laugardagur, júlí 30, 2005

Ég var mjög taugaveikluð í gær og það ástand varði í u.þ.b. tvo tíma eftir að síðasta færsla var rituð. Það kemur fyrir á bestu bæjum að bloggarar þurfa að pissa og ég er þar engin undantekning. Sem ég var að spúla á mér lúkurnar varð mér litið í spegilinn og hvað haldiði að ég hafi séð? Helvítis fluguskrímslið sat í mestu makindum á skyrtunni minni, rétt neðan við hálsmálið. Hefur sjálfsagt verið að bíða færis að bíta mig á háls og drekka úr mér allt blóð. Ég sá mér þann kost vænstan að grípa salernispappír og ná kvikindinu, fyrst slapp hún við pappírinn en með ótrúlegri þrautsegju tókst mér að handsama óvættina. Ég var reyndar fyrr um daginn ítrekað búin að reyna að slá hana með bókinni minni(sem m.a.o. er 734 síður og því nokkuð farg fyrir meðal flugu)en hún færði sig bara undan í mestu makindum og slapp því við hvert einasta högg. Ég meina... það var ekki eins og hún væri að fljúga í burtu heldur labbaði hún bara eins og hún væri á skemmtigöngu á fallegum sumardegi (sem var reyndar raunin). En ég var víst komin að þessari örlaga stundu þegar ég stóð með kvikindið vafið inn í klósettpappír. Mér fannst ég vera almáttug þar sem ég hafði örlög hennar algjörlega og bókstaflega í hendi mér. Án nokkurrar eftirsjár kreisti ég pappírsvöndulinn af öllum lífs og sálar kröftum og ég held að ég hafi rekið upp hlátursroku um leið. Hvað haldiði að hafi svo gerst? Þú gast rétt (rokkprik fyrir þann sem fattar hvaðan þetta tilsvar er komið), mér rann kalt vatn milli skinns og hörunds þegar ókindin ætlaði að fara enn eina skemmtigönguna og með hryllingsópi kuðlaði ég vöndlinum saman aftur, fleygði honum í salernið og sturtaði niður. Þegar ég kom náföl og í mikilli geðshræringu fram í sal þá mættu mér undrandi og jafnvel óttaslegin andlit gestanna sem höfðu fram að því gætt sér á kaffi og síldarbrauði og höfðu ekki grun um að það væri nokkuð misjafnt á seyði. Það er alveg á hreinu að ég ætla sko ekki að lyfta lokinu á salerninu framar, ég verð bara að halda í mér ef nauðsyn krefur.
Ég hlýt að eiga mér ókunnan fjandmann, fjölkunnugan ofan í kaupið.

Þegar ég var búin að vinna fór ég á videoleigu og tók "Exorcist: The Beginning" en í henni eru einmitt skemmtileg atriði þar sem flugur og lirfur skríða út úr kýlum á fólki og svona. Afar gáfulegt.

Engin ummæli:

 
eXTReMe Tracker