mánudagur, júlí 31, 2006

Í dag er skýjað og gola, svona dæmigert íslenskt veður en kannski heldur hlýrra. Ég er ekki frá því að þetta ýti svolítið undir heimþrá hjá mér, mig langar í útilegu með foreldrum mínum og systkynum, mig langar að grilla með vinkonum mínum, mig langar í skyr og ab-mjólk, mig langar að setjast upp í bíl og keyra, mig langar að vera barnlaus í smá stund, mig langar að geta keypt ostasósu og venjulegt seríós. Hvað um það, þetta gengur yfir og reyndar líkar mér betur og betur við England með hverjum deginum sem líður.

Þetta með seríósið... mér finnst það gott og ekki spillir fyrir að ljósmóðir á Íslandi bent mér á að það væri ágætt fyrir mig þar sem ég átti í vandræðum með járnframleiðslu þegar snillingurinn bjó undir beltinu. Vandamálið er að Bretar borða bara sykurleðjuseríós og það venjulega er ekki fáanlegt í stórmörkuðum. Fyrir rúmri viku vorum við á flandri í einum af nágrannabæjunum og þið getið ímyndað ykkur gleði mína þegar við mér blasti gamli góði guli seríóspakkinn í búðarglugga. Að sjálfsögðu æddi ég inn í búðina og hugsaði mér aldeilis gott til glóðarinnar, ég sá sjálfa mig í anda með fangið fullt af hinu dýrmæta seríósi og ég réði mér varla fyrir kæti. Ég hrökklaðist tómhent út aftur. Lítill pakki kostaði rúmlega 800 kall! Ég verð að láta mér góðvild vina og vandamanna nægja.

Ég stefni að því að fara einu sinni til Íslands áður en líkamlegt ástand bannar það alveg. Ég ætla að fara með tóma ferðatösku og koma með hana fulla af gulum seríóspökkum heim aftur.

föstudagur, júlí 28, 2006

Hversu svalt er þetta!
Jæja, það er bara kominn föstudagur enn eina ferðina. Ferlega líður tíminn hratt. Mig langar að fara eitthvað um helgina, kannski til London eða Hunstanton eða bara eitthvað.
Skoðunin gekk vel og ég fékk loks staðfest að ég er ekki ímyndunarólétt, hjartsláttur og læti bara. Ég á svo pantaðan tíma í ómskoðun á þriðjudaginn.

Ég mæli með því að allir sem vettlingi geta valdið mæti við Bandaríska sendiráðið klukkan hálf sex í dag og láti í ljós andúð á framferði Ísraelsmanna og Kana um þessar mundir.

Vonandi verður veðrið ykkur hagstætt um helgina.

þriðjudagur, júlí 25, 2006

Ég er komin með nýtt gsm númer og er búin að fjarlægja íslenska kortið úr símanum mínum, héðan í frá verður það eingöngu virkt þegar ég er heima á Íslandi.
Þeir sem vilja nýja númerið geta haft samband í tölvupósti og fá það þá sent um hæl.

Annars erum við bara í stuði hérna í hitanum, erum svona mest að drepa tímann núna þar til úrslitaþáttur Rockstar byrjar, Dilana söng Ring of Fire í gærkvöldi og ég er dáleidd. Hún er sjúklega flottur performer og ég efast um að hún sé af þessum heimi. Ég er búin að heyra þetta í hausnum síðan í gærkveldi og átti erfitt með svefn í nótt. Þetta vitið þið reyndar flest þar sem þið eruð einum eða tveimur þáttum á undan okkur.

Á morgun fer ég loks í fyrstu mæðraskoðun, ekki seinna að vænna enda á 17. viku. Snillingurinn hefur fengið nýtt nafn (en vonandi bara tímabundið) og kallast núna Límmiðinn. Hann er eilítið óöruggur um stöðu sína og hlutverk innan fjölskyldunnar og hallast helst að því að honum verði skilað þegar nýr einstaklingur lítur dagsins ljós. Við erum svona að reyna að ræða við hann í rólegheitum og vonandi jafnar hann sig fljótlega.

