sunnudagur, febrúar 20, 2005

Fór með eiginmanninum á veitingastað í gær í tilefni af afmælinu hans þann 22. Ákváðum að breyta aðeins til og borða í heimabænum og sjáum svo sem ekki eftir því. Þrátt fyrir óða axarmorðingja ákváðum að taka sénsinn og prófa matinn á A Hansen. Eiginmaðurinn fékk sér parmaskinku í forrétt og humar í aðalrétt, ég vildi heldur humarinn í forrétt og svo ægilega fínar lamba-, grísa- og nautalundir í aðalrétt. Forrétturinn minn var einstaklega vel úti látinn, raunar svo vel að ég hætti að borða hann þegar ég var orðin vel södd, ég gat svo rétt nartað í aðalréttinn, líklega hef ég borðað svona einn þriðja af honum. Forréttur eiginmansins var af nokkuð eðlilegri stærð en humarinn hans var ekki síður vel skammtaður. Þrátt fyrir þetta tókst spúsa mínum að klára matinn sinn og minn líka, eins fór hann létt með að hesthúsa ísinn sem húsið bauð honum upp á í tilefni afmælisins, duglegur strákur! Það er eiginlega nauðsynlegt að taka fram að ísinn var borinn fram á diski en ásamt honum voru þrír kyndlar á diskinum, á einum logaði appelsínugulur eldur, öðrum bleikur og grænblár á þeim þriðja, ótrúlega smart! Að máltíð lokinni ákváðum við að gera þetta bara svona keppnis og prófa að tjútta í Hafnarfirði og ég get sagt ykkur að það þarf ekki að vera slæmt, Café Aroma í Firði er t.d. þokkaleg búlla og eiginlega upplifðum við svona þorrablóts- eða sveitaballastemningu þar. Skemmtilegt kvöld og algjörlega laust við leigubíla.

2 ummæli:

Hildigunnur sagði...

svo verðurðu að prófa Tilveruna (ef þú hefur það ekki nú þegar) uppáhalds hafnfirska veitingahúsið mitt.

Nafnlaus sagði...

Jú ég hef prófað og líkaði vel.

 
eXTReMe Tracker