið að reisa nýtt íbúðahverfi og heyrast því reglulega alls kyns skruðningar og læti. Að undanförnu hefur orðið vart við miklar sprengingar þar sem svæðið er undirlagt af klöppum. Rétt í þessu hvað ein ansi öflug við, svo öflug reyndar að sófinn sem ég sit í lyftist upp, buxurnar mínar högguðust, hárið flaksaðist aftur af höfðinu og gluggar og hurðir hristust með látum.
Ég held a.m.k. að þetta hafi verið sprenging frekar en venjulegur jarðskjálfti því að skjálftavakt veðurstofunnar sýnir enga skjálfta í Ölfussi stærri en þrjá á richter síðustu mínúturnar.

Eiginmaðurinn átti óvænt frí frá vinnu í gærkveldi og því notaði ég tækifærið til að grilla oní hann vel blóðuga steik sem var að sjálfsögðu framreidd með dýrindis meðlæti að hætti hússins. Erfingjanum fannst ótækt að afhenda föður sínum afmælisgjöfina á venjulegan máta og faldi hana því í einum eldhússkápnum en faðirinn var ekki lengi að finna hana þar sem drengurinn hafði valið uppáhaldsskápinn sinn; kexskápinn.

miðvikudagur, febrúar 22, 2006

Það má víst ekki gleyma því að betri(?) helmingurinn á afmæli í dag.
Til hamingju sæti!
Áskorun!

Erla Hlyns bað um lista yfir mat sem mér þykir viðbjóður. Gjörðu svo vel:

Algjör hroðbjóður:
Svið í hvaða formi sem er
Kjötfars
Bjúgu
Bláberjaskyr.is
Síld í öllum tilbrigðum
Hrossabjúgu
Mysingur
Kavíar í túbum
Saltkjöt
Niðursoðin jarðaber *hrollur*
Hrefnukjöt
Enskur morgunverður
Gellur
Mongólskt þurrkað kjöt

Get pínt oní mig:
Allt brauð sem inniheldur rúsínur
Soyasósa
Fiskborgarar
Steiktur fiskur í raspi
BBQ-sósa
Hvítkál

Veit ekki alveg:
Ég hef ekki enn smakkað baunarétt sem mér þykir góður að undanskildum saltkjötsbaununm.
Einu sinni hef ég borðað góðan indverskan mat og hann var heimatilbúinn með minni hjálp.

Ég er pottþétt að gleyma einhverju. Mér finnst ég ekkert sérlega matvönd en gaman væri að heyra hvað ykkur finnst.
Svo skora ég á Erlu og Hörpu J að gera sjálfar lista.

þriðjudagur, febrúar 21, 2006

Bara svo það sé á hreinu þá eru bjúgu líka ógeðsleg.
Jæja, þið fáið víst ekki að vita hvað ég er búin að lesa margar bækur af listanum sem gengur nú á netinu. Ég get samt sagt ykkur að það er u.þ.b. helmingur.

Fokkings blogger!
Akkuru í andskotanum get ég ekki komið inn helvítis færslunni sem ég var að skrifa?

mánudagur, febrúar 20, 2006

Kjötfars er viðbjóður!

sunnudagur, febrúar 19, 2006

Jeppaklúbburinn 4x4... eða eitthvað.

4 störf sem ég hef unnið við um ævina: leiðbeinandi á leikjanámskeiði, spyrill, sundlaugarvörður, buffetdama.
4 bíómyndir sem ég gæti horft á aftur og aftur og aftur: Muriel´s wedding, One flew over the cuckoo's nest, The others, La double vie de Véronique.
4 staðir sem ég hef búið á: Siglufjörður, Akureyri, Schröcken, Hafnarfjörður.
4 sjónvarpsþættir sem mér líkar: Desperet housewifes, Threshold, ANTM, Lost.
4 staðir sem ég hef heimsótt í fríum: Gardavatn, München, Skara, Barcelona.
4 síður sem ég skoða daglega, (Fyrir utan blogg): Mbl, mikki vefur, that.is/steini, ruv.is.
4 matarkyns sem ég held upp á: Kjúklingapönnsur, folaldasteik, önd a la mamma, saltlakkrís.
4 bækur sem ég les oft: Meistarinn og Margaríta, Harry Potter, Felidae, Þjóðsögur hverskonar.
4 staðir sem ég vildi heldur vera á núna: Í bíó á Walk the line, að borða humar á A Hansen, í nætursundi í hlýjum sjó, á skíðum.
4 bloggarar sem ég klukka: Gvendarbrunnur, Slr, Ernae, Beggi.com.

föstudagur, febrúar 17, 2006

Nú er ég að fylgjast með alpatvíkeppni kvenna. Amerísku stelpurnar eru frekar svalar, ein skíðaði brautina með kórónu á höfðinu og önnur var með perlufesti um hálsinn. Ótrúlega smart.

fimmtudagur, febrúar 16, 2006

Ég er að horfa á listhlaupið á skautum, þá dönnuðu og fallegu íþrótt. Spennan er óbærileg og ég verð eins og eiginmaðurinn yfir spennandi fótboltaleik (er það til?), æjandi og óandi, húrrandi og hlæjandi. Ofboðslega var Kanadamaðurinn sætur í svörtu peysunni utan yfir hvítu skyrtunni, hvílík tilbreyting frá öllu glimmerinu og draslinu sem gerir mann bara hálf vandræðalegan. Svo er ég búin að komast að því að það er miklu skemmtilegra að horfa á beina útsendingu á Eurosport, kynnarnir hafa samúð með keppendum, hvetja þá og ráðleggja keppendum á alla lund. Ég heyri alveg í Samma segja "hertu upp hugann góði minn, þú getur þetta alveg" í beinni útsendingu með tilfinningu í röddinni. Eða ekki.