Fleira er ekki í fréttum í bili.

föstudagur, júlí 21, 2006

Það er enn heitt en nú nenni ég ekki að láta það stoppa mig lengur, þetta er síðasti skóladagur snillingsins í bili og því síðustu forvöð fyrir mig að skoða skó í ró og næði.
Himnaríki hér kem ég...

þriðjudagur, júlí 18, 2006

Ykkur finnst ég líklega ömurleg að kvarta yfir hitanum hérna en öllu má nú ofgera. Um kvöldmatarleytið voru 33 gráður og morgundagurinn á víst að verða heitari. Það er erfitt að sofa og athafna sig, utan dyra sem innan, og orðið pungsviti hefur öðlast merkingu í mínum huga. Jæja, ég skal hætta núna og þið megið minna mig á þetta þegar ég kvarta yfir kuldanum í vetur.

Rockstar: Supernova er loksins byrjað hér, fyrsti þátturinn var í gærkvöldi og úrslitin eru núna, þjóðarremban veldur því að ég held með Magna þótt ég hafi svo sem aldrei verið sérlega hrifin af honum og svo finnst mér Dilana alveg mögnuð, Lucas er ömurlega tilgerðarlegur og aðrir hafa ekki vakið athygli mína enn. Ég er spennt að sjá framvinduna.

Fiðrildi eru krípí.

mánudagur, júlí 17, 2006

Hitinn hérna er óbærilegur núna, ég sé fram á að halda mig inni næstu daga nema þegar ég þarf að koma snillingnum í og úr skóla. Ég hef líka verið rækilega minnt á það að börn byrja að leika sér að blöðrum í móðurkviði svo það er eins gott að fara aldrei lengra en fáeina metra frá klósettinu.

Það er rúmur mánuður síðan ég hætti að rækja en í nótt dreymdi mig að ég hefði byrjað að reykja aftur og það í laumi, mig langaði óskaplega að reykja í morgun en ég stóðst freistinguna með því að kíkja aðeins í Nóakroppsfötuna sem mamma og pabbi komu með. Annars fóru þau í gær og það er skemmst frá því að segja að það er frekar tómlegt á heimilinu í dag og ég veit varla hvað ég á af mér að gera. Síðustu viku höfum við þvælst um nágrennið og skoðað fáeinar búðir og eiginlega er ég búin að fá nóg í bili, ég verð búin að jafna mig þegar næstu gestir koma. Ég ætla samt að fara og skoða skósafn í þessari viku, lái mér hver sem vill.

fimmtudagur, júlí 13, 2006

Í kvöld er hátíð í bæ, netið er komið.
Í öðrum fréttum er það helst að foreldrar mínir elskulegir eru í heimsókn og rétt í þessu standa þau í miklum mauramorðum enda troða helvítis kvikindin sér alls staðar, m.a.s. í frystiskápinn en reyndar enda þau ævina þar.
Ég fékk óvænta og skemmtilega heimsókn í vikunni, vinkona mín var stödd í Lundúnaborg þegar hún minntist þess að ég væri flutt til Englands. Hún lét sig ekki muna um að stökkva upp í lest og heimsækja mig, ég vona svo sannarlega að þið hin takið hana til fyrirmyndar enda hef ég nóg pláss fyrir ykkur.
Leifur er byrjaður í skóla og gengur mjög vel að aðlagast og svo er hann alveg hrikalega sætur í skólabúningnum, við tókum reyndar þriggja daga frí fyrir hann núna svo að við getum aðeins þvælst með mömmu og pabba og svo byrjar eiginlegt sumarfrí 21. júlí.
Ég er búin að kaupa mér 6 pör af skóm síðan ég kom en lítið af fötum þar sem ég er of stór í flest venjuleg föt en of lítil í tækifærisfatnað.
Við erum líka búin að eyða ógislega miklum peningum í heimilistæki og húsgögn og sundlaug en það er bara of dýrt að kaupa ný föt í hvert skipti sem þau gömlu fara að standa sjálf, svo elska ég líka nýju Husqvarna uppþvottavélina mína.
Ég ætla ekki einu sinni að ræða veðrið hérna, þið eruð nógu svekkt fyrir.
 
eXTReMe Tracker