sunnudagur, nóvember 28, 2004

Það er víst býsna langt síðan síðast, óskaplega líður tíminn hratt, ég tók hreinlega ekki eftir þessu! Í millitíðinni hef ég haldið mínum daglega bloggrúnti og gert athugasemdir hér og þar eins og ég er vön. Síðasta föstudagskvöld hneykslaðist ég óskaplega yfir bloggara nokkrum sem hafði ekkert ritað þann daginn en er annars ákaflega duglegur. Hvað haldiði að hann hafi gert? Jú, mikið rétt, hann gaf mér einn á kjammann! (eða svona allt að því) Og auðvitað átti ég það skilið. Með tár í augum og grátstaf í kverkum biðst ég hér með afsökunar.

Mér finnst nóvember oft frekar erfiður mánuður, það er mánuðurinn sem ég get ekki lesið blöð, horft á sjónvarp eða hlustað á útvarp vegna endalauss jóla/kaupmanna áróðurs, ég tala nú ekki um að stíga fæti inn í verslunargötur eða þaðan af verra. Ég er svoleiðis að ég missi mig í jólaskapið um leið og síbyljan hefst en þá er það líka horfið tveimur vikum fyrir jól, af þeim sökum reyni ég að útiloka hana þar til ég er tilbúin. Mér finnst passlegt að byrja jólaundirbúning fyrsta sunnudag í aðventu, ég hef t.d. aldrei verið búin að búa til aðventukransinn fyrir þann dag, stundum hefur það jafnvel beðið til annars sunnudags aðventunnar. Rétt í þessu lagði ég lokahönd á krans þessa árs og ó boj ó boj! Ég er ekki enn búin að gera það upp við mig hvort mér þyki hann ótrúlega flottur eða viðbjóðslega hallærislegur en hann er í það minnsta alveg einstakur. Verst að ég var búin að taka út myndaforritið því það pirraði mig svo óskaplega. Jæja, kannski reyni ég að hrúga því upp aftur. Nú er a.m.k. svo komið að jólaskapið hefur mig í heljargreipum og ég hef ekki hugmynd um hvar þetta endar, laufabrauð og föndur um næstu helgi og ég veit ekki hvað og hvað. Vá hvað er hægt að þvaðra mikið um lítið!

Engin ummæli:

 
eXTReMe Tracker