þriðjudagur, mars 02, 2004

Vælið mitt var toppað með glæsibrag í kommenti við síðustu færslu og já Gulla, þetta er alveg rétt hjá þér, við erum stálheppnar og ég hugsa að ég sé jafnvel heppnari en þú. Baðherbergið verður orðið glænýtt og fínt áður en langt um líður, ég á ágætis ryksugu og nóg af tuskum, ég er útsofin í dag og eiginmaðurinn (sem er jafnframt liðtækur í ryksugun) brá sér bara upp að Kárahnjúkum í nokkra daga. Þetta er bara ágætt allt saman og maður á ekki að vera að kvarta svona alltaf hreint, það eru flestir í mínu lífi við góða heilsu, ég er í skemmtilegu námi og ágætri vinnu og þar að auki á ég notalega íbúð og bíl sem virkar (þótt hann þarfnist sárnauðsynlega yfirhalningar). Skítt með það þó að ég sé skítblönk og nokkrum kílóum of þung, ég hef allt til alls og á þar að auki fullan frysti af mat. Og síðast en ekki síst er nánasta fjölskylda og vinir allt svo ljómandi gott fólk sem er tilbúið að leggja ótrúlega mikið á sig ef maður þarf á hjálp að halda.

Lífið er bara býsna gott!

Engin ummæli:

 
eXTReMe Tracker