sunnudagur, febrúar 13, 2005

Ég væri nú ekki almennilegur kvenmaður ef ég hefði ekki dálítið gaman af skóm. Vandamálið er bara að ég er með svona vandræðalappir sem þola ekki hvaða skæði sem er og þess vegna gerir tízkan mér oft erfitt fyrir, ekki það að ég þurfi að eiga skó eins og Svava í 17 heldur eru aðrir skór en þeir sem hún leggur blessun sína yfir, ófáanlegir (takið eftir að hér er Svava notuð sem samnefnari yfir allar tízkulöggurnar). Nú eru hins vegar ógurlega skemmtilegir tímar að því leyti að alls konar fótabúnaður er móðins og skyndilega fást alls staðar skór sem henta mínum aumu fótum og það besta er að þeir eru ekki allir eins. Í dag gerði ég mér ferð alla leið í Glæsibæ til þess að skanna skóútsölu ásamt tugum annarra skósjúkra kvenna og mér líður eins og ég hafi unnið í lottóinu, ég fann tvenn unaðsleg pör sem kostuðu slikk og sá fleiri sem ég gæti vel hugsað mér að eignast. Eins keypti ég íþróttaskó á Leibbalingin og var svo ótrúlega lánsöm að þeir eru of litlir, það þýðir að sjálfsögðu að ég verð að gera mér aðra ferð og hver veit hvað rekur á fjörur mína þá? Hér fyrir neðan má svo sjá myndir af dýrðinni.

1 ummæli:

Gadfly sagði...

Fínir skór. Mitt vandamál er ekki tískan heldur stærðin. Það virðist útilokað að fá skó með pinnahælum í minni stærð og það er ekki hægt að ganga á pinnahælum ef skórnir smellpassa ekki. :(

 
eXTReMe Tracker