fimmtudagur, febrúar 09, 2006

Elsku krúttin mín,
Það er alveg með ólíkindum hvað þið eruð dugleg að líta hér við þrátt fyrir algert aðgerðaleysi af minni hálfu. Þarna um árið þegar ég var að velta því fyrir mér að setja teljara á síðuna, spáði einn lesandi (sem nú er held ég hættur að lesa) því að það myndi bara fara illa með sálina mína ef heimsóknafjöldi stæði ekki undir væntingum. Þetta er aldeilis ekki raunin enda hlýnar mér um hjartarætur þegar ég sé ykkur koma aftur og aftur þrátt fyrir bloggþreytu mína. Er ég kannski farin að taka þetta full persónulega?

Nú verða sagðar fréttir:

Ég er hætt að vinna á vinnustað Satans og (loksins) byrjuð á BA ritgerðinni, þó lítið sé þá er þetta mikill persónulegur sigur.

Það snjóar í Þorpinu í dag, þetta er svona "kúra undir sæng með bók og drekka kakó" dagur. Ég hef ekkert kakó drukkið og sængin er víðsfjarri.

Æfingar hjá leikfélaginu ganga ljómandi vel og áætlað er að frumsýna í byrjun mars.

Það er tæpt ár síðan ég greindi frá (þá) fyrirhuguðum flutningum til Þorpsins og nú ætla ég aftur að greina ykkur frá fyrirhuguðum flutningum, að þessu sinni út fyrir landsteinana. Minn ektamaki hverfur af landi brott um næstu helgi en við leibbalingurinn ætlum að bíða sumarsins. Fyrirheitna landið er England. Þar ætla ég að ala upp barn (börn?), skoða landslag, söfn, Stonehenge og fara á Franz Ferdinand tónleika.

Fleira er ekki að frétta í dag, fréttir verða næst sagðar þegar andinn kemur í glasið.

Engin ummæli:

 
eXTReMe Tracker