þriðjudagur, janúar 10, 2012

Kvöldmatur

Alsæl dóttir mín sagðist hafa fengið rjóma í kvöldmatinn í gær. Ég hló og trúði henni mátulega enda veit ég að eiginmaðurinn er fullfær um að næra börnin þótt ég bregði mér af bæ. Við nánari eftirgrennslan kom í ljós að kvöldmáltíðin samanstóð af soðnu pasta með tómatsósu og súkkulaðibúðingi með rjóma. Þetta þótti víst hin besta veisla.

föstudagur, janúar 06, 2012

Fyrir fimm árum...


"Klukkan 13:15 fæddist drengur með rauðleitt hár, hann er 51 cm og 3740 gr og hefur hlotið nafnið Emil. Þetta gekk ljómandi vel en ég skal segja ykkur betur frá síðar, nú má ég til með að leggja mig þar sem ég hef ekki sofið í rúman sólarhring.

Sjáumst."

Meðfylgjandi mynd var tekin á aðfangadagskvöld, af einhverjum ástæðum náðist engin mynd af gleraugunum um jól eða áramót. Sem er spes þar sem hann vill helst sofna með þau á nefinu.

fimmtudagur, janúar 05, 2012

Fýlupúkinn

Íslenskt samfélag er óstjórnlega leiðinlegt þessi misserin. Það er magnað (eða hitt þó) að fylgjast með fréttamiðlum og athugasemdadálkum þeirra því fólk hikar ekki við að segja það sem því sýnist um hvern sem er, satt eða logið og helst ekkert fallegt. Miðað við þetta lítur út fyrir að það séu eintómir eiginhagsmunaseggir, fávitar og karlrembur (af báðum kynjum) sem byggja landið. Venjulegt fólk missir pínulítið vit við hvern lestur og verður á endanum samdauna. Held að okkur sé ekki við bjargandi. Ógeðslega leiðinlegt Ísland. Djöfull nenni ég þessu ekki.
 
eXTReMe Tracker