föstudagur, janúar 21, 2005

Í dag fékk ég skemmtilegan tölvupóst þar sem viðkomandi minnti mig á að kjósa sig í kosningunni á rás 2 í dag. Fólk verður að bera sig eftir björginni, þetta er almennilegt!

Ég ligg í eymd og volæði og les Harry Potter and the Order of the Phoenix í hundraðasta skipti. Ég er búin með flestar bækurnar sem við fengum í jólagjöf. Kleifarvatn er eins og við var að búast, ljómandi góð. Erlendur verður sterkari fyrir hugskotsjónum mínum með hverri bókinni en spurning hvort hann er ekki farinn að líkjast kollega sínum honum Wallander þó nokkuð. Belladonnaskjalið er ágætis afþreying en ef einhvern langar að lesa verulega góða bók af þessu tagi þá mæli ég frekar með Dumasarfélaginu. Danteklúbburinn er svolítið erfið í fyrstu en þegar maður kemst í gang þá er hún þrælfín og spennandi.

Hátíðarhöldum í tilefni Bóndadags verður frestað á þessu heimili vegna hors og heilsuleysis en ég vil samt nota tækifærið og óska ykkur til hamingju með daginn strákar!

2 ummæli:

Þórhallur sagði...

Ég er að endurvekja kynni mín við lögreglusögur þeirra hjónakorna Maj Sjöwall og Per Wahlöö. Þótt þær séu orðnar rúmlega þrjátíu ára gamlar þá eru þær að mínu viti enn framúrskarandi spennubækur. Ekki er það verra hversu djúp þjóðfélagsádeila þær eru líka á köflum.

Erna Erlingsdóttir sagði...

Erlendur þróast milli bóka en Wallander ekki; hann er alltaf eins. Þetta finnst mér mikill kostur á Erlendi.

Danteklúbburinn drap mig næstum úr leiðindum. Hef sjaldan lent í öðru eins.

 
eXTReMe Tracker