þriðjudagur, febrúar 14, 2006

Ég hef einu sinni nöldrað yfir því að blómabúðirnar auglýsa valentínusardaginn hérlendis og það var á hrekkjavöku( sem ég vil miklu frekar taka upp). Ekki skal meira nöldrað yfir þessum degi elskenda, megi hann fara í rass og rófu.

Ég er með ritstíflu og get því illa komið frá mér því sem ég á að vera að skrifa um akkúrat núna, bíð eftir að andinn komi yfir mig eða í glasið. Ég hef hins vegar talað við nokkra andans jöfra í dag og í kvöld kemur góður gestur sem ætlar að segja mér sögu.

mánudagur, febrúar 13, 2006

Mér líður heldur betur í dag, ekki síst vegna þess að mig dreymdi að ég gerði mikla uppreisn gegn samfélagi þar sem nánast allir voru steyptir í nákvæmlega sama mót. Ég var ein af örfáum sem hélt sjálfstæðri hugsun og þurfti að losa aðra undan oki valdhafanna. Ég átti að vísu mikla baráttu fyrir höndum en var einhvern veginn uppfull af væntumþykju og trú á að þetta væri bara tímabundið ástand. Svo vaknaði ég. Svo sofnaði ég aftur. Þá var ég knapi á veðhlaupahesti að keppa til úrslita á ólympíuleikum.
Mig dreymir alltaf í lit.

sunnudagur, febrúar 12, 2006

Ég trúi því að maðurinn sé fæddur góður en stundum þarf ég að beita mig hörðu til að missa ekki trúna. Í dag er svoleiðis dagur, fréttamyndir í fjölmiðlum, sögur af fólki og framkoma sumra hefur hrist illilega upp í mér og ég veit ekki alveg hvernig ég á að losna við ógleðina sem er að magnast upp innra með mér. Eins gott að eiginmaðurinn er að heiman því annars fengi hann líklega eitthvað yfir sig sem hann á ekki skilið.

laugardagur, febrúar 11, 2006

Ég er að hugsa um að hneyksla ykkur með því að blogga þriðja daginn í röð.

Í gærkvöldi fengum við hjónin góða gesti sem átu, drukku og glöddust með okkur. Singstar var haft um hönd og ó boj hvað það er skemmtilegt! Í mínum augum er þetta það eina sem getur réttlætt kaup á pleisteisjon, reyndar hef ég barist hatrammlega gegn slíkum kaupum en mótstaðan fer dvínandi, sérstaklega ef ég fæ alla singstar diskana.

Takk fyrir frábært kvöld öll!

föstudagur, febrúar 10, 2006

Loksins drullaðist ég til að hlekkja fleiri bloggara.
Ármann þarf vart að kynna enda goðsögn í bloggheimi,
GEN var í sama menntaskóla og ég,
Apinn í tekinu er indælis stúlka, alls kostar óapaleg og það furðulega er að ég vissi ekki að hún bloggaði fyrr en í gær.

fimmtudagur, febrúar 09, 2006

Elsku krúttin mín,
Það er alveg með ólíkindum hvað þið eruð dugleg að líta hér við þrátt fyrir algert aðgerðaleysi af minni hálfu. Þarna um árið þegar ég var að velta því fyrir mér að setja teljara á síðuna, spáði einn lesandi (sem nú er held ég hættur að lesa) því að það myndi bara fara illa með sálina mína ef heimsóknafjöldi stæði ekki undir væntingum. Þetta er aldeilis ekki raunin enda hlýnar mér um hjartarætur þegar ég sé ykkur koma aftur og aftur þrátt fyrir bloggþreytu mína. Er ég kannski farin að taka þetta full persónulega?

Nú verða sagðar fréttir:

Ég er hætt að vinna á vinnustað Satans og (loksins) byrjuð á BA ritgerðinni, þó lítið sé þá er þetta mikill persónulegur sigur.

Það snjóar í Þorpinu í dag, þetta er svona "kúra undir sæng með bók og drekka kakó" dagur. Ég hef ekkert kakó drukkið og sængin er víðsfjarri.

Æfingar hjá leikfélaginu ganga ljómandi vel og áætlað er að frumsýna í byrjun mars.

Það er tæpt ár síðan ég greindi frá (þá) fyrirhuguðum flutningum til Þorpsins og nú ætla ég aftur að greina ykkur frá fyrirhuguðum flutningum, að þessu sinni út fyrir landsteinana. Minn ektamaki hverfur af landi brott um næstu helgi en við leibbalingurinn ætlum að bíða sumarsins. Fyrirheitna landið er England. Þar ætla ég að ala upp barn (börn?), skoða landslag, söfn, Stonehenge og fara á Franz Ferdinand tónleika.

Fleira er ekki að frétta í dag, fréttir verða næst sagðar þegar andinn kemur í glasið.
 
eXTReMe Tracker