sunnudagur, október 03, 2004

Heimilislífið í hnotskurn

Ég átti erindi í búð eins og gengur og gerist á venjulegum heimilum. Snillingurinn fékk að fara með og við versluðum ýmsar krásir, þ.á.m. þetta fína læri af nýslátruðu. Í fjarveru okkar nýtti heimilisfaðirinn tækifærið og tefldi við páfann en lét það eiga sig að loka að sér á meðan. Í lítilli íbúð eins og okkar er lykt ekki lengi að dreifa sér og þess vegna fitjaði ég upp á nefið og hneykslaðist á fnyknum þegar ég kom heim. Maðurinn minn svaraði því til að það kæmi nú ekki beint ilmvatnsangan úr afturendanum á mér þegar ég sinni kalli náttúrunnar, ég var ekki alveg á sama máli enda sagði vitur maður eitt sinn "sæt er lykt úr sjálfs rassi" og þar að auki sýni ég ALLTAF þá kurteisi að loka að mér. Að þessum umræðum loknum kryddaði ég lambalærið af alkunnri snilld og stakk því svo í ofninn. Hvort fnykurinn umræddi var algerlega gufaður upp eða hvort matarilmurinn yfirgnæfði hann alveg, skal ég ekki segja. Fáeinum mínútum síðar kom kærasta snillingsins í heimsókn. Hún hnusaði út í loftið og spurði svo hvaða lykt þetta væri. Drengurinn svaraði grafalvarlegur:
"Þetta er ilmvatnslykt úr rassinum á mömmu minni!"

5 ummæli:

hulda sagði...

Hahaha. Þá veit ég hvernig þú lyktar, sambland af læri og rassi.
Ég þekki einn sem segir í hvert sinn sem hann prumpar:"I smell roses". Ég veit ekki hvort það er nefið á honum eða mér sem er bilað en það minnir mann ekkert á rósir!

leifur sagði...

Drengurinn er náttúrulega snillingur ;)

Hr. Pez sagði...

Skemmtileg tilviljun: ég kann einmitt brandara þar sem við sögu kemur rós sem ilmar svoleiðis.

Ljúfa sagði...

Láttu hana flakka!

Hr. Pez sagði...

Þegar vel stendur á, þegar vel stendur á...

 
eXTReMe Tracker