mánudagur, júlí 31, 2006

Í dag er skýjað og gola, svona dæmigert íslenskt veður en kannski heldur hlýrra. Ég er ekki frá því að þetta ýti svolítið undir heimþrá hjá mér, mig langar í útilegu með foreldrum mínum og systkynum, mig langar að grilla með vinkonum mínum, mig langar í skyr og ab-mjólk, mig langar að setjast upp í bíl og keyra, mig langar að vera barnlaus í smá stund, mig langar að geta keypt ostasósu og venjulegt seríós. Hvað um það, þetta gengur yfir og reyndar líkar mér betur og betur við England með hverjum deginum sem líður.

Þetta með seríósið... mér finnst það gott og ekki spillir fyrir að ljósmóðir á Íslandi bent mér á að það væri ágætt fyrir mig þar sem ég átti í vandræðum með járnframleiðslu þegar snillingurinn bjó undir beltinu. Vandamálið er að Bretar borða bara sykurleðjuseríós og það venjulega er ekki fáanlegt í stórmörkuðum. Fyrir rúmri viku vorum við á flandri í einum af nágrannabæjunum og þið getið ímyndað ykkur gleði mína þegar við mér blasti gamli góði guli seríóspakkinn í búðarglugga. Að sjálfsögðu æddi ég inn í búðina og hugsaði mér aldeilis gott til glóðarinnar, ég sá sjálfa mig í anda með fangið fullt af hinu dýrmæta seríósi og ég réði mér varla fyrir kæti. Ég hrökklaðist tómhent út aftur. Lítill pakki kostaði rúmlega 800 kall! Ég verð að láta mér góðvild vina og vandamanna nægja.

Ég stefni að því að fara einu sinni til Íslands áður en líkamlegt ástand bannar það alveg. Ég ætla að fara með tóma ferðatösku og koma með hana fulla af gulum seríóspökkum heim aftur.

Engin ummæli:

 
eXTReMe Tracker